laugardagur, 21. desember 2013

4 mánuðir og æxli

Ég veit varla hvernig ég á að byrja þetta blogg, það er svo margt sem ég vil segja ykkur frá.  Ég ætla að reyna að vera mjög opin og hreinskilin með þetta allt því ég vil að þið vitið hvernig sagan á bak við þetta er og ég vona að þetta geti hjálpað einhverjum eða að þetta sé í minnsta lagi áhugavert.  Ég komst semsagt að því í lok nóvember, ætli það hafi ekki verið í kringum 27.-28. nóv. að ég var með blöðrur hjá mænunni og ég þurfti að fara í skurðaðgerð og láta taka þær.  Í aðgerðinni kom í ljós að ég var líka með æxli og ef ég skildi rétt var ekki hægt að taka það allt úr.  Eftir rannsóknir á æxlinu kom í ljós að það er ekki krabbamein, semsagt góðkynja.


BYRJUNIN

 Þetta byrjaði u.þ.b. tveimur vikum áður en ég fór í uppskurðinn.  Þá fór ég að finna fyrir verk í bakinu og hélt ég hefði sofið illa eða skakkt.  Verkurinn ágerðist með hverjum deginum og var orðinn það slæmur að ég var farin að vakna út af verkjum og fór grátandi fram úr rúminu einn morguninn.  Ég sagði fjölskyldunni í Perú frá þessu en fór samt ekki til læknis strax því þau héldu að þetta væri eitthvað sem myndi lagast.  Þegar þetta hafði staðið yfir í u.þ.b. viku fór ég einnig að finna fyrir máttleysi í löppunum og það ágerðist líka með hverjum deginum, ég mætti ekki lengur í skólann og átti orðið erfitt með gang.  Ég sagði mömmu á Íslandi frá þessu og hún hafði miklar áhyggjur af þessu og taldi þetta vera brjósklos eða klemmda taug.  Ég fór að lokum til læknis og hún hélt að þetta væri vírus svo ég fékk töflur við þessu sem áttu að leiða í ljós hvort um vírus væri að ræða eða ekki.  Töflurnar reyndust hafa jákvæð áhrif, ég átti auðveldara með gang daginn eftir, en var samt enn dofin.  Svo versnaði þetta aftur og ég man að rétt áður en ég fór til læknis sat ég í stofusófanum heima í Perú og ætlaði að ná mér í teppi sem var í stofustólnum nokkrum skrefum frá.  Ég stóð upp, tók þrjú skref, datt niður, skreið til að ná í teppi og brölti aftur í sófann.  Síðan kom perúska frænka mín og fór með mér upp á sjúkrahús.  Við fórum með leigubíl og þegar ég kom sagði hún mér að bíða og sótti hjólastól handa mér.  það var skrítið að horfa á sína eigin spegilmynd í glerhurð spítalans og sjá leiða stelpu sitjandi í hjólastól.
Á sjúkrahúsinu kannaði taugalæknir viðbrögð í löppunum á mér og á þeim tíma voru enn viðbrögð en ekki nærri því jafnsterk og hjá venjulegri manneskju. Hann sagði að ég þyrfti að vera lögð inn og að ég þyrfti einnig að fara í myndatöku til að reyna að finna út hvað væri að.  Við fórum með sjúkrabíl upp á annan spítala og þegar þar var komið var ég orðin svo veikburða í löppunum að frænka mín þurfti að hjálpa mér að komast á klósettið.  Ég var orðin mjög hrædd.


MYNDATAKAN OG "CHATA"

Ég fór inn í hvítt herbergi með stórri græju inni í.  Þetta var einskonar bekkur og kúpull yfir.  Ég lagðist á bekkinn og læknirinn sagði mér að þetta myndi taka svona 30-40 mínútur.  Ég fékk bjöllu sem ég gat ýtt á ef eitthvað væri að og svo rann bekkurinn áfram inn í græjuna.  Það hafa ekki verið meira en 15-20 cm á milli mín og loftsins og þetta var þröngt á alla kanta svo ég óttaðist að fá innilokunarkennd.  Ég lokaði augunum og reyndi að hugsa um eitthvað fallegt og um skemmtileg lög og þetta reyndist ekki mikið mál.  Það heyrðust mikil læti en ég fann að það var betra því þegar lætin stoppuðu í smástund fannst mér innilokunarkenndin sækja á mig.  Svo minnr mig að ég hafi verið lögð inn á sama spítalann og myndirnar voru teknar.  Ég þurfti að bíða 2-3 klst. eftir herbergi og var orðin mjög þreytt á að sitja í hjólastólnum.  Þegar niðurstöðurnar komu í ljós sagði frænka mín mér að ég væri með "tumorcito" sem þýðir lítið æxli eða "quiste" sem er blaðra, við mænuna.  Ég byrjaði að gráta og ég var mjög hrædd.  Ég náði samt fljótlega að róa mig og held ég hafi verið í frekar furðulegu ástandi.  Skurðlæknirinn kom inn og sagði að við yrðum að skera mig upp eða ég gæti lamast að eilífu.  Ég er nokkuð viss um að ég hafi svarað með: "já, ókei" og svipi sem sýndi ekki neinar sérstakar áhyggjur eða ótta.  Hann spurði hvort ég hefði skilið hann og endurtók sig og ég svaraði játandi.  Eftir á að hyggja held ég að hafi brugðist svona við því að þetta voru slæmu fréttir nr.2 og ég hafði eiginlega alveg náð toppinum á vanlíðaninni svo að heyra þetta munaði ekki svo miklu.  Kannski slekkur maður líka hálfpartinn á sér í svona aðstæðum.
Á þessum tímapunkti hafði ég varla stjórn á þvagláti lengur.  Ég hringdi á hjúkkurnar og bað þær að hjálpa mér á klósettið en ég gat ekkert gengið lengur svo ég hneig bara niður og þær hjálpuðu mér aftur í rúmið.  Þær komu með eins komar stáldollu eða "chata" eins og það heitir á spænsku.  Svo varð ég að gjöra svo vel og setjast á þennan stálkopp og reyna að míga en allt stíflaðist við það að reyna að pissa í kopp.  Ég var heillengi og náði að koma einhverju frá mér en ekki öllu.  Mig minnir að það hafi verið seinna sama dag sem ég þurfti aftur á klósettið og mér til skelfingar átti ég mjög erfitt með að stjórna þessu og viðurkenndi fyrir hjúkkunni að ég væri nú þegar byrjuð.  Þá sagði hún mér að pissa bara svo ég gerði það bara, enda ekki mikið annað í stöðunni.  Ég átti að sofa eina nótt á spítalanum og fara svo í aðgerðina daginn eftir.  Mér fannst skelfileg tilhugsun að sofa ein á sjúkrahúsi í Perú.  Ég fór að gráta en hjúkrunarkona kom inn, huggaði mig og sagði að ég væri aldrei ein, Guð væri alltaf með mér og hjúkrunarkonurnar væru hérna líka.  Það lét mér líða mun betur og ég svaf nokkuð rólega.



AÐGERÐIN

Daginn eftir fór ég í aðgerðina.  Frænka mín var með mér rétt fyrir aðgerðina og kærastinn minn líka. Já, ég nældi mér í einn "súkkulaðistrák" úti, hahaha, og ég hef minnst á hann áður í annarri bloggfærslu, Leo.  Við kynntumst í frumskógarferðinni og erum því búin að vera saman í þrjá mánuði.  Svo var mér komið fyrir á börur og síðan á skurðarborðið.  Ég var færð úr bolnum svo ég lá þarna ber að ofan og leið óþægilega því skurðlæknirinn var maður.  Ég huldi mig en hann sagði mér að hafa ekki áhyggjur og ég þrufti að draga hendurnar frá til að fá legg í æð og til að kanna blóðþrýstinginn.  Ég grét ekki né var hrædd fyrir aðgerðina, enda var ég bara fegin að fá að komast áfram í þessu ferli.  Ég held að ég hafi fengið svefnlyf í æð, en ég man ekkert eftir því að hafa sofnað.  Ég man hins vegar að þegar ég vaknaði var ég með slöngu í munninum og var hrikalega dösuð.  Læknirinn sló mig létt á kinnarnar og sagði mér að anda.  Ég reyndi það nú eftir bestu geta en það var frekar erfitt.  Slangan var tekin úr munninum á mér og af einhverjum ástæðum leið mér hræðilega þegar læknirinn kallaði mig "Hanna" en ekki Jóna.  Ætli það hafi ekki bara dregið fram þá staðreynd að ég var nýbúin í skurðaðgerð í öðru landi en mínu heimalandi og ég var ekki enn búin að ná tungumálinu algjörlega og þau gátu ekki einu sinni sagt mitt rétta nafn.  Ég sagði veikum rómi að ég héti Jóna, enda mjög vönkuð og fannst á þeim tímapunkti mjög mikilvægt að læknarnir vissu það.  Ég var síðan færð inn á stofu og ég svaf í einhvern tíma eftir aðgerðina.  Mig verkjaði ekkert sérstaklega mikið í bakið en öll tilfinning í löppunum var horfin.  Mér hafði áður verið sagt að ég ætti að vera fær um að hreyfa fæturnar stuttu eftir aðgerðina en svo var ekki.


SJÚKRAHÚSVISTIN

Eftir aðgerðina var ég 15 daga á spítalanum.  Ég fékk kjúkling tvisvar á dag alla dagana nema einhver örfá skipti.  Í fyrstu var ég rosalega ánægð en undir lokin var ég farin að þreytast á þurrum kjúklingi og hrísgrjónum án sósu, glærri súpu og hlaupi í eftirrétt.  Konan í eldhúsinu var ekkert rosalega sátt með mig þegar ég kláraði ekki matinn minn.  Mamma og pabbi komu 2-3 dögum eftir aðgerðina og það var rosalega gott að sjá þau en erfitt líka og ég og mamma táruðumst.  Það gat verið mjög erfitt að hafa foreldra mína hjá mér því auðvitað vildi mamma alltaf vera að nudda á mér lappirnar (kannski þegar það voru gestir líka enda voru langoftast gestir) og passa upp á allt og stundum varð ég mjög þreytt á því.  Ég veit samt að það var nauðsynlegt en mér leið alltaf meira eins og sjúklingi við það.  Það komu rosalega margir gestir til mín sem var auðvitað yndislegt en ég held ekki að fólk átti sig á því hvað maður þreytist auðveldlega þegar það eru margir hjá manni í einu, tala nú ekki um það þegar ég þurfti að tala þrjú tungumál og þýða á milli.  Svo kom "herbergisfélagi" í tvær nætur og fyrstu nóttina svaf ég mjög illa því þetta var 3 ára stelpa sem hágrét og var mjög óvær um nóttina.  Ég var samt ekkert pirruð, hún var svo mikið krútt að það var auðvelt að afsaka þetta.
 Ég veit ekki hversu oft mér var snúið, svo ég fengi ekki legusár, ég fékk nál í æð, blóðþynningarlyf, verkjatöflur, sýklalyf, lyf til að koma af stað hægðum, lyf til að stoppa hægðir (í flugvélinni), ég notaði bleyju, var með þvaglegg, ég hef ekki getað rakað mig undir höndunum í þrjár vikur, ég finn ekkert fyrir því þegar ég hef þvaglát eða hægðir, finn ekkert þegar fæturnir eru snertir og ég var böðuð í rúminu þessar tvær vikur með svampi eða einhverju álíka.  Hárið á mér var orðið svo úfið að það tók 2-3 klst. að greiða það og á endanum var hluti af því klipptur af.  Á bakinu er ég með u.þ.b. 10 cm langt ör, 16 spor.  Læknarnir voru mjög mismunandi, skurðlæknirinn var svartsýnn, taugalæknirinn hélt í vonina og sjúkraþjálfarinn sagði að þetta væri mjög langt ferli og snerist mikið um jákvætt hugarfar.  Ég ákvað því að hlusta á hann, hann lét mér líða best.  Einnig vegna þess að hann kom til mín á hverjum degi og nuddaði mig og teygði mig og fylgdist með mér en skurðlæknirinn kom örsjaldan til mín.  Hjúkrunarkonurnar voru algjörlega yndislegar og töluðu við mig, spurðu mig um Leo og knúsuðu mig langflestar þegar ég var að fara upp á flugvöll.  Það var mjög erfitt þegar ég sagði Leo daginn áður en ég fór að ég væri á leiðinni heim.  Ég grét og ég sá að hann var mjög leiður og við vissum að þetta yrði síðasta skiptið sem við myndum sjá hvort annað, a.m.k. á þessu ári.  Síðasti dagurinn í Perú, hugsaði ég með mér og uppskar mjög erfiðar tilfinningar.


FLUGFERÐIN

Ferðin heim er án efa erfiðasta ferðalag sem ég hef nokkurn tímann farið í.  Ég var tekin í sjúkrabörum upp í sjúkrabíl og sjúkraflutningamennirnir brunuðu með mig upp á flugvöll eins og líf mitt lægi við.  Þeir settu sírenurnar á og við pabbi sögðum að þetta væri æfingarakstur fyrir þá, því það var enginn hagur í því fyrir okkur að þeir hafi keyrt svona hratt.  Svo kveikti einn þeirra á flúrljósum og mér var hálfillt í hausnum af þeim og látunum í sírenunum.  Svo komum við á flugvöllinn og þá þurfti að koma mér í hjólastól.  Ég hélt að sjúkraflutningamennirnir myndu auðveldlega færa mig í stólinn en svo kunnu þeir bara ekkert á þetta.  Pabbi fylgdist með og vildi alls ekki að þeir lyftu mér upp eins og þeir ætluðu að gera enda hefðu þeir aldrei náð því, böggluðust eitthvað með mig bara.  Það endaði á því að pabbi setti mig í stólinn og kunni það bara miklu betur, enda hafði sjúkraþjálfarinn minn kennt honum það.  Í flugvélinni þurfti að færa mig í annan minni stól því venjulegur hjólastóll passar ekki í flugvélar.  Ég og mamma fengum að vera á fyrsta farrými eða "business class" og það var æðislegt! Ég gat legið alveg út af í sætinu, við fengum kvöldmat og morgunmat og ég svaf megnið af leiðinni.  Flugfreyjurnar voru líka mjög indælar.  Þá lentum við eftir 8 klst. flug í New York og þá byrjuðu erfiðleikarnir.  AFS hafði pantað fyrirtæki fyrir okkur sem áttu að leiða okkur í gegnum allt, starfsmaður átti að bíða eftir okkur á flugvellinum og fara með okkur á hótel.  Við biðum í 3-4 tíma á flugvellinum og ég var orðin mjög þreytt í hjólastólnum.  Mamma og pabbi spurðust fyrir og á endanum var okkur sagt að við yrðum sótt eftir korter.  Við biðum allavega hálftíma lengur og síðan héldum við út.  Það var ískalt úti og við vissum ekki alveg hvar við áttum að vera.  Ég bjóst við bíl fyrir hjólastól en við fengum venjulegan leigubíl.  Þá gat ég ekki meira og fór að gráta.  Ég lét nokkur tár falla, þurrkaði þau og tók svo um pabba og hann bar mig inn í bíl.  Bílstjórinn talaði varla ensku og ruglaðist á nöfnum á hótelum þar sem eitt þeirra hét Days Inn og hið rétta Holiday Inn.  Ég þurfti að segja honum nokkrum sinnum að það væri Holiday Inn en sem betur fer voru þessi hótel alveg rosalega nálægt.  Ég var færð í hjólastól og inn á hótel.  Mamma talaði við fólkið í afgreiðslunni meðan ég sat aðeins til hliðar, nokkrum metrum frá.  Ég heyrði starfsmann segja að herbergið okkar væri ekki tilbúið því það væri ekki búið að borga fyrir það.  Ég rak upp einn svona: "hah!" hlátur og byrjaði svo að hágráta.  Mamma kom til mín og faðmaði mig og ég sagði við hana: "sorrý, mamma, mér finnst bara pínu eins og lífið sé á móti mér akkúrat núna".  Mamma sagðist skilja það vel og það gekk ágætlega að jafna mig með hjálp mömmu.  Sem betur fer þurftum við bara að bíða nokkrar mínútur eftir herbergi en ég hafði alveg búist við klukkutíma.  Við fórum inn á herbergi og pabbi lagði mig í rúmið sem reyndist alveg ótrúlega sárt, fékk einhvern sting í rifbeinin og fór aftur að gráta.  Ég flýtti mér að segja að þetta væri allt í lagi og að ég væri líka bara þreytt.  Ég fór nú samt á facebook enda hafði ég ekki komist á það í tvær vikur.  Ég hefði ekki trúað hvað mikið af fólki hugsar til mín, ég fékk a.m.k. 30 batakveðjur í skilaboðum og nokkrir höfðu skrifað á vegginn minn.   Ég reyndi að svara þeim öllum og var farin að titra af þreytu í líkamanum.  Á endanum fór ég að sofa og svaf í 2-3 tíma en þá þurftum við að fara aftur á flugvöll.  Mamma sagðist hafa talað við fyrirtækið og að það hefði sagst ætla að redda bíl fyrir hjólastól.  Aftur kom bara venjulegur leigubíll en það kom mér ekki á óvart.  Þessi bílstjóri talaði aðeins meiri ensku og ég komst m.a. að því að hann væri gyðingur og ég sagði honum að það væri svo svalt, ég hefði aldrei hitt gyðing áður.  Ég var sett í mjög óþægilegan stól sem studdi lítið við mig því armarnir á honum náðu svo langt út svo ef ég hélt mér ekki í armana valt ég að annarri hliðinni á stólnum.  Ég var þreytt og ekki í besta skapinu og síðan komumst við að því að það væri klukkutíma seinkun á fluginu.  Mamma og pabbi röltu með mig um flugvöllinn en ég varð fljótt leið og var bara frekar niðurdregin.  Ég bað um að fá McDonald's svo pabbi fór í röðina en ég og mamma biðum á meðan skammt frá.  Af einhverjum ástæðum leið mér enn verr en áður og ég fór að biðja bænir.  Mamma kom til mín og ég sagði veikri röddu að ég hefði bara verið að biðja kvöldbænir.  Svo táraðist ég og reyndi bara svona að jafna mig, var bara gjörsamlega búin á líkama og sál.
Við settumst og byrjuðum á hamborgurunum okkar, ég og pabbi og vá! Aldrei vanmeta mat, hann bjargaði sálinni minni á þessum degi!  Ég fór úr því að vera ótrúlega leið yfir því að vera brosandi og að grínast á innan við 10 mínútur því mér leið bara svo miklu betur við að borða.  Fékk mér habanero-borgara, mjög sterkan, en þetta var mjög gott, McDonald's klikkar ekki.
Svo fórum við aðeins um flugvöllinn og mættum íslenskri flugfreyju sem bara áttaði sig á því að við værum íslensk og hún stoppaði okkur og spjallaði smástund og sagðist svo hafa keypt jólanaglalakk handa mér.  Hún dró upp kassa með gullfallegum, þremur naglalökkum í og ég þakkaði innilega fyrir og það lá við að ég táraðist, fannst þetta svo hugulsamt af henni.  Ég þekkti hana ekki neitt en hún vissi af mér því það þurfti að leggja niður þrjú sæti í flugvélinni svo ég gæti legið á bedda.  Síðan hittum við hinar íslensku flugfreyjurnar og þær voru báðar jafnyndislegar og sú fyrsta.  Í flugvélinni þurfti að lyfta mér fyrst úr litlum hjólastól yfir á sætin sem lágu og þá leið næstum yfir mig, eða mér leið allavega þannig.  Fannst röddin mín vera mjög kraftlítil og mig svimaði mikið.  Þetta gerist stundum þegar pabbi færir mig á milli hjólastóla og rúma, verð stundum mjög ringluð, svimar eða verð mjög þróttlaus í smástund.  Svo var ég færð á beddann og spennt niður svo ég myndi ekki bara rúlla út af ef ókyrrð yrði.  Flugfreyjurnar gáfu mér og foreldrum mínum nammi og voru bara yndislegar í alla staði.  Flugið gekk mjög vel og þegar við lentum komu sjúkraflutningamenn og settu mig á börur.  Þá lá leiðin inn í sjúkrabíl og þar voru ljósin fyrir ofan mig slökkt og keyrt rólega, loksins var ég komin heim til Íslands og hins íslenska fólks, sem virðist bara skilja þarfir manns án þess að þurfa að segja neitt við það.


BORGARSPÍTALINN

Nú hef ég verið á Borgarspítalanum í nokkra daga og þetta er bara algjör lúxus miðað við Perú.  Ég var alls ekki ósátt við spítalann í Perú og starfsfólkið var frábært en hér er aðstaðan bara miklu betri.  Hér er ég með netaðgang og að öllum síðum (facebook var læst á spítalanum í Perú), rúmin eru æðisleg (hef prófað tvö), ég get farið í bað, það er eiginlega enginn hávaði, hér er loftræsting, frábært útsýni yfir elsku Reykjavík og ég er himinlifandi yfir matnum sem er bæði góður og fjölbreyttur (nóg af sósu með öllu og ekki kjúklingur á hverjum degi).  Skurðlæknirinn á þessari deild sagði mér að hann væri ekki mjög bjartsýnn en að ég yrði að halda í vonina og ég veit alveg að læknarnir hérna vilja vera mjög raunsæir og vilja ekki gefa falskar vonir.  Hann útskýrði líka að þetta "æxli" væri í raun örvefur sem hefði myndast vegna þess að blaðran fór að þrýsta á mænuna, ef ég skil þetta rétt.  Starfsfólkið hérna er líka æðislegt og ég er sérstaklega hrifin af sjúkraþjálfaranum mínum, finnst mjög gaman að spjalla við hana.  Ég fór í myndatöku hérna líka og myndirnar sýndu, samkvæmt skurðlækninum, mænuna án blöðrunnar, semsagt búið að fjarlægja hana eða sjúga vökvann úr henni eða hvernig sem það nú er en mænan á enn eftir að jafna sig, hún er semsagt enn bogin eftir þrýstinginn frá blöðrunni.  Ég hef prófað nokkrum sinnum að fara í hjólastól hérna og það er æðislega frábær lyfta hérna sem lyftir mér upp og setur mig í stólinn, þetta gerir bara allt svo auðvelt, bæði fyrir mig og fyrir starfsfólkið og mig svimar nánast ekkert við þetta.  Svo er ég búin að fá mikið af heimsóknum frá fjölskyldu og bestu vinum og það er svo yndislegt að sjá alla aftur, mörg hamingjutár hafa fallið.  Núna finnst mér ég bara vera tilbúin í að takast á við allt fyrst ég er komin heim til Íslands og fæ stuðning frá öllum hérna sem elska mig og hugsa til mín.


TILFINNINGAR OG HUGSANIR

Ég ákvað það stuttu eftir aðgerðina að ég myndi taka þessu öllu með jákvæðu hugarfari, enda myndi það aldrei hjálpa mér að vera svartsýn og neikvæð.  Ég minntist sögunnar um Pollýönnu, stelpan sem var alltaf svo jákvæð og sá það góða við allt.  Hún lamaðist líka í sögunni og komst á fætur aftur svo hún hefur verið svona fyrirmynd fyrir mig í þessu.  En auðvitað koma erfiðir dagar inn á milli og þá verð ég bara að gráta og vera leið og svo þurrka ég bara tárin, brosi, þakka Guði fyrir allt það góða í lífi mínu og segi sjálfri mér að ég ÆTLI að ganga á nýjan leik.
Ef ég hefði hugsað um það að fá æxli hefði ég ímyndað mér að það myndi algjörlega rústa sálarlífi mínu en svo er ekki og í raun finnst mér auðveldara að þetta sé að gerast fyrir sjálfa mig heldur en einhvern sem ég elska.  Og þetta er í raun auðveldara en ég hélt en ég vil alls ekki gera lítið úr neinum sem hefur fengið æxli og segja að þetta sé ekkert mál, því þetta reynir mikið á en fyrir mér var þetta mjög óraunverulegt.  Ég held að Perú hafi líka hjálpað mér með það, að vera í Perú gerði allt óraunverulegra.  Ég hélt líka að ég myndi hugsa: "Af hverju ég? Ég á þetta ekki skilið!" en ég gerði það ekki.  Ég man eftir viðtali við ameríska konu sem var fræg ef mig minnir rétt, sem fékk brjóstakrabbamein.  Í fyrstu hugsaði hún: "af hverju ég?" en svo hugsaði hún: "af hverju ekki?" hún átti pening, var í góðu formi og bjó í landi með góða læknaþjónustu...hún hafði fulla burði til að takast á við þetta.  Og þetta hugarfar vildi ég tileinka mér.  Af hverju ekki ég? Ef ég er hreinskilin við sjálfa mig og ykkur finnst mér ég vera manneskja sem get tekist á við svona því ég neita að láta þetta brjóta mig niður, því ég reyni alltaf að vera jákvæð og að þrátt fyrir að þetta hafi gerst er ég enn þakklát fyrir lífið og allt sem ég á og ég neita að vorkenna mér fyrir þetta.  Ég ákvað líka snemma í ferlinu að verða aldrei reið.  Stundum verð ég sár, döpur eða leið en ég ég ætla ekki að vera reið út í neinn, enda mun það bitna mest á sjálfri mér og ég veit að þetta er ekki neinum að kenna.  Samt kenni ég sjálfri mér stundum um þetta. "Ég hefði átt að ýta meira á fjölskyldu mína úti að fara með mig til læknis", "af hverju fattaði ég ekki að þetta væri svona alvarlegt?" Þetta hugsa ég stundum en ég reyni að kenna mér ekki um þetta, þetta gerðist svo hratt og enginn hefði getað séð þetta fyrir.  Mamma sagðist ætla að spyrja læknana á Íslandi hvort það hefði breytt einhverju fyrir mig að fara fyrr í aðgerð.  Ég vil ekki vita svarið og ég veit ekki hvað við myndum græða á því að spyrja því ef svarið er "já" mun það bara særa mig og fjölskyldu mína.
Í þessu, aðstæðum hef ég reynt að taka eftir hverju einasta atriði sem er jákvætt.  Þegar ég vaknaði eftir aðgerðina var ég þakklát fyrir að vera á lífi, ég var ánægð með matinn á sjúkrahúsinu, þegar ástandið á löppunum hafði ekkert breyst hugsaði ég: "þetta hefur allavega ekki breyst til hins verra!"
 En ég brotnaði líka niður og gat ekki haldið uppi jákvæðninni.  Einu sinni þegar mamma og pabbi voru hjá mér og mér leið illa yfir að þurfa að fara heim sagði ég við mömmu: "fyrirgefðu, mamma, bara...þetta áttu að vera tíu bestu mánuðir lífs míns en í staðinn fékk ég fjóra mánuði og æxli".  Eina nóttina leið mér mjög illa því ég óttaðist að ég myndi aldrei eignast mann og börn út af þessu, því mig langar svo rosalega að eignast fjölskyldu í framtíðinni.  Svo er líka erfitt að vera svona ung, langar svo rosalega að njóta þess lengur að ganga og hlaupa og dansa, finnst ég eiga svo mikið inni ennþá sem ég á eftir að gera.  Ein hugsun var líka sú að ég vil að líf mitt gangi út á það að hjálpa öðru fólki, ég vil ekki vera manneskjan sem þarf hjálp hvern einasta dag, allan sólarhringinn.  Mig langar að ferðast, hefði hugsanlega áhuga á einhvers konar hjálparstarfi eða sjálfboðastarfi og þá er miklu betra að geta gengið.  Ég held að hræðilegasta hugsun sem hefur sprottið fram í huganum á mér sé sú (og þetta gerðist bara einu sinni sem betur fer) er að mér leið eins og að Guð væri að refsa mér fyrir eitthvað, þó ég vissi ekki hvað.  Ég hugsaði með mér að kannski þyrfti ég að passa það rosalega vel að vera góð við alla og að hvert einasta smáatriði skipti máli.  Ég trúi þessu auðvitað ekki, ég trúi í fyrsta lagi ekki á það að Guð refsi fólki og í öðru lagi efast ég um að hann færi að refsa 17 ára stelpu sem reynir að haga sér skikkanlega.
 Það versta við að fara heim fannst mér vera að fara frá Paulu og Leo.  Paula er besta vinkona mín þarna í Perú og Leo hefur verið klettur minn og styrkur.  Hann heimsótti mig á hverjum einasta degi þrátt fyrir að það væri langt að fara og sat alltaf hjá mér eins lengi og hann gat.  Ég talaði líka mikið á Skype við vini mína á Íslandi þegar ég var á spítalanum úti og það gerði kraftaverk.  Besti vinur minn hjálpaði mér sérstaklega, oftast er ég sú jákvæða en þegar mér leið illa minnti hann mig á fullt af jákvæðum hlutum og sagði að allt myndi fara vel og af því að mér fannst hann virkilega trúa því þá leið mér miklu betur.  Svo voru auðvitað margir aðrir vinir mínir sem hjálpuðu mér svo mikið, bestu vinkonur mínar sérstaklega, talaði mikið við þær á Skype og það eru bara allir svo jákvæðir og bjartsýnir fyrir mína hönd.  Það er alveg ómetanlegt að fá svona mikið af hrósum og kveðjum og allir að segja að ég sé svo sterk og jákvæð og bara...það gefur manni styrk og jákvæðni! Sumir segja að ég sé hetja...ég hélt að hetja væri sá eða sú sem hjálpaði öðrum.  Mér finnst allir sem hafa stutt mig, hrósað mér, hvatt mig áfram og sent mér hlýja strauma vera hetjur.  Allir í kringum mig sem elska mig og hjálpa mér, fjölskylda, ættingjar, vinir og starfsfólk eru hetjur í mínum augum.

ÞAKKLÆTI

Ætla bara að enda á lista yfir flest sem ég er þakklát fyrir, svona til að minna mig og aðra á hvað ég er heppin.

*Fjölskylda mín og vinir, þau eru bara öll svo æðisleg og hvetjandi og frábær, veit ekki hvar ég væri án þeirra.

*Leo, hann er svo frábær manneskja og hefur stutt mig í gegnum þetta allt og við höldum enn sambandi.
Ég vona svo innilega að ég hitti hann fljótlega aftur, hann er manneskja sem fær mig til að tárast af hamingju.

*Ísland, þá á ég við íslenskan mat og vatn, íslenskt veður, íslenskt útsýni og íslenskt fólk.  Í Perú fór ég að hugsa um Íslendinga sem neikvæða og fúllynda en svo þegar ég kom heim voru bara allir svo æðislegir og mér finnst Íslendingar í raun mun tillitsamari en Perúbúar, rólegri og skynsamari.  Þeir skilja betur ef maður þarf frið og þeir eru mun umhyggjusamari en mig minnti.

*Fyrir að hafa vaknað eftir aðgerðina

*Fyrir öll litlu skrefin sem ég hef tekið, hef farið í hjólastól, get fundið örlitla tilfinningu í vinstri ilinni,  fæ kippi í lappirnar sem eru góðs viti og vonandi held ég bara áfram að stíga þessi litlu skref.

*Ég er orðin nánari pabba mínum eftir þetta og það er eitt af því besta sem hefur komið út úr þessu öllu saman.

*Íslenskir sjúkraliðar, þeir eru fyndnir, skemmtilegir, góðir og mjög tillitsamir og kunna algjörlega sitt fag.

*Íslenskar flugfreyjur, gjörsamlega yndislegar og gera allt með bros á vör.

*Hjúkrunarkonur og sjúkraliðar, bæði erlendis og heima, þær eru bara eins og fullt af mömmum sem vilja allt fyrir mann gera og segja mér að hringja bjöllunni hvenær sem mig vantar aðstoð.

*Lífið sjálft, þó það sé stundum erfitt hefur mér aldrei fundist eins og það sé ekki þess virði að lifa því og mér finnst lífið mitt svo æðislegt því ég á bara besta fólk í heiminum að sem ég veit að mun styðja mig í gegnum hvað sem er.

Svona í bláendann vil ég þakka þér fyrir að hafa gefið þér tíma til að lesa bloggið mitt.  Ef þú hefur einhverjar spurningar máttu endilega senda mér skilaboð á facebook og það má vera um hvað sem er, ég er ekkert feimin við að ræða þetta, hvort sem ég þekki þig eða ekki.  Ég vona að þetta hafi verið áhugavert eða jafnvel það sem væri enn betra, að þetta hafi hjálpað einhverjum sem er að ganga í gegnum svipaðar aðstæður og ég.

Hafið þið það svo yndislegt um jólin,
kv. Jóna Kristín.