þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Los Olivos!!!


Ferðin byrjaði á því að ég vaknaði klukkan 6 og gerði mig til og svo fór ég út á flugvöll og kvaddi fjölskyldu mína sem var frekar erfitt, sérstaklega fyrir mig og mömmu. Svo fór ég í flugvél í fyrsta skipti og það var mjög spennandi en eftir smástund varð það frekar venjulegt og það var frekar erfitt að sofa í flugvélinni svo ég beið þess bara að fluginu lyki. Eftir það tók við  11 klst. bið á JFK - flugvellinum en sem betur fer var ég með Láru og Ernu, íslensku stelpunum og þær fá sko endalausar þakkir því ég hefði aldrei komist á leiðarenda án þeirra enda aldrei komið á flugvöll áður.  Gaman að segja frá því að ég fékk McDonald's hamborgara í fyrsta skipti í svona 4-5 ár, namminamm!  Loks fórum við í seinna flugið og það var bara magnað að sjá yfir New York - borg enda komin nótt og öll borgin uppljómuð!

 Í Lima gistum við tvær nætur í skóla og það var frekar sérstök upplifun því það var allt harðlæst, við fengum semsagt ekkert að fara út fyrir múrana sem umluktu skólalóðina.  Svo var ekki heitt vatn svo ég fór í köldustu sturtu sem ég hef tekið á ævinni held ég bara sem fór rosavel í kvefið sem ég nældi mér í og var farið að láta á sér kræla í flugvélinni til New York.  Það var vel séð um okkur og við fengum mjög góðan mat. Ég kynntist mjög skemmtilegum skiptinemum þarna, einni stelpu frá Frakklandi, annarri frá Kanada, stelpum frá Sviss og stelpu frá Þýskalandi sem býr nú reyndar fyrir ofan mig! Ég fann smá fyrir menningarmuninum í "skiptinemabúðunum" því sumir voru mjög opnir og hressir og vildu tala við mann meðan aðrir krakkar frá öðrum löndum töluðu bara sitt tungumál sín á milli og svöruðu manni kannski en spurðu einskis til baka.  Host-bróðir minn kom svo að sækja mig þegar við höfðum gist tvær nætur í skólanum og ég var svo hissa á því að sjá hann því ég hélt hann myndi sækja mig um kvöldið.  Ég tók leigubíl með Paulu (þýsku stelpunni) og Simon frá Sviss. Við vorum fimm í leigubílnum ásamt leigubílstjóranum svo við þurftum að troða og mér fannst það ótrúlegt því þetta er aldrei gert á Íslandi.  Svo komum við heim og húsið er þriggja hæða blokk og ein íbúð á hverri hæð.  Ég er á 2. hæð og Paula á 3. hæð en Simon býr aðeins lengra í burtu frá okkur stelpunum.

Húsið er gríðarlega ólíkt heimili mínu á Íslandi og það er kannski smá sveitastemmning við það má segja.  Mér finnst það rosalega kósý og við erum alltaf í skónum inni (spurði Renzo hvort ég ætti ekki að fara úr þeim, ég er svo gáfuleg, en til að vita þarf að spyrja ;) ).  
Ég sef með Brendu, litlu systur minni í herbergi og Sef með teppi sem er reyndar mun þægilegra en ég bjóst við.  Það er frekar kalt á nóttunni svo ég sef í sokkum og langermabol.  Hérna er líka bara kalt vatn en köldu sturturnar venjast ágætlega og þetta verður örugglega mjög kærkomið í sumar.  Það er vetur núna fyrir þeim en dagarnir hér eru eins og ágætisvordagar á Íslandi.

Maturinn hérna er mjög ólíkur og matarvenjur líka.  Hér er mikið borðað af hrísgrjónum og kjúklingi og hádegismaturinn er rosalega stór.  Í morgunmat er alltaf brauð og heit mjólk (fékk það sem ég held að hafi verið heit mjólk, polenta sem er eins og pínuponsulítil grjón og kanil og sykur, ótrúlega gott).  Í hádegismat er oftast réttur með kjöti, grænmeti og hrísgrjónum og líka súpa! Í kvöldmat er eitthvað kjöt eða afgangar úr hádegismatnum.  Við drekkum vatn með matnum eða heitt vatn með jurtum og ég held líka sykri því þetta er mjög sætt og ég kýs frekar að drekka eintómt, kalt vatn.  Ó, já, þau borða rosalega mikinn rauðlauk með matnum en sem betur fer finnst mér rauðlaukur mjög góður.  

Fyrsta daginn tók ég úr töskunum og fékk fisk og súpu að borða.  Það er engum orðum ofaukið að Perúbúar séu nýtnir því ég fékk heilan fisk, kannski 15-20 cm langan, með hausi, sporði og roði.  Engar áhyggjur, hann var mjög góður og ég borðaði hann með bestu lyst og roðið líka. ;) 
Svo kynntist ég Angelu sem er 15 ára frænka Brendu og Renzo og hún er bara yndisleg! Hún elskar k-pop og hún fór að kenna mér spænsku þegar ég sýndi henni vinnubókina mína sem ég notaði í spænsku 103 og 203.  Hún var ekkert smá þolinmóð við mig og mér líkar rosalega vel við hana og alla í fjölskyldunni.  Fór svo út með Brendu, Angelu og Job sem er 13 ára og host-bróðir Paulu. Ég fór með þeim út í garðinn rétt fyrir utan húsið með hundinum okkar  Chestnut, hann er svo rosalega mikið krútt og svo lítill að það hálfa væri hellingur! Svo eigum við líka kanínu sem heitir Bombon og Paula á líka pínulítinn krútthund sem heitir Velita.  Daginn eftir hjálpaði tók ég létt skokk um morguninn með Angelu og ég hjálpaði Violetu aðeins í eldhúsinu og hún kenndi mér nokkur spænsk orð.  Hún er alveg yndisleg og ég vona að ég nái spænskunni fljótt svo ég geti farið að tala almennilega við hana.  

Í gær fór ég með Renzo og vinum hans a dansæfingu og þau kenndu mér nokkur spor sem var sjúklega gaman og þau eru öll svo flinkir dansarar.  Eftir það spjölluðum við helling saman (á ensku) og það er mjög þægilegt að tala við hann því hann er rólegur og auðveldur í umgengni.  Vonandi verðum við góðir vinir því mér finnst ég strax vera afslöppuð í kringum hann eins og við séum félagar.  Hérna er sérútvarpsstöð fyrir ensk lög svo ég get hlustað á ensku líka þó mér finnist gaman að hlusta á spænskuna en ég skil bara svo lítið því miður.

Ég fór að skoða skólann í dag með Paulu og Simon þó hann sé reyndar ekki að fara í þennan sama skóla og við.  Skólastjórinn talaði við okkur og kynnti okkur fyrir starfsfólkinu og það var smá yfirþyrmandi þegar ég fattaði hvað Paula er orðin rosalega góð í spænsku og skilur nánast allt meðan ég skil bara eitt og eitt orð.  Svo þurftum við að standa fyrir framan tvo bekki meðan skólastjórinn kynnti okkur.  Það var pínu fyndið að fyrst hélt hann að ég héti Jónas sem ég leiðrétti því ég vil helst halda mínu rétta og kvenlega nafni. ;) Svo fengum við skólabúninginn sem er reyndar mun íburðarminni en ég hélt, dökkblá hettupeysa með nafni skólans í gulum stöfum á vinstra brjósti.  Svo fengum við líka rauða hettupeysu og rauðar buxur sem ég held við eigum að nota þegar við förum í tónlistar-og danstíma á laugardögum (já, elskurnar mínar, það er skóli á laugardögum).  Ef ég skildi það rétt byrjar skólinn korter í átta og er búinn korter yfir tvö svo hann er ekkert svo lengi sem er bara rosafínt.  

Þetta verður að duga í bili elskurnar, skrifa vonandi fljótlega aftur!
Kossar og knús, 
Jóna.

4 ummæli:

  1. Gaman að "heyra" frá þér :) Gangi þér nú rosa vel og hlakka til að lesa meira.
    Kiss kiss og knús
    JK

    SvaraEyða
  2. Gaman að fylgjast með, hlakka til að sjá næstu færslu
    kossar og knús
    kv. Þóra

    SvaraEyða
  3. Takk takk, Þóra og Katrín :*

    SvaraEyða
  4. Estuvo buenooo !!!! Con muchas ganas de esperar la próxima publicacion

    SvaraEyða