laugardagur, 19. apríl 2014

Ég skil þig fullkomlega!

Á þessum fjóru mánuðum sem ég er búin að vera í hjólastól hef ég tekið eftir einu sem mér finnst mjög merkilegt.  Þegar fólk segist skilja.  Ég veit að hugsunin á bak við það er alltaf falleg, fólk vill sýna að það sé að hlusta eða já, sýna skilning.
Og þetta virðist mjög saklaust og auðvitað líður mér vel að fólk sýni velvild þegar mér líður illa en hvað er það sem þú skilur?

Skilur þú það að finnast eins og rúmlega helmingurinn af líkama þínum sé dáinn en hangi samt ennþá á þér?

Er hægt að skilja þá tilfinningu að sakna þess að finna fyrir því að þurfa að pissa og kúka og sérstaklega að geta stjórnað því?

Hversu erfitt það er að rifja upp þegar vinkona þín settist á þig og þú fannst ekki fyrir því og í framhaldinu að hugsa um það að þegar ég eignast barn að ég muni ekki finna þunga þess í kjöltu minni?

Að vera nýorðin 18 ára og vera leið yfir að kynlíf verði ekki nærri því eins ánægjulegt og hjá þeim sem hafa fulla tilfinningu?

Hvernig það er að sakna þess að dansa, hreyfa tærnar, braka í ökklunum eða jafnvel bara að draga að sér fæturnar þegar maður grætur?

Og að hugsa: "það væri svo auðvelt að standa upp, labba nokkur skref og ná í símann sem ég gleymdi á borðinu" en vita samt að það er algjörlega ómögulegt?

Nei.  Enginn getur skilið það nema að hafa upplifað það. Ég veit að við höfum öll sagt þetta einhvern tímann og ég er þar ekki undanskilin.
Það er svo auðvelt að segja bara: "ég skil" en oft er ekkert meira en bara orðin á bak við það.  Reynum frekar að spyrja hvernig það er eða bara segja eins og er: "ég get aldrei skilið hvernig þetta er" og svo er hægt að bæta við: "en ég vil reyna að láta þér líða betur með það" ef það er raunin.

Svo vil ég bara segja hvað ég er þakklát þeim sem koma að heimsækja mig eða hringja í mig og hugsa til mín.  Ég veit að það er ekki alltaf auðvelt að vera í kringum mig því stundum læt ég það bitna á þeim sem eru í kringum mig þegar mér líður illa.
Ég vil þakka mömmu minni sérstaklega, hún myndi gera hvað sem er fyrir mig og ég elska hana svo ótrúlega mikið.
Takk mamma, ég elska þig og er þér svo þakklát, þó ég sýni það ekki alltaf.


Kem vonandi með annað blogg bráðlega, frekar langt síðan ég skrifaði síðast.
Kv. Jóna