laugardagur, 5. júlí 2014

Stiklað á stóru

Mikið rosalega er langt síðan ég skrifaði blogg!
Jæja, þá er ég loksins útskrifuð af Grensás og komin í sumarfrí, sem er æðislegt. Ég ætla að reyna að fara í ræktina í Egilshöllina í sumar, ég fór með mömmu og sjúkraþjálfaranum mínum og prófaði að færa mig yfir í nokkur tæki sem gekk bara ágætlega.  Svo var smá pæling að prófa að æfa sund, en ég ætla að sjá til með það.  Ég hef farið nokkrum sinnum í sund á Grensás og get núna synt baksund og bringusund ágætlega, er allavega ekki við það að drukkna.  Annars fannst mér rosalega erfitt að fara í sund fyrst, það er smá högg á sjálfsmyndina að þurfa svona mikla hjálp, bara til þess að fara í sundföt og komast út í laugina.  En þetta lærist smám saman og það lærist líka að leyfa fólki að hjálpa sér.
Svo er eitt sem mig langar svo að koma frá mér en ég veit það á eftir að hljóma furðulega.  Mér leið ekki mjög vel um daginn og ég settist upp í rúminu mínu.  Ég horfði bara á lappirnar mínar og strauk þeim varlega, svona eins og maður myndi gera við höfuð á barni.  Ég fann ekkert fyrir því þegar ég kom við lappirnar á mér og mér leið eins og þær væru mjög góðar vinkonur sem ég kunni aldrei að meta. Eins og að þær væru í dái og ég gat ekki vakið þær.  Vonandi móðga ég engan með því að segja þetta, auðvitað er það að lamast ekki eins og að missa einhvern náinn.  En þetta er samt ótrúlegur missir sem er varla hægt að útskýra, enda er ekki hægt að skilja hvernig þetta er, sem betur fer.  Ég veit ég hljóma ekkert mjög jákvæð, en það á líka að tala um erfiðleikana.  Og það eru þeir sem hafa þroskað mig og látið mig sjá hvað ég get verið sterk. Ég veit líka að þetta mun verða miklu betra, það er bara liðið rúmlega hálft ár frá því að ég lamaðist og að læra að lifa upp á nýtt tekur sinn tíma.

Ég verð bara að tala aðeins um mömmu mína.  Ég vissi ekki að hún væri svona mikil ofurhetja.  Þetta er búið að vera svo erfitt fyrir hana líka en samt setur hún fjölskylduna alltaf í fyrsta sæti og gerir allt til þess að mér líði betur.  Það er eins og hún hafi fleiri tíma í sólarhringnum því hún tekur til í húsinu, eldar góðan mat, passar að allt sé í lagi hjá mér og systrum mínum og stundum virðist hún vita hvað ég vil áður en ég veit það.  Hún kann alltaf að hugga mig og hún er búin að standa með mér í gegnum allt þetta ótrúlega erfiða ferli, þó ég geti verið hræðileg gribba við hana, því einhvern veginn tekur maður alltaf erfiðustu tilfinningarnar út á þeim sem maður elskar mest, þó það sé ósanngjarnt þegar manneskjan hefur alltaf verð góð við mann.  Mig langaði bara að segja hvað ég elska þig ótrúlega mikið, mamma, og ég er heppin að eiga mömmu og svona góða vinkonu í einni manneskju.

Ég er líka bara ótrúlega heppin með fjölskyldu og systur mínar og pabbi minn búin að hjálpa mér mjög mikið. Pabbi með húmornum sínum, Dagný er alltaf að hjálpa mér heima og Valdís er svo mikið krútt, alltaf að knúsa mig og er alltaf svo góð við mig.  Hún lýsti upp daginn minn fyrir nokkru þegar ég sat í sófanum og sofnaði svo.  Síðan vaknaði ég þegar mamma kom heim og sá lítinn "post-it" miða frá Valdísi, við hliðina á mér.  Þar stóð: "Fór út, vildi ekki vekja þig".

Ég ætla bara að minna ykkur aftur á að það þarf ekki mikið til þess að gleðja aðra manneskju og það er svo gott fyrir sálina, bæði fyrir þann sem gefur og þann sem þiggur!

Tootiloo!

3 ummæli:

  1. Takk fyrir að halda áfram að deila reynslu þinni með okkur, elskuleg. Gangi þér áfram sem allra best í þessari baráttu og ég vona að þú getir notið alls þess góða sem lífið hefur þrátt fyrir allt upp á að bjóða. Bestu kveðjur til fjölskyldunnar.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Minnsta málið, takk fyrir stuðninginn!

      Eyða
  2. Sæl Jóna þetta er Emil Steinar Björnsson
    Og ég er alltaf að lesa blogger þitt og ég verð bara að segja að þetta er frábært sem þú ert að gera, haltu áfram að gera þetta.
    Kv. Emil Steinar Bjornsson

    SvaraEyða