sunnudagur, 3. nóvember 2013

Af veikindum og þakklæti

Nú myndi margur Íslendingurinn eflaust gubba yfir MacBook-fartölvuna sína við lestur á þessari bloggfærslu því mig langar að segja frá síðastliðnum vikum en einnig reyna að tvinna smá þakklæti og jákvæðni inn í skrifin.

Þann 13. október keypti ég fullt af fötum frá Perú, þ.á.m. herðaslá (poncho), húfu (chuyo) og svo peysu með llamamunstri sem ég hef notað gríðarlega mikið hérna og ég hreint dýrka! Að sjálfsögðu er þetta svo allt úr alpaca-ull og Íslendingurinn var ansi hreint montinn með gersemarnar. Langar líka að láta alla vita að "llama" er í alvörunni borið fram "djama", þið getið þá kennt mér um ef einhver segir að það sé rangt. ;) Þann dag fór ég líka í kirkju með fjölskyldu minni og gaman að segja frá því að ég þekkti tvö lög svo ég gat alveg sungið með því enda fengum við blöð með spænska textanum.

Svo er ég búin að vera rosadugleg að tala við vinina á Íslandi (kannski einum of) og mamma sendir mér skilaboð á hverjum degi.  Er svo þakklát fyrir að eiga fjölskyldu og vini sem elska mig og sakna mín og bara að geta talað íslensku á facebook og skype er ómetanlegt! Netið er bara algjör blessun, að ímynda sér að fá í mesta lagi eitt bréf á mánuði frá vinum og fjölskyldu er rosalegt! En þannig var það samt fyrir skiptinema og það er alls ekki langt síðan.

Ég verð líka að segja hvað ég er ótrúlega heppin að hafa fengið svona æðislega fjölskyldu en þónokkrir skiptinemar sem ég kannast við hafa þurft að skipta um fjölskyldu af góðum og gildum ástæðum en ég get í alvörunni ekki ímyndað mér betri fósturfjölskyldu og mig langar bara að deila með öllum hvað fólkið hérna er æðislegt! Samt held ég að allir geti fundið eitthvað gott við skiptinemaárið sitt.  Fyndið að á einstaka augnablikum rennur upp fyrir mér allur sannleikurinn, á þessu augnabliki er ég að upplifa eitthvað einstakt í allt öðru landi í annarri heimsálfu.  Sama hvað gerist og þó að ég muni ganga í gegnum erfiðleika verður þetta alltaf einstök og ómetanleg reynsla og ég mun aldrei taka því sem gefnu og ég bara trúi ekki hvað ég á yndislega foreldra á Íslandi að leyfa mér þetta, eins mikill hænuhaus og ég er!

Núna förum við Paula hvern mánudag til Carabayllo til að hjálpa enskukennurunum að kenna litlum krökkum ensku.  Málið er semsagt að ég og Paula erum í skóla sem heitir Inca Garcilaso De La Vega (við segjum samt alltaf bara Garcilaso).  Við erum í skólanum í Pro Lima en svo er annar skóli staðsettur í Carabayllo (sem er eins og annað svæði, erfitt að útskýra, ætli þetta sé ekki eins og Reykjavík og Kópavogur, hahaha). Allavega, krakkarnir eru svo miklar rúsínur og ég trúi því ekki hvað þeir líta upp til okkar! Eftir skóla einn daginn hrúguðust krakkar í kringum okkur til að biðja um eiginhandaráritunina okkar! Sumir þeirra hafa gefið okkur kex, einhverjir smá pening og ein stelpa keypti súkkulaði handa okkur, hversu sætt!? Mér finnst líka æðislegt að skólinn treysti okkur í þetta verkefni og líti svo á að við séum nógu góðar til að kenna litlum krökkum ensku! Og þetta er svo gaman og gefandi og í raun er þetta æfing í spænsku fyrir mig, hahaha! :D

Um daginn bakaði ég pönnukökur með Paulu og Leo og af einhverjum ástæðum var ég svo taugatrekkt eitthvað, ekkert mátti fara út fyrir eða neitt en samt var þetta rosagaman.  Og það er ekkert smá hvað strákar hérna eru barngóðir, Leo leyfði Brendu alveg að vera með og sagði að hún mætti hræra í deiginu og bara...hahaha, ég hef ekki svona mikla þolinmæði fyrir krökkum, ef ég á að vera hreinskilin.  Brenda er samt snillingur, hún er eins og mamma nr. 2, fórum á markaðinn í gær en áður en við fórum lá dagbókin mín og annað dót á stofuborðinu og Violeta sagði að við ættum bara að drífa okkur og þá sagði Brenda: "en Jóna, fyrst skaltu taka saman dótið þitt". Hahaha, hún er svo mikil dúlla og minnir mig svo á Valdísi stundum, enda báðar bústnar skellibjöllur.  Um síðustu helgi fór fram keppni milli Garcilaso-skólanna tveggja.  Auðvitað var þetta danskeppni, og við í fimmta bekk unnum! Fimmti bekkurinn er semsagt elsti bekkurinn.  Það var svo gaman að horfa á bekkjarfélaga mína því atriðið var svo æðislegt! Byrjaði þannig að strákarnir voru að leika fulla menn, hálfgerða kúreka og svo komu tvö naut á sviðið, leikin af fjôrum bekkjarfélögum mínum, hahahahaha, það var svo fyndið! Þau áttu sigurinn svo skilið, búin að dansa alla daga í skólanum a.m.k. frá því að ég kom hingað.  Svo þegar við unnum var svo mikil samkennd og bekkjarsystkini mín sögðu mér og Paulu að fara upp á svið og ég faðmaði alla og var ekkert smá ánægð!  Svo fengu allir dansararnir medalíu og Leo gaf mér sína, svo mikið krútt.  Gaman að eiga eitthvað til minningar um folklor-ið hérna en það er svo flottur dans, þjóðardansinn hérna held ég, og menningin hérna er svo rík!

 Fór líka með Paulu og Andreu í Mega Plaza sem er verslunarmiðstöð síðasta mánudag. Gleymdi algjörlega að minnast á Andreu seinast, ég vissi að ég hefði gleymt að minnast á einhvern! En sko, vá, hvar á ég að byrja með Andreu?! Hún er líklega hógværasta manneskja sem ég þekki en samt ótrúlega gáfuð og svo falleg! Og allt sem hún gerir er í hófi, hún talar ekki of hátt, er aldrei æst og t.d. fórum við á Starbucks og ég og Paula fengum okkur stærsta glasið en Andrea fékk sér millistærð, eins og ég segi, allt í hófi hjá henni. ;) Hún er bara svo æðisleg og er mjög sérstök fyrir mér, hún er ólík öllum hinum krökkunum og minnir mig oft meira á Evrópubúa en Perúbúa, enda talar hún líka ensku, snillingurinn!  Var samt rosasvekkt með fyrstu Starbucks-ferðina mína því ég var svo rosalega kvefuð að ég fann ekkert bragð! :(

Þá fer ég að koma að því síðasta í færslunni minni.  Ég er búin að vera mjög veik síðustu daga, byrjaði sem kvef á mánudegi og í skólanum á miðvikudeginum var ég líka komin með hausverk.  Var svo að horfa á mynd um kvöldið og ég skammast mín bara ekki neitt fyrir það að ég byrjaði að tárast af sársauka og innan skamms var ég farin að hágráta.  Hef aldrei verið svona illt í hausnum áður.  Var búin að fara til læknis og fá lyf við þessu öllu en hélt ég þyrfti að taka hausverkjatöflurnar daginn eftir svo ég geymdi þær.  Svo aðfaranótt fimmtudags ældi ég, ennþá með brjálaðan hausverk og ég man hreinlega ekki eftir því hvenær mér leið svona illa seinast.  Og þá kem ég inn á eitt sem ég vil að allir sem lesi taki til sín, sama hversu skringilega það kann að hljóma.  Nú mun ég aldrei, aldrei, aldrei aftur vanmeta þau forréttindi að vera veik í mínu eigin landi, það er að segja Íslandi.  Hér má ekki drekka gos, borða nammi, ís né ávexti þegar maður er veikur.  Á Íslandi líður mér alltaf best með að drekka gos eða borða ferska ávexti þegar ég er með ælupest en hér mátti ég það alls ekki því ég var LÍKA með hósta og kvef og allir hér trúa því statt og stöðugt að það fari rosalega illa í mann þegar maður er veikur að drekka gos eða borða nammi.  Ég held að sumir hafi meira að segja haldið að ég hafi orðið svona veik því ég drakk gos eða borðaði ís einhverjum dögum áður.  En ég er líka rosalega þakklát frænku minni hérna úti, henni Vicky, sem fór með mig til læknis og mömmu minni og bara öllum fyrir að sjá svona vel um mig þegar ég var veik.  Lyfin sem ég fékk gerðu kraftaverk og núna er ég eins og ný.  Nú er ég líka búin að læra að kyngja stoltinu aðeins, hugsaði fyrst: "nei, ég þarf engar pillur við einhverju kvefi, ég er Íslendingur, eins og ég sé ekki vön hósta og nefrennsli?!" En maður verður líka að hugsa vel um sjálfan sig og Perúbúar vita alveg hvað þeir eru að segja, hérna er miklu rakara og þess vegna er ég búin að vera mikið veik hérna en ég hélt bara að af því að það væri hlýtt úti að ég yrði ekkert veik!

Já, svona er þetta, datt í hug að skrifa þetta blogg og reyna að sprauta inn smá extra jákvæðni, eitthvað sem allir hafa gott af held ég bara.  Maritza vinkona mín á hrós skilið en ég fékk hugmyndina að blogginu þegar ég var að tala við hana um þakklæti.  Og elskurnar mínar, fæ stundum fréttir að heiman um hvað Ísland er lítið og kalt og ömurlegt en í alvörunni, við höfum það svo gott á Íslandi! Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég sakna þess stundum að drekka vatn beint úr krananum og um daginn sá ég sólina í fyrsta skipti hérna í Lima og í fullri alvöru, ég hélt fyrst að sólin væri tunglið því sólin sést aldrei á himninum í Lima.  Svo næst þegar þið sjáið trén, grasið, nokkuð hreinar götur, andið að ykkur fersku lofti og horfið upp í bláan himininnn skuluð þið stoppa eitt augnablik og þakka fyrir lífið.

2 ummæli:

  1. Það er alltaf svo gaman að lesa bloggið frá þér elsku Jóna, þú stendur þig eins og hetja
    Kossar og knús
    kv. Þóra

    SvaraEyða
  2. Þú ert nú meiri krúttmonsan ;) Gaman að lesa frá þér eins og alltaf, hafðu það sem best, og samála Þóru þú ert hetja að meika þetta.

    Fullt af knúsi frá okkur mæðgum :*

    SvaraEyða