fimmtudagur, 22. maí 2014

Að uppskera eins og þú sáir

Jæja, ætla að skrifa smá blogg sem ég ætla að reyna að hafa í jákvæðari kantinum þó ég hafi ekki verið sú allra hressasta undanfarna daga.

Þið munið kannski eftir því í byrjun þegar ég lofaði sjálfri mér að verða ekki reið...ja, ég veit ekki hvort það hafi tekist.  Mér finnst ég aldrei hafa verið eitthvað brjáluð og hatað allt en ég verð oft alveg rosalega sár, sérstaklega þegar ég á slæma daga.  Ég hef hugsað með mér að ég skilji ekki af hverju ég hef alltaf reynt að vera góð manneskja og koma vel fram við aðra ef ég lenti svo í svona.  Eins og þetta væri bara ein stór karmaveröld þar sem líkurnar á því að eitthvað slæmt gerðist væru í samræmi við framkomu og innræti.  En auðvitað virkar heimurinn ekki þannig, mér fannst bara auðveldara að sjá hlutina þannig fyrir mér, á einfaldari og auðveldari hátt.  En stundum gerast hlutir bara og það er ekki alltaf sanngjarnt.  Svo getur kannski enginn vitað nákvæmlega hvað er sanngjarnt og hvað ekki.

En auðvitað hætti ég ekkert að reyna að vera góð manneskja.  Og þó að ekkert af því sem ég hef gert hafi bjargað mér frá því að fá æxli eða lenda í hjólastól hefur það samt skilað mér svo miklu.  Vinir mínir eru enn vinir mínir, þeir og fjölskylda mín eru alltaf til í að hjálpa mér, ég hef fengið skilaboð frá gömlum bekkjarfélögum og bara fyrir nokkrum dögum fór ég á ball þar sem þó nokkrir komu til mín og sögðust lesa bloggið mitt eða að það hefði hjálpað þeim.  Ég held að fólk fatti ekki hvað þetta skiptir mig miklu máli, að einhver sem ég tala vanalega ekki við gefi sér tíma til þess að segja mér að ég sé að gera eitthvað gott.  Það eru ótrúleg verðlaun að skrifa eitt lítið blogg og að heyra í staðinn frá annarri manneskju að ég hafi hjálpað henni.  Vinir mínir eru líka duglegir að minna mig á að ég geti enn hjálpað þó að ég sé ekki með líkamann alveg í lagi.
Við getum ekki fyrirbyggt allt slæmt né tryggt allt gott bara með því að plana eða haga lífi okkar svona eða hinsegin.  En við getum reynt að byggja okkur öryggisnet með því að vera það fyrir aðra þegar þeir eiga erfitt.  Það hjálpar okkur sjálfum og öðrum að reyna að gefa eitthvað gott frá sér og það þarf ekki að vera annað en bros eða falleg tilmæli.  Ég stend í þakkarskuld við vini mína og ættingja og þess vegna vil ég hjálpa þeim þegar vandamálin banka upp á hjá þeim.  Ég man líka eftir einu sem vinur minn sagði þegar ég þakkaði honum fyrir að setja lappirnar mínar upp í rúm; "Jóna, ég er bara að gera þetta því ég veit þú myndir gera þetta fyrir mig".

Verum góð hvort við annað, það kostar ekki neitt!

Takk aftur fyrir að lesa bloggið mitt og fyrir að láta mig vita hvað ykkur finnst, það er svo skemmtilegt að heyra það!