laugardagur, 10. ágúst 2013

4 dagar í fjörið!

Það er frekar skondið að segja frá aðstæðum Birnu Rósar, alveg yndislegrar stelpu sem ég kynntist í grunnskóla og er núna stödd í Paraguay sem skiptinemi.  Í stuttu máli hafði hún verið eitthvað stressuð yfir því hvernig bera átti nafn host-bróður síns fram og spurt einn sjálfboðaliðann (ef ég skildi söguna rétt). Þá tók hann fram nafnspjaldið sitt og spurði: "þetta nafn?" Þá hafði hann verið með henni allan þennan tíma og ekki sagt henni neitt um að hann væri hluti af fósturfjölskyldunni.  Þetta fannst henni mjög fyndið og þegar ég las þetta á blogginu hennar fannst mér þetta fyndið og hugsaði með mér að hún væri nú meiri kjáninn að hafa ekki fattað þetta.
Einhverjum dögum síðar fæ ég póst með fleiri upplýsingum um fjölskyldu mína (hafði aðeins fengið nafn mömmunnar u.þ.b. mánuði áður).  Þegar ég er að skoða nöfnin á fjölskyldumeðlimunum fer ég allt í einu að hlæja og segja eitthvað á þessa leið: "Ertu ekki að grínast?!" Allir í fjölskyldunni minni fara að spyrja hvað sé í gangi og ég segi þeim það.  Þá hafði perúskur strákur sem heitir Renzo sent mér vinabeiðni á facebook og ég samþykkti hana þar sem ég stóð í þeirri trú að hann væri sjálfboðaliði í AFS-samtökunum í Perú.  Ég var búin að spjalla þó nokkuð mikið við hann og hann hafði sagt mér að hann væri á vegum AFS í Perú. En kemst ég svo ekki að því, mánuði eftir að ég samþykkti hann sem vin á facebook að hann er host-bróðir minn! Jæja, Birna, þú lést allavega ekki plata þig í mánuð eins og ég. ;)

Ég er orðin svo spennt fyrir þessu öllu! Í fjölskyldunni eru mamma, pabbi, Renzo (sem er fæddur 1993) og Brenda, jafngömul Valdísi yngstu systur minni (8 ára).  Ég held að ég og Renzo eigum margt sameiginlegt, hann spilar á píanó (ég er reyndar hætt að æfa fyrir löngu) og dansar og hann virðist vera skemmtilegur og bara algjört yndi. Ég hlakka svo mikið til að fá að kynnast öllu þessu nýja fólki og öllum þessum nýju siðum. :)
Reyni að skrifa fljótlega aftur! :D


P.S. Var að komast að því að útivistartíminn minn í Perú verður til 8 á kvöldin. Það verður fyndið og skemmtilegt að venjast því eftir allt kæruleysið á Íslandi. ;)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli