Hæhæ! Ég heiti Jóna Kristín og ég er að fara til Perú í skiptinám 15. ágúst. Ég er frekar stressuð yfir því að þurfa að fara þar sem ég hef aldrei farið til útlanda áður. En það er einmitt það sem gerir þetta svona spennandi, stundum verður maður bara að henda sér í djúpu laugina. Ég kvíði fyrir því að fara frá öllum sem mér þykir vænt um en ég veit að þessi reynsla á eftir að nýtast mér út ævina, svo hvernig er ekki hægt að hlakka til líka? :D Ég fer 15. ágúst og ég er svo heppin að hafa kynnst fullt af frábærum krökkum sem eru líka að fara í ár til allskonar ólíkra landa sem skiptinemar Ég er líka búin að kynnast stelpunum tveimur sem eru líka að fara til Perú og þær eru frábærar, alveg ómetanlegt að hafa einhvern með sér í þessu. Þá þarf ég heldur ekki að stressa mig eins mikið yfir því hvað ég á að gera á flugvellinum. Ég hlakka mjög mikið til að fara í flugvél í fyrsta skipti, upplifa nýjan menningarheim (öðruvísi matur, föt og skóli) og að læra spænsku! Ég er ekki búin að fá fjölskyldu ennþá, en ég reyni bara að bíða róleg, þetta kemur allt saman. Ég veit frekar lítið um Perú, en það er allavega í Suður-Ameríku, haha, landafræðin er sko ekki mín sterkasta hlið! Höfuðborgin heitir Lima og gjaldmiðillinn sol (eins og sól býst ég við). Guðrún sem vinnur á skrifstofu AFS sagði að hún héldi að Perú hentaði mér vel þar sem ég væri jarðbundin og Perúbúar eru víst ekkert að pæla mikið í klukkunni og þeir sem þekkja mig vita það að ég er hræðilega óstundvís, hahaha! :) Þegar ég sótti um skiptinám vonaðist ég til þess að fá að fara til Spánar. Vegna skipulagsleysis míns var hins vegar allt fullt fyrir utan Sviss og Perú. Það fyrsta sem ég hugsaði var: "Sviss, mig langar ekkert að læra frönsku!" (vinur minn benti mér svo á að það er töluð þýska þar, eftir að hafa lagt lófann á ennið vegna heimsku minnar). Svo hugsaði ég: "Perú, hvar er það?!" (Snilligáfan var greinilega ekki að segja til sín þennan dag). Ég viðurkenni alveg að fyrst leist mér ekkert á Perú, en eftir að hafa talað við Guðrúnu fannst mér þetta hljóma frábærlega! Öðruvísi menning, spænskumælandi land, miklu minni efnishyggja en á Íslandi...akkúrat það sem mig langar að upplifa! Ó, já, ég kem heim eftir 10 mánuði, einhvern tímann í júní, svo þetta verður sko eitthvað!
Læt vita þegar ég fæ fleiri fréttir, vonandi verður ekki mjög löng bið eftir fjölskyldunni minni. ;)
Þangað til næst,
Jóna Kristín.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli