miðvikudagur, 9. október 2013

Vinir og matur



Veit ekki alveg hvað ég á að skrifa um, langar svona mest að tala um vini mína og matinn hérna, hahaha!  Ætla bara að láta skapið ráða.

Jæja, um daginn (21. september) fór ég í aðra quinceañera-veislu.  Ég keypti afmælisgjöf með Paulu og í leiðinni keypti ég líka jarðarber á markaðinum.  Það er svo sem ekkert merkilegt en það kemur mér ennþá á óvart hvað allt er ódýrt hérna en ég keypti kíló af jarðarberjum á tvö soles.  Fyrir þá sem ekki vita eru það u.þ.b. 90 kr. 
Allavega, svo fór ég í veisluna sem var mjög skemmtilegt og auðvitað var ég heillengi að hafa mig til eins og vanalega. ;) Allar stelpurnar og strákarnir voru svo fín og afmælisprinsessan auðvitað líka, hún Miriam.  Svo var dansað og spjallað og þetta var mjög gott kvöld.  Hafði líka farið sama dag í afmæli í Carabayllo og þar hitti ég Simon (skiptinemi) og Antoniu (sjálfboðaliði).


Svo er ég búin að eignast nokkra vini í skólanum.  Fyrsti sem ég ætla að nefna er Rodrigo eða "Rorro".  Hann er gjörsamlega yndislegur og svo mikil dúlla og við heilsumst alltaf með handabandinu sem við bjuggum til í einhverju flippi.   Svo knúsar hann mig alltaf ógeðslega fast og ég dýrka það því eins og flestir vita er ég algjört knúsudýr.  Svo er Alonso, sem er alltaf svo brosmildur (og með fullkomið bros) og hann byrjaði að segja: "Djo-djo-djo-djona" við mig (en flestir hérna bera nafnið mitt fram sem Djóna) og eftir það eru þó nokkrir sem kalla mig það ennþá sem er rosaskemmtilegt.  Jose Miguel er líklega rólegastur og kannski smá dulur, en mjög fyndinn og skemmtilegur.  Svo eru þeir Jason og Leonardo.  Jason er alveg frábær, mjög hress, skemmtilegur og fyndinn.  Leonardo er mesta yndi sem ég veit um, svona manneskja sem öllum líkar vel við því hann er svo næs við alla.  Brando er snillingur og ég lá í kasti um daginn þegar hann var að segja íslensk orð um daginn.  Hann sagði m.a. setningar eins og: "Can you give me your peningar?", "are you a milljónamæringur?" og "do you want to stinga someone?". José Maria er alltaf brosandi en er líka mjög rólegur og þægilegt að spjalla við hann.   Eduardo er algjör skellibjalla, þvílík dúlla og elskar k-pop (popptónlist frá Kóreu).  Hann er svo einstakur og óhræddur við að vera hann sjálfur og hann er líka góður dansari.  Ókei...þeir eru allir sjúklega góðir dansarar, meira að segja ég, diskódívan sjálf, öfunda þá af þessum mjaðmahreyfingum! Ég vona að ég sé ekki að gleyma neinum...allavega, allir strákarnir eru SVO YNDISLEGIR! Í alvörunni, íslenskir strákar verða að herða sig því flestir strákanna hérna kunna að dansa og sumir þeirra kunna á 4 hljóðfæri!  Auk þess eru þeir ljúfustu og rómantískustu strákar sem ég hitt!  Veit ekki hvort ég var búin að segja frá því en það eru nokkur pör hérna og bara hvernig strákarnir tala um kærusturnar sínar...þeir gefa sko ekkert eftir í hrósum og ástarjátningum. ;) 
Svo eru auðvitað stelpurnar.  Mirian er algjör engill, svo gjafmild og hjartahlý.  Svo er Nicolle, sem gaf mér hringinn sinn og er svo yndisleg og brosmild.  Gianella og Yaninna eru svo algjörar bombur (sérstaklega á dansgólfinu) og eru rosahressar og skemmtilegar.  Mercy er algjörlega einstök, alveg rosalega hreinskilin og mjög fyndin.  Maria Gracia og Mafer (Maria Fernanda) eru yndislegar, mjög jarðbundnar og rólegar og Aileen, Karen og Lucy eru mestu krúslur í heimi! Svo þarf líka að minnast á það að þær eru allar gullfallegar! Kannski minntist ég ekki á alla en bara...allir krakkarnir í skólanum eru svo meiriháttar og koma svo vel fram við mig! 

Hérna hef ég líka komist á lagið með að drekka te sem ég gerði aldrei á Íslandi.  Finnst það betra en bara venjulegt vatn hérna (dekurrófan saknar ísskápsins með klakavélinni).  Svo eru bestu mangó í heimi hérna, held ég myndi hreinlega velja þau fram yfir súkkulaði og ég er mesta súkkulaðisvín sem ég veit um! En svo eru líka fullt af góðum kexum og nammi og ég og Paula erum að reyna að passa að missa okkur ekki í nammiátinu, það er svo margt gott hérna og auðvitað mjög ódýrt líka!  Svo er hægt að fá jógúrt líka og ótrúlega krúttlega litla banana sem ég er mjög hrifin af og tek oft í nesti.  
Uppáhaldsmaturinn minn hérna er m.a. grænt pasta og kjúklingur, túnfiskspasta, chaufa (hrísgrjónaréttur), tortilla (sem þýðir eggjakaka og ER eggjakaka, ekki hveitikaka eins og það sem við þekkjum á Íslandi) og svo er líka rosagóður brokkolíréttur sem ég held mikið upp á.  Perúbúar eru rosalega duglegir að nota grænmeti í réttina sína sem er alveg frábært (og vegur vonandi smá á móti namminu sem ég borða, hahaha!) Okkur Paulu finnst picarones mjög gott en það er steikt deig með klístruðum kanilsykurlegi, alveg ógeðslega óhollt auðvitað! Churros er líka best í heimi, steikt deig með karmellufyllingu og alfajor er líka gott, tvær kexkökur, mjög lausar í sér, með karmellu á milli.  Svo er ein snilld hérna, svona sæt, klístruð mjólk, geðveikt gott með jarðarberjum eða pönnukökum (sem ég gerði einmitt um daginn með Brendu, systur minni).
Jamm, svo er ég bara búin að vera í kósýheitum og ég horfi stundum á myndir með Paulu og við spjöllum mikið saman, frábært að búa í sama húsi og besta vinkona manns hérna! 

Það var nú ekki mikið merkilegt í þessu bloggi en það var nú kannski meira til að láta ykkur vita að ég hef það alveg rosalega gott hérna! 
Skrifa meira síðar! :D