fimmtudagur, 17. júlí 2014

Hjólastólahúmor

Ég hef ætlað að skrifa þetta ákveðna blogg í langan tíma en aldrei komið mér að því fyrr en núna.  Ég reyni oft að sjá kómísku hliðar lífsins og það hefur hjálpað mér mikið síðasta hálfa árið.  Hér er listi yfir "kosti" mænuskaðans.

1. Sársauki við fóta- og brasilískt vax er úr sögunni (þó ég hafi reyndar hvorugt prófað).

2. Slökun ætti að vera einstaklega þægileg og auðveld þar sem rúmlega helmingur líkamans er nú þegar sofandi.

3. Með minnkandi matarlyst og vöðvarýrnun fæ ég loksins þessi mjóu læri sem mig hefur alltaf langað í.

4. Þar sem ég er ekki lengur með virka magavöðva fæ ég bakbelti sem lætur magann virka flatan og fínan.

5. Áhyggjur af aukastól fyrir mig eru úr sögunni þar sem ég kem alltaf með minn eiginn í öll boð og partý.

6. Þá nýtist ég vel sem aukastóll, snúningstæki (til skemmtunar) og fótaskemill.

7. Engin virkni í fótunum skaffar mér hellings aukavinnu fyrir handleggina svo ég hef aldrei verið jafnsterk í höndunum og stefni á að verða eins og ballerína að neðan og Hafþór Júlíus Björnsson að neðan.

8. Pabbi og karlkyns vinir mínir þurfa ekki lengur ræktarkort því þeir þurfa að bera mig upp allar tröppur, sérstaklega góð æfing fyrir mjóbakið, segir Garðar Árni.

9. Sagði einhver: "sársauki við að fæða"? Það held ég nú ekki!

10. Ég fæ alltaf bestu bílastæðin, þ.e. ef hinir öryrkjarnir eru ekki búnir að fylla í þau öll.

11. Ég fæ frítt í bíó, sem þýðir líka það að ég er ódýrt deit.

12. Öðrum líður vel í kringum mig, því ég lít upp til þeirra.

13. Mamma hefur einnig öðlast færni í umönnun og gæti hæglega gerst fullgildur sjúkraliði - það var ekkert, mamma!

14. Ég fæ fullt af skemmtilegum græjum fyrir að vera lömuð, eins og klósettupphækkun, klósettarma, spegil til þess að skoða legusár, spegil til að tappa af mér á klósettinu, baðstól og það besta af öllu...griptöng!

15. Ég fæ pening fyrir að bíða hálfan daginn eftir því að allir vinir mínir séu búnir að vinna.  Og svo förum við saman í Kringluna eða út að borða til þess að eyða þessum peningi sem við unnum öll jafnduglega fyrir.

16. Ég er með einkastrætó, sem kallast Ferðaþjónustan.

17. Ég þarf aldrei að keyra beinskiptan bíl, ég keyri bara sjálfskiptan með báðum höndum.

18. Í framhaldi af því þurfa foreldrar mínir ekki að hafa áhyggjur af því að ég muni fikta í útvarpinu, reykja, senda sms eða annað slíkt á meðan ég keyri, nema mér skyldi vaxa þriðja höndin.

19. Ég luma á æðislegu bjútíráði; stelpur, sleppið því að nota lappirnar í nokkra mánuði og ég sver að þær verða jafnmjúkar og á nýfæddu barni.

20. Það gæti verið að þessi listi sé ekkert fyndinn, ekki einu sinni skemmtilegur.  En það er allt í lagi, því fólk mun samt hrósa mér fyrir að reyna að vera jákvæð.

Okei, 20 kostir þess að vera í hjólastól, þetta var ekki svo erfitt.  Og takk allir sem bera mig upp stiga, hafa fyrir því að leita að góðu bílastæði og allir sem hafa hjálpað mér og eru til staðar fyrir mig.
Mamma sagði að ég væri með svokallaðan gálgahúmor og ég vona bara að flestir sem eiga erfitt geti séð spaugilegu hliðina af og til, því það virkilega hjálpar.
Þá er það ekki fleira í bili!

7 ummæli:

  1. snillingur :D mér fannst þetta findið ;)

    SvaraEyða
  2. Elsku Jóna, þú ert svo ótrúlega flott og jákvæð!
    Ég sakna þín og hlakka til að hitta þig í ágúst :)
    Knús,
    Hrönn

    SvaraEyða
  3. Óborganlega fyndinn listi hjá þér!
    Ég þekki þig ekki, en langar til að þakka þér fyrir að deila skrifum þínum með okkur hinum. Held að aðrir geti lært ýmislegt af þér, þú virðist búa yfir einstöku viðhorfi sem er öfundsvert.
    Gangi þér vel :)

    SvaraEyða
  4. Hahaha þetta er það besta sem ég hef lesið Jóna!

    SvaraEyða