Í sannleika sagt hefur mér liðid frekar illa síðustu vikur. Ég var á sýklalyfjakúr fyrir stuttu og ældi þess vegna stundum á morgnana en eftir kúrinn hélt ég áfram að æla svo ég fann út að ég hefði líklega ekki verið að æla út af sýklalyfjunum heldur af vítamíntöflu sem var bætt inn í á svipuðum tíma (ég hef tekið þessi sýklalyf áður og þá var ég ekki með ógleði).
Mér er oftast illt í bakinu, öxlunum og höndunum þar sem öll vinnan fer fram fyrir ofan brjóst. Þegar ég sá fólk í hjólastól sá ég bara þá staðreynd að þær manneskjur gátu ekki hreyft lappirnar. En svo þegar ég stend í þessu sjálf (haha, "stend") sé ég að það er minnsta málið. Eins og ég er þakklát fyrir að hafa lappirnar á mér þá eru þær samt byrði. Ég er nú svona "rassabína" og "læramína" eins og mamma kallar þetta, svo það er ekki auðvelt að lyfta löppunum á mér upp, og ég held það sé bara mjög erfitt fyrir alla sem eru í hjólastól, allavega fyrst. Svo er ég nánast alltaf með spasma og lyfin sem ég fæ við því gera mig stundum syfjaða. Mætti t.d. í dag í sjúkraþjálfun og hafði ekki einu sinni orku né nennu í að hjóla mér áfram og talaði eins og algjör ræfill. Enda gerði ég ekkert annað en að fara upp á bekk, teygja á og fá heita bakstra. Svo átti ég að fara og fá bótox í þvagblöðruna til að lama hana svo ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þvagleka. En læknirinn var veikur svo ég þarf víst að bíða í eina viku. Það er ótrúlegt hvers maður saknar í svona aðstæðum. Sumt er "venjulegt" eins og að hlaupa, dansa og ganga og þar sem ég var í Perú sakna ég þess rosalega og sérstaklega kærastans. Svo eru aðrir hlutir sem ég sakna eins og að fara venjulega á klósettið, standa í sömu hæð og aðrir, vera í nærbuxum, að búa til takt með löppunum þegar maður hlustar á skemmtilegt lag.
Fólk hefur oft sagt við mig að byrjunin sé erfiðust og svo batnar þetta smátt og smátt. Ég er ekki sammála því. Núna líður mér eins og ég sé stödd í miðjunni á þessu ferli. Og eins og í öllum sögum eru átökin í miðjunni. Fyrst áttaði ég mig engan veginn á því hvað var að gerast og ég hélt að allt myndi verða eins og áður. En NÚNA er ég búin að átta mig á að þetta verður ekki auðvelt, langt því frá. EEEEN....eins og í flestum góðum sögum (og ég vil halda því fram að lífið mitt sé góð saga) endar þetta vel fyrir söguhetjuna. OG ÞÁ get ég hafið nýja byrjun á sögunni minni!
Læknirinn minn mælti með því að ég færi tímabundið á þunglyndislyf. Ég vildi það ekki. Mér finnst þetta bara vera eina lyfið sem ég ræð hvort ég tek og ég er svo þrjósk að mig langar að komast í gegnum þetta án geðlyfja. Mér fannst ég bara hafa tekið þessu svo vel og svo þegar hann mælti með þessu fannst mér eins og ég væri ekkert að standa mig vel lengur. Kannski eru þetta fordómar fyrir sjálfri mér, því aldrei myndi ég líta niður á aðra manneskju sem tekur geðlyf. En mér líður bara ekki eins og ég þurfi þess, ég veit ég græt oft og er leið eða þungt hugsi en mér fannst það eðlilegt. "Eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum" sagði hann við mig. Svo ef ég fer að sýna óeðlileg viðbrögð við eðlilegum aðstæðum mun ég líklegast fá hjálp frá geðlyfjum. Þetta er alltaf einhvers staðar í kollinum á mér og ég er ekki búin að útiloka geðlyf, en núna ætla ég að bíða aðeins með þau.
En eins og það er búið að vera erfitt þá koma alltaf mennskir englar sem hjálpa mér. Fyrst vil ég nefna mömmu sem stendur ALLTAF með mér. Pabbi sem gerir alltaf grín úr öllu sem er otrúlega þægilegt. Garðar, vinur minn, hann peppar mig alltaf upp, Leo, kærastinn minn, sem vill alltaf tala við mig þó ég væli mjööög oft þegar ég tala við hann á Skype. Svo eru þessir englar sem koma óvænt til mín, og þrír af þeirri gerð komu í dag í heimsókn. Fyrst er það Signý, flugfreyjan sem fylgdi mér heim frá New York til Íslands og gaf mér naglalakkið. Ég viðurkenni það að ég þekkti hana ekki fyrst en var fljót að átta mig (þegar hún var búin að segja til nafns og starfs ;) ). Hún gaf mér meira að segja nýtt naglalakkasett sem ég var ægilega ánægð með! :D Síðan eru það frændurnir Arnar og Jói sem eru báðir í hjólastól. Þeir eru báðir með hærri skaða en ég en eru samt svo ótrúlega jákvæðir og hressir. Þeir eru báðir mikið í íþróttum, Arnar í hjólastólakappakstri og Jói í borðtennis og það var ótrúlega þægilegt að tala við þá! Gat talað um hvað sem er við þá, hægðir, aftöppun, kynlíf og bara hvað sem er! Þeir minntu mig á að ég þarf að vera jákvæð og dagurinn breyttist úr því að vera ömurlegur yfir í að vera æðislegur!
Sumir hafa sagt við mig og mömmu að Guð ætli sér eitthvað með þessu. Ég vil ekki hugsa það þannig, að Guð hafi ákveðið að setja mig í hjólastól. Frekar að þetta hafi bara gerst og að Guð ætli að hjálpa mér! En samt vil ég að það sé einhver ástæða fyrir þessu. En kannski er það mitt hlutverk að búa til ástæðu og gera það besta úr þessum aðstæðum.
Þó það sé búið að vera erfitt undanfarna daga veit ég að þetta verður allt í lagi og ég hef heyrt marga tala um jákvæðar hliðar þess að vera í hjólastól, t.d. að fólk borði hollari mat, sé í betra formi og jafnvel að það sé hamingjusamara eftir slys. Jæja, komið nóg af rausi, ég kveð ykkur í bili!
Kusskuss,
Jóna Kristín.