Ég veit varla hvernig ég á að byrja þetta blogg, það er svo margt sem ég vil segja ykkur frá. Ég ætla að reyna að vera mjög opin og hreinskilin með þetta allt því ég vil að þið vitið hvernig sagan á bak við þetta er og ég vona að þetta geti hjálpað einhverjum eða að þetta sé í minnsta lagi áhugavert. Ég komst semsagt að því í lok nóvember, ætli það hafi ekki verið í kringum 27.-28. nóv. að ég var með blöðrur hjá mænunni og ég þurfti að fara í skurðaðgerð og láta taka þær. Í aðgerðinni kom í ljós að ég var líka með æxli og ef ég skildi rétt var ekki hægt að taka það allt úr. Eftir rannsóknir á æxlinu kom í ljós að það er ekki krabbamein, semsagt góðkynja.
BYRJUNIN
Þetta byrjaði u.þ.b. tveimur vikum áður en ég fór í uppskurðinn. Þá fór ég að finna fyrir verk í bakinu og hélt ég hefði sofið illa eða skakkt. Verkurinn ágerðist með hverjum deginum og var orðinn það slæmur að ég var farin að vakna út af verkjum og fór grátandi fram úr rúminu einn morguninn. Ég sagði fjölskyldunni í Perú frá þessu en fór samt ekki til læknis strax því þau héldu að þetta væri eitthvað sem myndi lagast. Þegar þetta hafði staðið yfir í u.þ.b. viku fór ég einnig að finna fyrir máttleysi í löppunum og það ágerðist líka með hverjum deginum, ég mætti ekki lengur í skólann og átti orðið erfitt með gang. Ég sagði mömmu á Íslandi frá þessu og hún hafði miklar áhyggjur af þessu og taldi þetta vera brjósklos eða klemmda taug. Ég fór að lokum til læknis og hún hélt að þetta væri vírus svo ég fékk töflur við þessu sem áttu að leiða í ljós hvort um vírus væri að ræða eða ekki. Töflurnar reyndust hafa jákvæð áhrif, ég átti auðveldara með gang daginn eftir, en var samt enn dofin. Svo versnaði þetta aftur og ég man að rétt áður en ég fór til læknis sat ég í stofusófanum heima í Perú og ætlaði að ná mér í teppi sem var í stofustólnum nokkrum skrefum frá. Ég stóð upp, tók þrjú skref, datt niður, skreið til að ná í teppi og brölti aftur í sófann. Síðan kom perúska frænka mín og fór með mér upp á sjúkrahús. Við fórum með leigubíl og þegar ég kom sagði hún mér að bíða og sótti hjólastól handa mér. það var skrítið að horfa á sína eigin spegilmynd í glerhurð spítalans og sjá leiða stelpu sitjandi í hjólastól.
Á sjúkrahúsinu kannaði taugalæknir viðbrögð í löppunum á mér og á þeim tíma voru enn viðbrögð en ekki nærri því jafnsterk og hjá venjulegri manneskju. Hann sagði að ég þyrfti að vera lögð inn og að ég þyrfti einnig að fara í myndatöku til að reyna að finna út hvað væri að. Við fórum með sjúkrabíl upp á annan spítala og þegar þar var komið var ég orðin svo veikburða í löppunum að frænka mín þurfti að hjálpa mér að komast á klósettið. Ég var orðin mjög hrædd.
MYNDATAKAN OG "CHATA"
Ég fór inn í hvítt herbergi með stórri græju inni í. Þetta var einskonar bekkur og kúpull yfir. Ég lagðist á bekkinn og læknirinn sagði mér að þetta myndi taka svona 30-40 mínútur. Ég fékk bjöllu sem ég gat ýtt á ef eitthvað væri að og svo rann bekkurinn áfram inn í græjuna. Það hafa ekki verið meira en 15-20 cm á milli mín og loftsins og þetta var þröngt á alla kanta svo ég óttaðist að fá innilokunarkennd. Ég lokaði augunum og reyndi að hugsa um eitthvað fallegt og um skemmtileg lög og þetta reyndist ekki mikið mál. Það heyrðust mikil læti en ég fann að það var betra því þegar lætin stoppuðu í smástund fannst mér innilokunarkenndin sækja á mig. Svo minnr mig að ég hafi verið lögð inn á sama spítalann og myndirnar voru teknar. Ég þurfti að bíða 2-3 klst. eftir herbergi og var orðin mjög þreytt á að sitja í hjólastólnum. Þegar niðurstöðurnar komu í ljós sagði frænka mín mér að ég væri með "tumorcito" sem þýðir lítið æxli eða "quiste" sem er blaðra, við mænuna. Ég byrjaði að gráta og ég var mjög hrædd. Ég náði samt fljótlega að róa mig og held ég hafi verið í frekar furðulegu ástandi. Skurðlæknirinn kom inn og sagði að við yrðum að skera mig upp eða ég gæti lamast að eilífu. Ég er nokkuð viss um að ég hafi svarað með: "já, ókei" og svipi sem sýndi ekki neinar sérstakar áhyggjur eða ótta. Hann spurði hvort ég hefði skilið hann og endurtók sig og ég svaraði játandi. Eftir á að hyggja held ég að hafi brugðist svona við því að þetta voru slæmu fréttir nr.2 og ég hafði eiginlega alveg náð toppinum á vanlíðaninni svo að heyra þetta munaði ekki svo miklu. Kannski slekkur maður líka hálfpartinn á sér í svona aðstæðum.
Á þessum tímapunkti hafði ég varla stjórn á þvagláti lengur. Ég hringdi á hjúkkurnar og bað þær að hjálpa mér á klósettið en ég gat ekkert gengið lengur svo ég hneig bara niður og þær hjálpuðu mér aftur í rúmið. Þær komu með eins komar stáldollu eða "chata" eins og það heitir á spænsku. Svo varð ég að gjöra svo vel og setjast á þennan stálkopp og reyna að míga en allt stíflaðist við það að reyna að pissa í kopp. Ég var heillengi og náði að koma einhverju frá mér en ekki öllu. Mig minnir að það hafi verið seinna sama dag sem ég þurfti aftur á klósettið og mér til skelfingar átti ég mjög erfitt með að stjórna þessu og viðurkenndi fyrir hjúkkunni að ég væri nú þegar byrjuð. Þá sagði hún mér að pissa bara svo ég gerði það bara, enda ekki mikið annað í stöðunni. Ég átti að sofa eina nótt á spítalanum og fara svo í aðgerðina daginn eftir. Mér fannst skelfileg tilhugsun að sofa ein á sjúkrahúsi í Perú. Ég fór að gráta en hjúkrunarkona kom inn, huggaði mig og sagði að ég væri aldrei ein, Guð væri alltaf með mér og hjúkrunarkonurnar væru hérna líka. Það lét mér líða mun betur og ég svaf nokkuð rólega.
AÐGERÐIN
Daginn eftir fór ég í aðgerðina. Frænka mín var með mér rétt fyrir aðgerðina og kærastinn minn líka. Já, ég nældi mér í einn "súkkulaðistrák" úti, hahaha, og ég hef minnst á hann áður í annarri bloggfærslu, Leo. Við kynntumst í frumskógarferðinni og erum því búin að vera saman í þrjá mánuði. Svo var mér komið fyrir á börur og síðan á skurðarborðið. Ég var færð úr bolnum svo ég lá þarna ber að ofan og leið óþægilega því skurðlæknirinn var maður. Ég huldi mig en hann sagði mér að hafa ekki áhyggjur og ég þrufti að draga hendurnar frá til að fá legg í æð og til að kanna blóðþrýstinginn. Ég grét ekki né var hrædd fyrir aðgerðina, enda var ég bara fegin að fá að komast áfram í þessu ferli. Ég held að ég hafi fengið svefnlyf í æð, en ég man ekkert eftir því að hafa sofnað. Ég man hins vegar að þegar ég vaknaði var ég með slöngu í munninum og var hrikalega dösuð. Læknirinn sló mig létt á kinnarnar og sagði mér að anda. Ég reyndi það nú eftir bestu geta en það var frekar erfitt. Slangan var tekin úr munninum á mér og af einhverjum ástæðum leið mér hræðilega þegar læknirinn kallaði mig "Hanna" en ekki Jóna. Ætli það hafi ekki bara dregið fram þá staðreynd að ég var nýbúin í skurðaðgerð í öðru landi en mínu heimalandi og ég var ekki enn búin að ná tungumálinu algjörlega og þau gátu ekki einu sinni sagt mitt rétta nafn. Ég sagði veikum rómi að ég héti Jóna, enda mjög vönkuð og fannst á þeim tímapunkti mjög mikilvægt að læknarnir vissu það. Ég var síðan færð inn á stofu og ég svaf í einhvern tíma eftir aðgerðina. Mig verkjaði ekkert sérstaklega mikið í bakið en öll tilfinning í löppunum var horfin. Mér hafði áður verið sagt að ég ætti að vera fær um að hreyfa fæturnar stuttu eftir aðgerðina en svo var ekki.
SJÚKRAHÚSVISTIN
Eftir aðgerðina var ég 15 daga á spítalanum. Ég fékk kjúkling tvisvar á dag alla dagana nema einhver örfá skipti. Í fyrstu var ég rosalega ánægð en undir lokin var ég farin að þreytast á þurrum kjúklingi og hrísgrjónum án sósu, glærri súpu og hlaupi í eftirrétt. Konan í eldhúsinu var ekkert rosalega sátt með mig þegar ég kláraði ekki matinn minn. Mamma og pabbi komu 2-3 dögum eftir aðgerðina og það var rosalega gott að sjá þau en erfitt líka og ég og mamma táruðumst. Það gat verið mjög erfitt að hafa foreldra mína hjá mér því auðvitað vildi mamma alltaf vera að nudda á mér lappirnar (kannski þegar það voru gestir líka enda voru langoftast gestir) og passa upp á allt og stundum varð ég mjög þreytt á því. Ég veit samt að það var nauðsynlegt en mér leið alltaf meira eins og sjúklingi við það. Það komu rosalega margir gestir til mín sem var auðvitað yndislegt en ég held ekki að fólk átti sig á því hvað maður þreytist auðveldlega þegar það eru margir hjá manni í einu, tala nú ekki um það þegar ég þurfti að tala þrjú tungumál og þýða á milli. Svo kom "herbergisfélagi" í tvær nætur og fyrstu nóttina svaf ég mjög illa því þetta var 3 ára stelpa sem hágrét og var mjög óvær um nóttina. Ég var samt ekkert pirruð, hún var svo mikið krútt að það var auðvelt að afsaka þetta.
Ég veit ekki hversu oft mér var snúið, svo ég fengi ekki legusár, ég fékk nál í æð, blóðþynningarlyf, verkjatöflur, sýklalyf, lyf til að koma af stað hægðum, lyf til að stoppa hægðir (í flugvélinni), ég notaði bleyju, var með þvaglegg, ég hef ekki getað rakað mig undir höndunum í þrjár vikur, ég finn ekkert fyrir því þegar ég hef þvaglát eða hægðir, finn ekkert þegar fæturnir eru snertir og ég var böðuð í rúminu þessar tvær vikur með svampi eða einhverju álíka. Hárið á mér var orðið svo úfið að það tók 2-3 klst. að greiða það og á endanum var hluti af því klipptur af. Á bakinu er ég með u.þ.b. 10 cm langt ör, 16 spor. Læknarnir voru mjög mismunandi, skurðlæknirinn var svartsýnn, taugalæknirinn hélt í vonina og sjúkraþjálfarinn sagði að þetta væri mjög langt ferli og snerist mikið um jákvætt hugarfar. Ég ákvað því að hlusta á hann, hann lét mér líða best. Einnig vegna þess að hann kom til mín á hverjum degi og nuddaði mig og teygði mig og fylgdist með mér en skurðlæknirinn kom örsjaldan til mín. Hjúkrunarkonurnar voru algjörlega yndislegar og töluðu við mig, spurðu mig um Leo og knúsuðu mig langflestar þegar ég var að fara upp á flugvöll. Það var mjög erfitt þegar ég sagði Leo daginn áður en ég fór að ég væri á leiðinni heim. Ég grét og ég sá að hann var mjög leiður og við vissum að þetta yrði síðasta skiptið sem við myndum sjá hvort annað, a.m.k. á þessu ári. Síðasti dagurinn í Perú, hugsaði ég með mér og uppskar mjög erfiðar tilfinningar.
FLUGFERÐIN
Ferðin heim er án efa erfiðasta ferðalag sem ég hef nokkurn tímann farið í. Ég var tekin í sjúkrabörum upp í sjúkrabíl og sjúkraflutningamennirnir brunuðu með mig upp á flugvöll eins og líf mitt lægi við. Þeir settu sírenurnar á og við pabbi sögðum að þetta væri æfingarakstur fyrir þá, því það var enginn hagur í því fyrir okkur að þeir hafi keyrt svona hratt. Svo kveikti einn þeirra á flúrljósum og mér var hálfillt í hausnum af þeim og látunum í sírenunum. Svo komum við á flugvöllinn og þá þurfti að koma mér í hjólastól. Ég hélt að sjúkraflutningamennirnir myndu auðveldlega færa mig í stólinn en svo kunnu þeir bara ekkert á þetta. Pabbi fylgdist með og vildi alls ekki að þeir lyftu mér upp eins og þeir ætluðu að gera enda hefðu þeir aldrei náð því, böggluðust eitthvað með mig bara. Það endaði á því að pabbi setti mig í stólinn og kunni það bara miklu betur, enda hafði sjúkraþjálfarinn minn kennt honum það. Í flugvélinni þurfti að færa mig í annan minni stól því venjulegur hjólastóll passar ekki í flugvélar. Ég og mamma fengum að vera á fyrsta farrými eða "business class" og það var æðislegt! Ég gat legið alveg út af í sætinu, við fengum kvöldmat og morgunmat og ég svaf megnið af leiðinni. Flugfreyjurnar voru líka mjög indælar. Þá lentum við eftir 8 klst. flug í New York og þá byrjuðu erfiðleikarnir. AFS hafði pantað fyrirtæki fyrir okkur sem áttu að leiða okkur í gegnum allt, starfsmaður átti að bíða eftir okkur á flugvellinum og fara með okkur á hótel. Við biðum í 3-4 tíma á flugvellinum og ég var orðin mjög þreytt í hjólastólnum. Mamma og pabbi spurðust fyrir og á endanum var okkur sagt að við yrðum sótt eftir korter. Við biðum allavega hálftíma lengur og síðan héldum við út. Það var ískalt úti og við vissum ekki alveg hvar við áttum að vera. Ég bjóst við bíl fyrir hjólastól en við fengum venjulegan leigubíl. Þá gat ég ekki meira og fór að gráta. Ég lét nokkur tár falla, þurrkaði þau og tók svo um pabba og hann bar mig inn í bíl. Bílstjórinn talaði varla ensku og ruglaðist á nöfnum á hótelum þar sem eitt þeirra hét Days Inn og hið rétta Holiday Inn. Ég þurfti að segja honum nokkrum sinnum að það væri Holiday Inn en sem betur fer voru þessi hótel alveg rosalega nálægt. Ég var færð í hjólastól og inn á hótel. Mamma talaði við fólkið í afgreiðslunni meðan ég sat aðeins til hliðar, nokkrum metrum frá. Ég heyrði starfsmann segja að herbergið okkar væri ekki tilbúið því það væri ekki búið að borga fyrir það. Ég rak upp einn svona: "hah!" hlátur og byrjaði svo að hágráta. Mamma kom til mín og faðmaði mig og ég sagði við hana: "sorrý, mamma, mér finnst bara pínu eins og lífið sé á móti mér akkúrat núna". Mamma sagðist skilja það vel og það gekk ágætlega að jafna mig með hjálp mömmu. Sem betur fer þurftum við bara að bíða nokkrar mínútur eftir herbergi en ég hafði alveg búist við klukkutíma. Við fórum inn á herbergi og pabbi lagði mig í rúmið sem reyndist alveg ótrúlega sárt, fékk einhvern sting í rifbeinin og fór aftur að gráta. Ég flýtti mér að segja að þetta væri allt í lagi og að ég væri líka bara þreytt. Ég fór nú samt á facebook enda hafði ég ekki komist á það í tvær vikur. Ég hefði ekki trúað hvað mikið af fólki hugsar til mín, ég fékk a.m.k. 30 batakveðjur í skilaboðum og nokkrir höfðu skrifað á vegginn minn. Ég reyndi að svara þeim öllum og var farin að titra af þreytu í líkamanum. Á endanum fór ég að sofa og svaf í 2-3 tíma en þá þurftum við að fara aftur á flugvöll. Mamma sagðist hafa talað við fyrirtækið og að það hefði sagst ætla að redda bíl fyrir hjólastól. Aftur kom bara venjulegur leigubíll en það kom mér ekki á óvart. Þessi bílstjóri talaði aðeins meiri ensku og ég komst m.a. að því að hann væri gyðingur og ég sagði honum að það væri svo svalt, ég hefði aldrei hitt gyðing áður. Ég var sett í mjög óþægilegan stól sem studdi lítið við mig því armarnir á honum náðu svo langt út svo ef ég hélt mér ekki í armana valt ég að annarri hliðinni á stólnum. Ég var þreytt og ekki í besta skapinu og síðan komumst við að því að það væri klukkutíma seinkun á fluginu. Mamma og pabbi röltu með mig um flugvöllinn en ég varð fljótt leið og var bara frekar niðurdregin. Ég bað um að fá McDonald's svo pabbi fór í röðina en ég og mamma biðum á meðan skammt frá. Af einhverjum ástæðum leið mér enn verr en áður og ég fór að biðja bænir. Mamma kom til mín og ég sagði veikri röddu að ég hefði bara verið að biðja kvöldbænir. Svo táraðist ég og reyndi bara svona að jafna mig, var bara gjörsamlega búin á líkama og sál.
Við settumst og byrjuðum á hamborgurunum okkar, ég og pabbi og vá! Aldrei vanmeta mat, hann bjargaði sálinni minni á þessum degi! Ég fór úr því að vera ótrúlega leið yfir því að vera brosandi og að grínast á innan við 10 mínútur því mér leið bara svo miklu betur við að borða. Fékk mér habanero-borgara, mjög sterkan, en þetta var mjög gott, McDonald's klikkar ekki.
Svo fórum við aðeins um flugvöllinn og mættum íslenskri flugfreyju sem bara áttaði sig á því að við værum íslensk og hún stoppaði okkur og spjallaði smástund og sagðist svo hafa keypt jólanaglalakk handa mér. Hún dró upp kassa með gullfallegum, þremur naglalökkum í og ég þakkaði innilega fyrir og það lá við að ég táraðist, fannst þetta svo hugulsamt af henni. Ég þekkti hana ekki neitt en hún vissi af mér því það þurfti að leggja niður þrjú sæti í flugvélinni svo ég gæti legið á bedda. Síðan hittum við hinar íslensku flugfreyjurnar og þær voru báðar jafnyndislegar og sú fyrsta. Í flugvélinni þurfti að lyfta mér fyrst úr litlum hjólastól yfir á sætin sem lágu og þá leið næstum yfir mig, eða mér leið allavega þannig. Fannst röddin mín vera mjög kraftlítil og mig svimaði mikið. Þetta gerist stundum þegar pabbi færir mig á milli hjólastóla og rúma, verð stundum mjög ringluð, svimar eða verð mjög þróttlaus í smástund. Svo var ég færð á beddann og spennt niður svo ég myndi ekki bara rúlla út af ef ókyrrð yrði. Flugfreyjurnar gáfu mér og foreldrum mínum nammi og voru bara yndislegar í alla staði. Flugið gekk mjög vel og þegar við lentum komu sjúkraflutningamenn og settu mig á börur. Þá lá leiðin inn í sjúkrabíl og þar voru ljósin fyrir ofan mig slökkt og keyrt rólega, loksins var ég komin heim til Íslands og hins íslenska fólks, sem virðist bara skilja þarfir manns án þess að þurfa að segja neitt við það.
BORGARSPÍTALINN
Nú hef ég verið á Borgarspítalanum í nokkra daga og þetta er bara algjör lúxus miðað við Perú. Ég var alls ekki ósátt við spítalann í Perú og starfsfólkið var frábært en hér er aðstaðan bara miklu betri. Hér er ég með netaðgang og að öllum síðum (facebook var læst á spítalanum í Perú), rúmin eru æðisleg (hef prófað tvö), ég get farið í bað, það er eiginlega enginn hávaði, hér er loftræsting, frábært útsýni yfir elsku Reykjavík og ég er himinlifandi yfir matnum sem er bæði góður og fjölbreyttur (nóg af sósu með öllu og ekki kjúklingur á hverjum degi). Skurðlæknirinn á þessari deild sagði mér að hann væri ekki mjög bjartsýnn en að ég yrði að halda í vonina og ég veit alveg að læknarnir hérna vilja vera mjög raunsæir og vilja ekki gefa falskar vonir. Hann útskýrði líka að þetta "æxli" væri í raun örvefur sem hefði myndast vegna þess að blaðran fór að þrýsta á mænuna, ef ég skil þetta rétt. Starfsfólkið hérna er líka æðislegt og ég er sérstaklega hrifin af sjúkraþjálfaranum mínum, finnst mjög gaman að spjalla við hana. Ég fór í myndatöku hérna líka og myndirnar sýndu, samkvæmt skurðlækninum, mænuna án blöðrunnar, semsagt búið að fjarlægja hana eða sjúga vökvann úr henni eða hvernig sem það nú er en mænan á enn eftir að jafna sig, hún er semsagt enn bogin eftir þrýstinginn frá blöðrunni. Ég hef prófað nokkrum sinnum að fara í hjólastól hérna og það er æðislega frábær lyfta hérna sem lyftir mér upp og setur mig í stólinn, þetta gerir bara allt svo auðvelt, bæði fyrir mig og fyrir starfsfólkið og mig svimar nánast ekkert við þetta. Svo er ég búin að fá mikið af heimsóknum frá fjölskyldu og bestu vinum og það er svo yndislegt að sjá alla aftur, mörg hamingjutár hafa fallið. Núna finnst mér ég bara vera tilbúin í að takast á við allt fyrst ég er komin heim til Íslands og fæ stuðning frá öllum hérna sem elska mig og hugsa til mín.
TILFINNINGAR OG HUGSANIR
Ég ákvað það stuttu eftir aðgerðina að ég myndi taka þessu öllu með jákvæðu hugarfari, enda myndi það aldrei hjálpa mér að vera svartsýn og neikvæð. Ég minntist sögunnar um Pollýönnu, stelpan sem var alltaf svo jákvæð og sá það góða við allt. Hún lamaðist líka í sögunni og komst á fætur aftur svo hún hefur verið svona fyrirmynd fyrir mig í þessu. En auðvitað koma erfiðir dagar inn á milli og þá verð ég bara að gráta og vera leið og svo þurrka ég bara tárin, brosi, þakka Guði fyrir allt það góða í lífi mínu og segi sjálfri mér að ég ÆTLI að ganga á nýjan leik.
Ef ég hefði hugsað um það að fá æxli hefði ég ímyndað mér að það myndi algjörlega rústa sálarlífi mínu en svo er ekki og í raun finnst mér auðveldara að þetta sé að gerast fyrir sjálfa mig heldur en einhvern sem ég elska. Og þetta er í raun auðveldara en ég hélt en ég vil alls ekki gera lítið úr neinum sem hefur fengið æxli og segja að þetta sé ekkert mál, því þetta reynir mikið á en fyrir mér var þetta mjög óraunverulegt. Ég held að Perú hafi líka hjálpað mér með það, að vera í Perú gerði allt óraunverulegra. Ég hélt líka að ég myndi hugsa: "Af hverju ég? Ég á þetta ekki skilið!" en ég gerði það ekki. Ég man eftir viðtali við ameríska konu sem var fræg ef mig minnir rétt, sem fékk brjóstakrabbamein. Í fyrstu hugsaði hún: "af hverju ég?" en svo hugsaði hún: "af hverju ekki?" hún átti pening, var í góðu formi og bjó í landi með góða læknaþjónustu...hún hafði fulla burði til að takast á við þetta. Og þetta hugarfar vildi ég tileinka mér. Af hverju ekki ég? Ef ég er hreinskilin við sjálfa mig og ykkur finnst mér ég vera manneskja sem get tekist á við svona því ég neita að láta þetta brjóta mig niður, því ég reyni alltaf að vera jákvæð og að þrátt fyrir að þetta hafi gerst er ég enn þakklát fyrir lífið og allt sem ég á og ég neita að vorkenna mér fyrir þetta. Ég ákvað líka snemma í ferlinu að verða aldrei reið. Stundum verð ég sár, döpur eða leið en ég ég ætla ekki að vera reið út í neinn, enda mun það bitna mest á sjálfri mér og ég veit að þetta er ekki neinum að kenna. Samt kenni ég sjálfri mér stundum um þetta. "Ég hefði átt að ýta meira á fjölskyldu mína úti að fara með mig til læknis", "af hverju fattaði ég ekki að þetta væri svona alvarlegt?" Þetta hugsa ég stundum en ég reyni að kenna mér ekki um þetta, þetta gerðist svo hratt og enginn hefði getað séð þetta fyrir. Mamma sagðist ætla að spyrja læknana á Íslandi hvort það hefði breytt einhverju fyrir mig að fara fyrr í aðgerð. Ég vil ekki vita svarið og ég veit ekki hvað við myndum græða á því að spyrja því ef svarið er "já" mun það bara særa mig og fjölskyldu mína.
Í þessu, aðstæðum hef ég reynt að taka eftir hverju einasta atriði sem er jákvætt. Þegar ég vaknaði eftir aðgerðina var ég þakklát fyrir að vera á lífi, ég var ánægð með matinn á sjúkrahúsinu, þegar ástandið á löppunum hafði ekkert breyst hugsaði ég: "þetta hefur allavega ekki breyst til hins verra!"
En ég brotnaði líka niður og gat ekki haldið uppi jákvæðninni. Einu sinni þegar mamma og pabbi voru hjá mér og mér leið illa yfir að þurfa að fara heim sagði ég við mömmu: "fyrirgefðu, mamma, bara...þetta áttu að vera tíu bestu mánuðir lífs míns en í staðinn fékk ég fjóra mánuði og æxli". Eina nóttina leið mér mjög illa því ég óttaðist að ég myndi aldrei eignast mann og börn út af þessu, því mig langar svo rosalega að eignast fjölskyldu í framtíðinni. Svo er líka erfitt að vera svona ung, langar svo rosalega að njóta þess lengur að ganga og hlaupa og dansa, finnst ég eiga svo mikið inni ennþá sem ég á eftir að gera. Ein hugsun var líka sú að ég vil að líf mitt gangi út á það að hjálpa öðru fólki, ég vil ekki vera manneskjan sem þarf hjálp hvern einasta dag, allan sólarhringinn. Mig langar að ferðast, hefði hugsanlega áhuga á einhvers konar hjálparstarfi eða sjálfboðastarfi og þá er miklu betra að geta gengið. Ég held að hræðilegasta hugsun sem hefur sprottið fram í huganum á mér sé sú (og þetta gerðist bara einu sinni sem betur fer) er að mér leið eins og að Guð væri að refsa mér fyrir eitthvað, þó ég vissi ekki hvað. Ég hugsaði með mér að kannski þyrfti ég að passa það rosalega vel að vera góð við alla og að hvert einasta smáatriði skipti máli. Ég trúi þessu auðvitað ekki, ég trúi í fyrsta lagi ekki á það að Guð refsi fólki og í öðru lagi efast ég um að hann færi að refsa 17 ára stelpu sem reynir að haga sér skikkanlega.
Það versta við að fara heim fannst mér vera að fara frá Paulu og Leo. Paula er besta vinkona mín þarna í Perú og Leo hefur verið klettur minn og styrkur. Hann heimsótti mig á hverjum einasta degi þrátt fyrir að það væri langt að fara og sat alltaf hjá mér eins lengi og hann gat. Ég talaði líka mikið á Skype við vini mína á Íslandi þegar ég var á spítalanum úti og það gerði kraftaverk. Besti vinur minn hjálpaði mér sérstaklega, oftast er ég sú jákvæða en þegar mér leið illa minnti hann mig á fullt af jákvæðum hlutum og sagði að allt myndi fara vel og af því að mér fannst hann virkilega trúa því þá leið mér miklu betur. Svo voru auðvitað margir aðrir vinir mínir sem hjálpuðu mér svo mikið, bestu vinkonur mínar sérstaklega, talaði mikið við þær á Skype og það eru bara allir svo jákvæðir og bjartsýnir fyrir mína hönd. Það er alveg ómetanlegt að fá svona mikið af hrósum og kveðjum og allir að segja að ég sé svo sterk og jákvæð og bara...það gefur manni styrk og jákvæðni! Sumir segja að ég sé hetja...ég hélt að hetja væri sá eða sú sem hjálpaði öðrum. Mér finnst allir sem hafa stutt mig, hrósað mér, hvatt mig áfram og sent mér hlýja strauma vera hetjur. Allir í kringum mig sem elska mig og hjálpa mér, fjölskylda, ættingjar, vinir og starfsfólk eru hetjur í mínum augum.
ÞAKKLÆTI
Ætla bara að enda á lista yfir flest sem ég er þakklát fyrir, svona til að minna mig og aðra á hvað ég er heppin.
*Fjölskylda mín og vinir, þau eru bara öll svo æðisleg og hvetjandi og frábær, veit ekki hvar ég væri án þeirra.
*Leo, hann er svo frábær manneskja og hefur stutt mig í gegnum þetta allt og við höldum enn sambandi.
Ég vona svo innilega að ég hitti hann fljótlega aftur, hann er manneskja sem fær mig til að tárast af hamingju.
*Ísland, þá á ég við íslenskan mat og vatn, íslenskt veður, íslenskt útsýni og íslenskt fólk. Í Perú fór ég að hugsa um Íslendinga sem neikvæða og fúllynda en svo þegar ég kom heim voru bara allir svo æðislegir og mér finnst Íslendingar í raun mun tillitsamari en Perúbúar, rólegri og skynsamari. Þeir skilja betur ef maður þarf frið og þeir eru mun umhyggjusamari en mig minnti.
*Fyrir að hafa vaknað eftir aðgerðina
*Fyrir öll litlu skrefin sem ég hef tekið, hef farið í hjólastól, get fundið örlitla tilfinningu í vinstri ilinni, fæ kippi í lappirnar sem eru góðs viti og vonandi held ég bara áfram að stíga þessi litlu skref.
*Ég er orðin nánari pabba mínum eftir þetta og það er eitt af því besta sem hefur komið út úr þessu öllu saman.
*Íslenskir sjúkraliðar, þeir eru fyndnir, skemmtilegir, góðir og mjög tillitsamir og kunna algjörlega sitt fag.
*Íslenskar flugfreyjur, gjörsamlega yndislegar og gera allt með bros á vör.
*Hjúkrunarkonur og sjúkraliðar, bæði erlendis og heima, þær eru bara eins og fullt af mömmum sem vilja allt fyrir mann gera og segja mér að hringja bjöllunni hvenær sem mig vantar aðstoð.
*Lífið sjálft, þó það sé stundum erfitt hefur mér aldrei fundist eins og það sé ekki þess virði að lifa því og mér finnst lífið mitt svo æðislegt því ég á bara besta fólk í heiminum að sem ég veit að mun styðja mig í gegnum hvað sem er.
Svona í bláendann vil ég þakka þér fyrir að hafa gefið þér tíma til að lesa bloggið mitt. Ef þú hefur einhverjar spurningar máttu endilega senda mér skilaboð á facebook og það má vera um hvað sem er, ég er ekkert feimin við að ræða þetta, hvort sem ég þekki þig eða ekki. Ég vona að þetta hafi verið áhugavert eða jafnvel það sem væri enn betra, að þetta hafi hjálpað einhverjum sem er að ganga í gegnum svipaðar aðstæður og ég.
Hafið þið það svo yndislegt um jólin,
kv. Jóna Kristín.
laugardagur, 21. desember 2013
sunnudagur, 3. nóvember 2013
Af veikindum og þakklæti
Nú myndi margur Íslendingurinn eflaust gubba yfir MacBook-fartölvuna sína við lestur á þessari bloggfærslu því mig langar að segja frá síðastliðnum vikum en einnig reyna að tvinna smá þakklæti og jákvæðni inn í skrifin.
Þann 13. október keypti ég fullt af fötum frá Perú, þ.á.m. herðaslá (poncho), húfu (chuyo) og svo peysu með llamamunstri sem ég hef notað gríðarlega mikið hérna og ég hreint dýrka! Að sjálfsögðu er þetta svo allt úr alpaca-ull og Íslendingurinn var ansi hreint montinn með gersemarnar. Langar líka að láta alla vita að "llama" er í alvörunni borið fram "djama", þið getið þá kennt mér um ef einhver segir að það sé rangt. ;) Þann dag fór ég líka í kirkju með fjölskyldu minni og gaman að segja frá því að ég þekkti tvö lög svo ég gat alveg sungið með því enda fengum við blöð með spænska textanum.
Svo er ég búin að vera rosadugleg að tala við vinina á Íslandi (kannski einum of) og mamma sendir mér skilaboð á hverjum degi. Er svo þakklát fyrir að eiga fjölskyldu og vini sem elska mig og sakna mín og bara að geta talað íslensku á facebook og skype er ómetanlegt! Netið er bara algjör blessun, að ímynda sér að fá í mesta lagi eitt bréf á mánuði frá vinum og fjölskyldu er rosalegt! En þannig var það samt fyrir skiptinema og það er alls ekki langt síðan.
Ég verð líka að segja hvað ég er ótrúlega heppin að hafa fengið svona æðislega fjölskyldu en þónokkrir skiptinemar sem ég kannast við hafa þurft að skipta um fjölskyldu af góðum og gildum ástæðum en ég get í alvörunni ekki ímyndað mér betri fósturfjölskyldu og mig langar bara að deila með öllum hvað fólkið hérna er æðislegt! Samt held ég að allir geti fundið eitthvað gott við skiptinemaárið sitt. Fyndið að á einstaka augnablikum rennur upp fyrir mér allur sannleikurinn, á þessu augnabliki er ég að upplifa eitthvað einstakt í allt öðru landi í annarri heimsálfu. Sama hvað gerist og þó að ég muni ganga í gegnum erfiðleika verður þetta alltaf einstök og ómetanleg reynsla og ég mun aldrei taka því sem gefnu og ég bara trúi ekki hvað ég á yndislega foreldra á Íslandi að leyfa mér þetta, eins mikill hænuhaus og ég er!
Núna förum við Paula hvern mánudag til Carabayllo til að hjálpa enskukennurunum að kenna litlum krökkum ensku. Málið er semsagt að ég og Paula erum í skóla sem heitir Inca Garcilaso De La Vega (við segjum samt alltaf bara Garcilaso). Við erum í skólanum í Pro Lima en svo er annar skóli staðsettur í Carabayllo (sem er eins og annað svæði, erfitt að útskýra, ætli þetta sé ekki eins og Reykjavík og Kópavogur, hahaha). Allavega, krakkarnir eru svo miklar rúsínur og ég trúi því ekki hvað þeir líta upp til okkar! Eftir skóla einn daginn hrúguðust krakkar í kringum okkur til að biðja um eiginhandaráritunina okkar! Sumir þeirra hafa gefið okkur kex, einhverjir smá pening og ein stelpa keypti súkkulaði handa okkur, hversu sætt!? Mér finnst líka æðislegt að skólinn treysti okkur í þetta verkefni og líti svo á að við séum nógu góðar til að kenna litlum krökkum ensku! Og þetta er svo gaman og gefandi og í raun er þetta æfing í spænsku fyrir mig, hahaha! :D
Um daginn bakaði ég pönnukökur með Paulu og Leo og af einhverjum ástæðum var ég svo taugatrekkt eitthvað, ekkert mátti fara út fyrir eða neitt en samt var þetta rosagaman. Og það er ekkert smá hvað strákar hérna eru barngóðir, Leo leyfði Brendu alveg að vera með og sagði að hún mætti hræra í deiginu og bara...hahaha, ég hef ekki svona mikla þolinmæði fyrir krökkum, ef ég á að vera hreinskilin. Brenda er samt snillingur, hún er eins og mamma nr. 2, fórum á markaðinn í gær en áður en við fórum lá dagbókin mín og annað dót á stofuborðinu og Violeta sagði að við ættum bara að drífa okkur og þá sagði Brenda: "en Jóna, fyrst skaltu taka saman dótið þitt". Hahaha, hún er svo mikil dúlla og minnir mig svo á Valdísi stundum, enda báðar bústnar skellibjöllur. Um síðustu helgi fór fram keppni milli Garcilaso-skólanna tveggja. Auðvitað var þetta danskeppni, og við í fimmta bekk unnum! Fimmti bekkurinn er semsagt elsti bekkurinn. Það var svo gaman að horfa á bekkjarfélaga mína því atriðið var svo æðislegt! Byrjaði þannig að strákarnir voru að leika fulla menn, hálfgerða kúreka og svo komu tvö naut á sviðið, leikin af fjôrum bekkjarfélögum mínum, hahahahaha, það var svo fyndið! Þau áttu sigurinn svo skilið, búin að dansa alla daga í skólanum a.m.k. frá því að ég kom hingað. Svo þegar við unnum var svo mikil samkennd og bekkjarsystkini mín sögðu mér og Paulu að fara upp á svið og ég faðmaði alla og var ekkert smá ánægð! Svo fengu allir dansararnir medalíu og Leo gaf mér sína, svo mikið krútt. Gaman að eiga eitthvað til minningar um folklor-ið hérna en það er svo flottur dans, þjóðardansinn hérna held ég, og menningin hérna er svo rík!
Fór líka með Paulu og Andreu í Mega Plaza sem er verslunarmiðstöð síðasta mánudag. Gleymdi algjörlega að minnast á Andreu seinast, ég vissi að ég hefði gleymt að minnast á einhvern! En sko, vá, hvar á ég að byrja með Andreu?! Hún er líklega hógværasta manneskja sem ég þekki en samt ótrúlega gáfuð og svo falleg! Og allt sem hún gerir er í hófi, hún talar ekki of hátt, er aldrei æst og t.d. fórum við á Starbucks og ég og Paula fengum okkur stærsta glasið en Andrea fékk sér millistærð, eins og ég segi, allt í hófi hjá henni. ;) Hún er bara svo æðisleg og er mjög sérstök fyrir mér, hún er ólík öllum hinum krökkunum og minnir mig oft meira á Evrópubúa en Perúbúa, enda talar hún líka ensku, snillingurinn! Var samt rosasvekkt með fyrstu Starbucks-ferðina mína því ég var svo rosalega kvefuð að ég fann ekkert bragð! :(
Þá fer ég að koma að því síðasta í færslunni minni. Ég er búin að vera mjög veik síðustu daga, byrjaði sem kvef á mánudegi og í skólanum á miðvikudeginum var ég líka komin með hausverk. Var svo að horfa á mynd um kvöldið og ég skammast mín bara ekki neitt fyrir það að ég byrjaði að tárast af sársauka og innan skamms var ég farin að hágráta. Hef aldrei verið svona illt í hausnum áður. Var búin að fara til læknis og fá lyf við þessu öllu en hélt ég þyrfti að taka hausverkjatöflurnar daginn eftir svo ég geymdi þær. Svo aðfaranótt fimmtudags ældi ég, ennþá með brjálaðan hausverk og ég man hreinlega ekki eftir því hvenær mér leið svona illa seinast. Og þá kem ég inn á eitt sem ég vil að allir sem lesi taki til sín, sama hversu skringilega það kann að hljóma. Nú mun ég aldrei, aldrei, aldrei aftur vanmeta þau forréttindi að vera veik í mínu eigin landi, það er að segja Íslandi. Hér má ekki drekka gos, borða nammi, ís né ávexti þegar maður er veikur. Á Íslandi líður mér alltaf best með að drekka gos eða borða ferska ávexti þegar ég er með ælupest en hér mátti ég það alls ekki því ég var LÍKA með hósta og kvef og allir hér trúa því statt og stöðugt að það fari rosalega illa í mann þegar maður er veikur að drekka gos eða borða nammi. Ég held að sumir hafi meira að segja haldið að ég hafi orðið svona veik því ég drakk gos eða borðaði ís einhverjum dögum áður. En ég er líka rosalega þakklát frænku minni hérna úti, henni Vicky, sem fór með mig til læknis og mömmu minni og bara öllum fyrir að sjá svona vel um mig þegar ég var veik. Lyfin sem ég fékk gerðu kraftaverk og núna er ég eins og ný. Nú er ég líka búin að læra að kyngja stoltinu aðeins, hugsaði fyrst: "nei, ég þarf engar pillur við einhverju kvefi, ég er Íslendingur, eins og ég sé ekki vön hósta og nefrennsli?!" En maður verður líka að hugsa vel um sjálfan sig og Perúbúar vita alveg hvað þeir eru að segja, hérna er miklu rakara og þess vegna er ég búin að vera mikið veik hérna en ég hélt bara að af því að það væri hlýtt úti að ég yrði ekkert veik!
Já, svona er þetta, datt í hug að skrifa þetta blogg og reyna að sprauta inn smá extra jákvæðni, eitthvað sem allir hafa gott af held ég bara. Maritza vinkona mín á hrós skilið en ég fékk hugmyndina að blogginu þegar ég var að tala við hana um þakklæti. Og elskurnar mínar, fæ stundum fréttir að heiman um hvað Ísland er lítið og kalt og ömurlegt en í alvörunni, við höfum það svo gott á Íslandi! Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég sakna þess stundum að drekka vatn beint úr krananum og um daginn sá ég sólina í fyrsta skipti hérna í Lima og í fullri alvöru, ég hélt fyrst að sólin væri tunglið því sólin sést aldrei á himninum í Lima. Svo næst þegar þið sjáið trén, grasið, nokkuð hreinar götur, andið að ykkur fersku lofti og horfið upp í bláan himininnn skuluð þið stoppa eitt augnablik og þakka fyrir lífið.
Þann 13. október keypti ég fullt af fötum frá Perú, þ.á.m. herðaslá (poncho), húfu (chuyo) og svo peysu með llamamunstri sem ég hef notað gríðarlega mikið hérna og ég hreint dýrka! Að sjálfsögðu er þetta svo allt úr alpaca-ull og Íslendingurinn var ansi hreint montinn með gersemarnar. Langar líka að láta alla vita að "llama" er í alvörunni borið fram "djama", þið getið þá kennt mér um ef einhver segir að það sé rangt. ;) Þann dag fór ég líka í kirkju með fjölskyldu minni og gaman að segja frá því að ég þekkti tvö lög svo ég gat alveg sungið með því enda fengum við blöð með spænska textanum.
Svo er ég búin að vera rosadugleg að tala við vinina á Íslandi (kannski einum of) og mamma sendir mér skilaboð á hverjum degi. Er svo þakklát fyrir að eiga fjölskyldu og vini sem elska mig og sakna mín og bara að geta talað íslensku á facebook og skype er ómetanlegt! Netið er bara algjör blessun, að ímynda sér að fá í mesta lagi eitt bréf á mánuði frá vinum og fjölskyldu er rosalegt! En þannig var það samt fyrir skiptinema og það er alls ekki langt síðan.
Ég verð líka að segja hvað ég er ótrúlega heppin að hafa fengið svona æðislega fjölskyldu en þónokkrir skiptinemar sem ég kannast við hafa þurft að skipta um fjölskyldu af góðum og gildum ástæðum en ég get í alvörunni ekki ímyndað mér betri fósturfjölskyldu og mig langar bara að deila með öllum hvað fólkið hérna er æðislegt! Samt held ég að allir geti fundið eitthvað gott við skiptinemaárið sitt. Fyndið að á einstaka augnablikum rennur upp fyrir mér allur sannleikurinn, á þessu augnabliki er ég að upplifa eitthvað einstakt í allt öðru landi í annarri heimsálfu. Sama hvað gerist og þó að ég muni ganga í gegnum erfiðleika verður þetta alltaf einstök og ómetanleg reynsla og ég mun aldrei taka því sem gefnu og ég bara trúi ekki hvað ég á yndislega foreldra á Íslandi að leyfa mér þetta, eins mikill hænuhaus og ég er!
Núna förum við Paula hvern mánudag til Carabayllo til að hjálpa enskukennurunum að kenna litlum krökkum ensku. Málið er semsagt að ég og Paula erum í skóla sem heitir Inca Garcilaso De La Vega (við segjum samt alltaf bara Garcilaso). Við erum í skólanum í Pro Lima en svo er annar skóli staðsettur í Carabayllo (sem er eins og annað svæði, erfitt að útskýra, ætli þetta sé ekki eins og Reykjavík og Kópavogur, hahaha). Allavega, krakkarnir eru svo miklar rúsínur og ég trúi því ekki hvað þeir líta upp til okkar! Eftir skóla einn daginn hrúguðust krakkar í kringum okkur til að biðja um eiginhandaráritunina okkar! Sumir þeirra hafa gefið okkur kex, einhverjir smá pening og ein stelpa keypti súkkulaði handa okkur, hversu sætt!? Mér finnst líka æðislegt að skólinn treysti okkur í þetta verkefni og líti svo á að við séum nógu góðar til að kenna litlum krökkum ensku! Og þetta er svo gaman og gefandi og í raun er þetta æfing í spænsku fyrir mig, hahaha! :D
Um daginn bakaði ég pönnukökur með Paulu og Leo og af einhverjum ástæðum var ég svo taugatrekkt eitthvað, ekkert mátti fara út fyrir eða neitt en samt var þetta rosagaman. Og það er ekkert smá hvað strákar hérna eru barngóðir, Leo leyfði Brendu alveg að vera með og sagði að hún mætti hræra í deiginu og bara...hahaha, ég hef ekki svona mikla þolinmæði fyrir krökkum, ef ég á að vera hreinskilin. Brenda er samt snillingur, hún er eins og mamma nr. 2, fórum á markaðinn í gær en áður en við fórum lá dagbókin mín og annað dót á stofuborðinu og Violeta sagði að við ættum bara að drífa okkur og þá sagði Brenda: "en Jóna, fyrst skaltu taka saman dótið þitt". Hahaha, hún er svo mikil dúlla og minnir mig svo á Valdísi stundum, enda báðar bústnar skellibjöllur. Um síðustu helgi fór fram keppni milli Garcilaso-skólanna tveggja. Auðvitað var þetta danskeppni, og við í fimmta bekk unnum! Fimmti bekkurinn er semsagt elsti bekkurinn. Það var svo gaman að horfa á bekkjarfélaga mína því atriðið var svo æðislegt! Byrjaði þannig að strákarnir voru að leika fulla menn, hálfgerða kúreka og svo komu tvö naut á sviðið, leikin af fjôrum bekkjarfélögum mínum, hahahahaha, það var svo fyndið! Þau áttu sigurinn svo skilið, búin að dansa alla daga í skólanum a.m.k. frá því að ég kom hingað. Svo þegar við unnum var svo mikil samkennd og bekkjarsystkini mín sögðu mér og Paulu að fara upp á svið og ég faðmaði alla og var ekkert smá ánægð! Svo fengu allir dansararnir medalíu og Leo gaf mér sína, svo mikið krútt. Gaman að eiga eitthvað til minningar um folklor-ið hérna en það er svo flottur dans, þjóðardansinn hérna held ég, og menningin hérna er svo rík!
Fór líka með Paulu og Andreu í Mega Plaza sem er verslunarmiðstöð síðasta mánudag. Gleymdi algjörlega að minnast á Andreu seinast, ég vissi að ég hefði gleymt að minnast á einhvern! En sko, vá, hvar á ég að byrja með Andreu?! Hún er líklega hógværasta manneskja sem ég þekki en samt ótrúlega gáfuð og svo falleg! Og allt sem hún gerir er í hófi, hún talar ekki of hátt, er aldrei æst og t.d. fórum við á Starbucks og ég og Paula fengum okkur stærsta glasið en Andrea fékk sér millistærð, eins og ég segi, allt í hófi hjá henni. ;) Hún er bara svo æðisleg og er mjög sérstök fyrir mér, hún er ólík öllum hinum krökkunum og minnir mig oft meira á Evrópubúa en Perúbúa, enda talar hún líka ensku, snillingurinn! Var samt rosasvekkt með fyrstu Starbucks-ferðina mína því ég var svo rosalega kvefuð að ég fann ekkert bragð! :(
Þá fer ég að koma að því síðasta í færslunni minni. Ég er búin að vera mjög veik síðustu daga, byrjaði sem kvef á mánudegi og í skólanum á miðvikudeginum var ég líka komin með hausverk. Var svo að horfa á mynd um kvöldið og ég skammast mín bara ekki neitt fyrir það að ég byrjaði að tárast af sársauka og innan skamms var ég farin að hágráta. Hef aldrei verið svona illt í hausnum áður. Var búin að fara til læknis og fá lyf við þessu öllu en hélt ég þyrfti að taka hausverkjatöflurnar daginn eftir svo ég geymdi þær. Svo aðfaranótt fimmtudags ældi ég, ennþá með brjálaðan hausverk og ég man hreinlega ekki eftir því hvenær mér leið svona illa seinast. Og þá kem ég inn á eitt sem ég vil að allir sem lesi taki til sín, sama hversu skringilega það kann að hljóma. Nú mun ég aldrei, aldrei, aldrei aftur vanmeta þau forréttindi að vera veik í mínu eigin landi, það er að segja Íslandi. Hér má ekki drekka gos, borða nammi, ís né ávexti þegar maður er veikur. Á Íslandi líður mér alltaf best með að drekka gos eða borða ferska ávexti þegar ég er með ælupest en hér mátti ég það alls ekki því ég var LÍKA með hósta og kvef og allir hér trúa því statt og stöðugt að það fari rosalega illa í mann þegar maður er veikur að drekka gos eða borða nammi. Ég held að sumir hafi meira að segja haldið að ég hafi orðið svona veik því ég drakk gos eða borðaði ís einhverjum dögum áður. En ég er líka rosalega þakklát frænku minni hérna úti, henni Vicky, sem fór með mig til læknis og mömmu minni og bara öllum fyrir að sjá svona vel um mig þegar ég var veik. Lyfin sem ég fékk gerðu kraftaverk og núna er ég eins og ný. Nú er ég líka búin að læra að kyngja stoltinu aðeins, hugsaði fyrst: "nei, ég þarf engar pillur við einhverju kvefi, ég er Íslendingur, eins og ég sé ekki vön hósta og nefrennsli?!" En maður verður líka að hugsa vel um sjálfan sig og Perúbúar vita alveg hvað þeir eru að segja, hérna er miklu rakara og þess vegna er ég búin að vera mikið veik hérna en ég hélt bara að af því að það væri hlýtt úti að ég yrði ekkert veik!
Já, svona er þetta, datt í hug að skrifa þetta blogg og reyna að sprauta inn smá extra jákvæðni, eitthvað sem allir hafa gott af held ég bara. Maritza vinkona mín á hrós skilið en ég fékk hugmyndina að blogginu þegar ég var að tala við hana um þakklæti. Og elskurnar mínar, fæ stundum fréttir að heiman um hvað Ísland er lítið og kalt og ömurlegt en í alvörunni, við höfum það svo gott á Íslandi! Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég sakna þess stundum að drekka vatn beint úr krananum og um daginn sá ég sólina í fyrsta skipti hérna í Lima og í fullri alvöru, ég hélt fyrst að sólin væri tunglið því sólin sést aldrei á himninum í Lima. Svo næst þegar þið sjáið trén, grasið, nokkuð hreinar götur, andið að ykkur fersku lofti og horfið upp í bláan himininnn skuluð þið stoppa eitt augnablik og þakka fyrir lífið.
miðvikudagur, 9. október 2013
Vinir og matur
Veit ekki alveg hvað ég á að skrifa um, langar svona mest að tala um vini mína og matinn hérna, hahaha! Ætla bara að láta skapið ráða.
Jæja, um daginn (21. september) fór ég í aðra quinceañera-veislu. Ég keypti afmælisgjöf með Paulu og í leiðinni keypti ég líka jarðarber á markaðinum. Það er svo sem ekkert merkilegt en það kemur mér ennþá á óvart hvað allt er ódýrt hérna en ég keypti kíló af jarðarberjum á tvö soles. Fyrir þá sem ekki vita eru það u.þ.b. 90 kr.
Allavega, svo fór ég í veisluna sem var mjög skemmtilegt og auðvitað var ég heillengi að hafa mig til eins og vanalega. ;) Allar stelpurnar og strákarnir voru svo fín og afmælisprinsessan auðvitað líka, hún Miriam. Svo var dansað og spjallað og þetta var mjög gott kvöld. Hafði líka farið sama dag í afmæli í Carabayllo og þar hitti ég Simon (skiptinemi) og Antoniu (sjálfboðaliði).
Svo er ég búin að eignast nokkra vini í skólanum. Fyrsti sem ég ætla að nefna er Rodrigo eða "Rorro". Hann er gjörsamlega yndislegur og svo mikil dúlla og við heilsumst alltaf með handabandinu sem við bjuggum til í einhverju flippi. Svo knúsar hann mig alltaf ógeðslega fast og ég dýrka það því eins og flestir vita er ég algjört knúsudýr. Svo er Alonso, sem er alltaf svo brosmildur (og með fullkomið bros) og hann byrjaði að segja: "Djo-djo-djo-djona" við mig (en flestir hérna bera nafnið mitt fram sem Djóna) og eftir það eru þó nokkrir sem kalla mig það ennþá sem er rosaskemmtilegt. Jose Miguel er líklega rólegastur og kannski smá dulur, en mjög fyndinn og skemmtilegur. Svo eru þeir Jason og Leonardo. Jason er alveg frábær, mjög hress, skemmtilegur og fyndinn. Leonardo er mesta yndi sem ég veit um, svona manneskja sem öllum líkar vel við því hann er svo næs við alla. Brando er snillingur og ég lá í kasti um daginn þegar hann var að segja íslensk orð um daginn. Hann sagði m.a. setningar eins og: "Can you give me your peningar?", "are you a milljónamæringur?" og "do you want to stinga someone?". José Maria er alltaf brosandi en er líka mjög rólegur og þægilegt að spjalla við hann. Eduardo er algjör skellibjalla, þvílík dúlla og elskar k-pop (popptónlist frá Kóreu). Hann er svo einstakur og óhræddur við að vera hann sjálfur og hann er líka góður dansari. Ókei...þeir eru allir sjúklega góðir dansarar, meira að segja ég, diskódívan sjálf, öfunda þá af þessum mjaðmahreyfingum! Ég vona að ég sé ekki að gleyma neinum...allavega, allir strákarnir eru SVO YNDISLEGIR! Í alvörunni, íslenskir strákar verða að herða sig því flestir strákanna hérna kunna að dansa og sumir þeirra kunna á 4 hljóðfæri! Auk þess eru þeir ljúfustu og rómantískustu strákar sem ég hitt! Veit ekki hvort ég var búin að segja frá því en það eru nokkur pör hérna og bara hvernig strákarnir tala um kærusturnar sínar...þeir gefa sko ekkert eftir í hrósum og ástarjátningum. ;)
Svo eru auðvitað stelpurnar. Mirian er algjör engill, svo gjafmild og hjartahlý. Svo er Nicolle, sem gaf mér hringinn sinn og er svo yndisleg og brosmild. Gianella og Yaninna eru svo algjörar bombur (sérstaklega á dansgólfinu) og eru rosahressar og skemmtilegar. Mercy er algjörlega einstök, alveg rosalega hreinskilin og mjög fyndin. Maria Gracia og Mafer (Maria Fernanda) eru yndislegar, mjög jarðbundnar og rólegar og Aileen, Karen og Lucy eru mestu krúslur í heimi! Svo þarf líka að minnast á það að þær eru allar gullfallegar! Kannski minntist ég ekki á alla en bara...allir krakkarnir í skólanum eru svo meiriháttar og koma svo vel fram við mig!
Hérna hef ég líka komist á lagið með að drekka te sem ég gerði aldrei á Íslandi. Finnst það betra en bara venjulegt vatn hérna (dekurrófan saknar ísskápsins með klakavélinni). Svo eru bestu mangó í heimi hérna, held ég myndi hreinlega velja þau fram yfir súkkulaði og ég er mesta súkkulaðisvín sem ég veit um! En svo eru líka fullt af góðum kexum og nammi og ég og Paula erum að reyna að passa að missa okkur ekki í nammiátinu, það er svo margt gott hérna og auðvitað mjög ódýrt líka! Svo er hægt að fá jógúrt líka og ótrúlega krúttlega litla banana sem ég er mjög hrifin af og tek oft í nesti.
Uppáhaldsmaturinn minn hérna er m.a. grænt pasta og kjúklingur, túnfiskspasta, chaufa (hrísgrjónaréttur), tortilla (sem þýðir eggjakaka og ER eggjakaka, ekki hveitikaka eins og það sem við þekkjum á Íslandi) og svo er líka rosagóður brokkolíréttur sem ég held mikið upp á. Perúbúar eru rosalega duglegir að nota grænmeti í réttina sína sem er alveg frábært (og vegur vonandi smá á móti namminu sem ég borða, hahaha!) Okkur Paulu finnst picarones mjög gott en það er steikt deig með klístruðum kanilsykurlegi, alveg ógeðslega óhollt auðvitað! Churros er líka best í heimi, steikt deig með karmellufyllingu og alfajor er líka gott, tvær kexkökur, mjög lausar í sér, með karmellu á milli. Svo er ein snilld hérna, svona sæt, klístruð mjólk, geðveikt gott með jarðarberjum eða pönnukökum (sem ég gerði einmitt um daginn með Brendu, systur minni).
Jamm, svo er ég bara búin að vera í kósýheitum og ég horfi stundum á myndir með Paulu og við spjöllum mikið saman, frábært að búa í sama húsi og besta vinkona manns hérna!
Það var nú ekki mikið merkilegt í þessu bloggi en það var nú kannski meira til að láta ykkur vita að ég hef það alveg rosalega gott hérna!
Skrifa meira síðar! :D
föstudagur, 27. september 2013
La selva!
Jæja, orđiđ allt of langt síđan ég skrifađi síđast svo nú kemur allsherjarritgerđ!
Ég ætla eingöngu ađ helga tetta blogg ferđ minni í frumskóginn eđa "la selva" og svo ætla ég ađ koma međ annađ blogg bráđlega um hina dagana.
Ég byrjađi daginn á tví ađ fara í skólann en turfti bara ađ vera til 12 tví ég og teir sem voru ađ fara í ferđina turftu ađ gera sig til fyrir ferđina. Ég pakkađi öllu sem ég hélt ég tyrfti en hér koma tveir listar, annar međ tví sem ég tók međ sem reyndist gjörsamlega ótarft og sá seinni međ mikilvægum hlutum sem kjáninn ég gleymdi.
Ótarfir hlutir:
1. 4 pör af skóm - tók háhælaskó, ítróttaskó, strigaskó og létta "smeygjuskó". Notađi hælaskóna einu sinni, strigaskóna tegar ég kom og tegar ég fór heim en annars alltaf smeygjuskóna.
2. ALLT málningardótiđ mitt - málađi mig einu sinni!
3. ALLT snyrtidótiđ mitt - tar međ taliđ spritt, blautturrkur, ilmvatn, bómull og margt, margt fleira sem ég man ekki einu sinni tađ reyndist mér svo ótarft...
4. Skartgripir - veit ekki hvad ég var ađ hugsa međ tetta, held ég hafi ætlađ ađ nota ef viđ tyrftum ađ vera fín og svo tegar tækifæriđ til ađ vera fín gafst var ég of hrædd um ađ tyna teim svo ég notađi skartgripina ALDREI, hahaha!
5. Fín föt - tók ađeins of mikiđ af teim, tvö pils, háhælađa skó og einn kjól sem tjónuđu svo ađallega teim tilgangi ađ taka pláss í töskunni minni.
Nauđsynlegir hlutir:
1. Góđar töskur - átti ekki nema eina almennilega tösku og einn bakpoka og ég tók svo mikiđ drasl ađ restin fór bara í stóran poka. Svo rifnuđu höldurnar auđvitađ af honum og tetta var bara vesen.
2. Sandalar - einhverjir hneyksluđust á okkur Paulu fyrir ađ vera ekki međ sandala en tví miđur áttum viđ enga, teir hefđu oft komiđ ađ góđum notum.
3. Moskítósprey - tađ er yndislegt ađ eiga ekki moskítófælu eđa hitt tó heldur en ég verđ ađ takka samnemendum mínum fyrir ađ deila teirra fælum međ okkur Paulu! Hefđi samt líklega notađ meira ef ég hefđi átt sprey sjálf, enda eru lappirnar á mér eins og ég sé međ húđsjúkdóm!
4. Handklæđi - já, elskurnar mínar, í öllum hamagangnum viđ ađ finna magpillur, snyrtidót og fullt af öđrum ótörfum hlutum gleymdi ég handklæđi! En ađ sjálfsögđu bjargađi skólafélagi minn mér međ tađ og lánađi mér sitt aukahandklæđi alla ferđina, hversu yndislegur?!
5. Sundbolur - tađ hefđi veriđ tægilegra ađ hafa sundbol heldur en bikiníiđ mitt en toppurinn færist stöđugt á tví...ekki mjög tægilegt tegar mađur er ađ keppa í skriđsundi eđa hoppa af 3 metra hárri brú ofan í vatn, bikiníiđ mun ekki haldast á sínum stađ, hahaha!
6. Peningar - eitthvad klikkadi og ég komst ekki í bankann svo ég hafdi einungis 30 soles med mér, medan sumir tóku 100 eda jafnvel 200 soles med í ferdina.
En jæja, hoppuđum upp í rútu og viđ tók 8 tíma ferđ en tađ var allt í lagi, sat viđ hliđina á Paulu og fullt af skemmtilegum krökkum í kringum okkur svo mér leiddist ekkert, svo svaf ég auđvitađ líka. :)
Dagur 1:
Svo um 8-leytiđ komum viđ á hóteliđ sem var geđveikt flott, stór sundlaug, pálmatré og tægileg og krúttleg herbergi. Ég hélt samt ađ tađ væru alltaf sápur og klósettpappír á hótelum en tađ voru engar sápur og ég veit ekki alveg hvort fólk hafi komiđ međ klósettpappír eđa hvađ en tarna var hann allavega svo ég turfti ekki ad hafa áhyggjur en hann var samt örlítiđ af skornum skammti.
Bordudum morgunmat sem samanstód af steiktum banana (mun betra en tad hljómar), eggi og braudi og sídan var haldid upp í rútu. Stoppudum svo og skodudum rosafalleg fjoll, alveg ótrúlega flott útsýni! Smá gongutúr tók sídan vid og vid komum ad rosalega fallegum fossi (eda catarata á spaensku sem mér finnst alveg ótrúlega flott ord, eins og tad lýsi hljódinu sem fossar gera, haha!) og fengum ad fara út í vatnid. Tarna voru rosaleg a stó rar flugur og fullt af moskítóflugum audvitad. Fórum ad einhverjum stad med ótrúlega krúttlegum litlum opum og tarna var líka anakonda sem ég vard ad prófa ad halda á! Borgadi 3 soles fyrir tad og gaeti ekki verid sáttari med mig, núna get ég strikad tad út af listanum mínum! ;)
Naest var ferdinni heitid til aettbálks sem heitir víst Pampamichi. Tar klaeddum vid okkur í appelsínugula kirtla og fengum hálfgerda borda til ad setja yfir okkur og strákarnir fengu einhvers konar hofudfot og stelpurnar ennisband med tveimur áfostum fjodrum sem stódu upp í loftid (getid séd hvernig tetta var á fésbókinni minni ;) ) Svo voru allir máladir í framan med appelsínugulri málningu, nokkur strik á kinnarnar eda eitt á hvora kinn og eitt á hokuna (ég fékk tannig). Sídan fengum vid ad sjá hvernig brúdkaup faeri fram hjá aettbálknum, ef ég skyldi tetta rétt. Eftir tad donsudum vid í kringum vardeld og svo stódum vid oll í hring og madurinn sem virtist vera yfir aettbálknum dró sumar stelpur og lét taer dansa med sér. Audvitad var ég dregin en tad turfti audvitad ekki ad sannfaera mig neitt, ég reyndi bara ad herma eftir og tad voru alveg einhverjir skólafélagar mínir sem hrósudu mér og kloppudu og hrópudu medan á dansinum stód ef mig minnir rétt (tad hefur orugglega komid teim á óvart ad hvíta stelpan gaeti dansad eitthvad, hahaha!). Ég keypti mér svo saett armband hjá aettbálknum en tau voru ad selja allskonar toskur, armbond, hálsmen og draumafangara og ég veit ekki hvad og hvad.
Eftir tad bordudum vid svínakjot, juga (rót sem er pínu eins og kartafla), hrísgrjón og mjog gódan safa af ávexti sem heitir cocona. Fórum aftur á hótelid og ég keppti vid nokkra af strákunum í sundkeppni og kofunarkeppni. Var frekar slok í sundinu en vann alltaf í kofunarkeppninni, hahaha! Hérna er ekki sjálfsagt ad kunna ad synda og ég held tad hafi verid um tad bil helmingurinn af bekknum sem kunni ad synda. Í kvoldmat fengum vid kjúkling, hrísgrjón og eitthvad eins og kartoflugratín. Ég og Paula sváfum med skólasálfraedingnum og mommu skólasystur okkar í herbergi, svo vid fórum frekar snemma ad sofa, um 11-12 leytid ólíkt morgum strákunum sem sogdu mér ad teir hefdu farid ad sofa um 3-leytid!
Dagur 2:
Skodudum fullt af fjollum og sáum svo mikid af fallegum fidrildum! Reyndi ad taka myndir af teim en tau flogrudu allt of hratt um! Sídan fórum vid í báta og fengum ad hoppa út í vatnid og synda. Svo tyrfti ad lyfta mér upp í bátinn og ég er audvitad hvorki horud né smábeinótt. Ég vildi helst bara fá ad synda í land til ad forda mér frá skomminni! En svo hjálpadi vinkona mín mér hún Mercy mér upp og tveir strákar fóru í vatnid og lyftu mér upp. Klaufinn ég datt ofan á Mercy og tetta var bara algjort Bridget Jones-augnablik eins og ég vissi ad tad myndi verda. Endadi svo med marblett á upphandleggnum og tvo staerdarinnar marbletti á vinstra laeri eftir hamaganginn. Um kvoldid fórum vid á diskótek og vid stelpurnar gerdum okkur til saman. Ég var audvitad heillengi ad ákveda mig og hafdi ekki tekid fot sem possudu nogu vel saman svo ég endadi á ad vera í raudu pilsi vid gula og svarta skó en tad gerdi ekkert til. Strákarnir voru duglegir ad kenna mér og Paulu salsa og díos míos hvad allir eru gódir dansarar! Allar stelpurnar dilludu sér eins og dansgydjur og strákarnir voru alveg med sporin á hreinu líka! Mercy og Rodrigo vinur minn donsudu salsa saman og ég var bara ofundsjuk, tau voru svo flott! Ég gat ekki laert mikid meira en hlidar-saman-hlidar tetta kvold, hahaha! En Leonardo, strákurinn sem var ad kenna mér sagdi ad ég vaeri gódur dansari, svo ég var bara sátt med mig. Fórum líka í hring og mér var fleygt inn í hringinn og ég dansadi af mér rassinn tar. Tad var samt frekar sérstakt ad vid vorum eiginlega tau einu sem voru tarna, semsagt krakkarnir í ferdinni, tad var eiginlega ekkert annad fólk á skemmtistadnum. Sídan eyddum vid Paula kvoldinu med Gianella, Yaninna, Nicolle og Mirella og taer eru svo flippadar og skemmtilegar! Aetludum ad gista med teim en fórum svo aftur í okkar herbergi tví tad var eiginlega of lítid pláss.
Dagur 3:
Bordudum morgunmat, semsagt braud, boozt, einhverskonar tunnt buff og avocado sem heitir víst palta hérna. Svo í rútunni spjalladi ég smá vid Paulu, Jason, Leonardo og José María, allt ótrúlega yndislegir strákar! En ég var líka treytt svo ég hvíldi mig líka. Fyrst fórum vid ad stórum krossi, veit ekki soguna bak vid hann en hann var hvítur og mjog stór og stód á haed med rosaflottu útsýni. Sídan komum vid ad fallegum fossi en ég fór ekki út í vatnid tví ég gleymdi sundfotum. Tar á eftir fór ég í "Jardín de mariposas" eda fidrildagardinn. Tar fengum vid ad sjá lirfur og fidrildi í ollum regnbogans litum. Sá t.d. svona appelsínugul og svort fidrildi og líka mjog stór, blá og glansandi fidrildi, svona á staerd vid litla fugla! Síđan skođuđum viđ fullt af dyrum, tar á međal krókódíla og dyrin sem éta kaffibaunir, skíta teim svo og svo eru tær seldar rándyrt í Frakklandi eđa einhversstađar.
Dagur 4:
Morgunmaturinn var eggjakaka, brauđ og boozt og svo fórum viđ til Oxapampa sem er einhver hluti af frumskóginum byst ég viđ. Skođuđum fjöll og fórum á stađ međ rólum og róluđum smá. Svo fórum viđ í ostaverksmiđju og ég keypti ost handa fjölskyldunni. Fórum ađ vatni međ hengibrú yfir og ég var fyrsta stelpan til ađ stökkva af brúnni og var rosastolt af mér, hahaha! Stökk samt bara einu sinni tví bikiníiđ mitt hélst ekki á sínum stađ, hahaha! Held samt ađ ég hafi náđ ađ laga tađ í vatninu áđur en ég fór upp úr. Borđuđum svo á einhverjum veitingastađ og fengum ólseigt kjót, varla hægt ađ borđa tađ! En svo var allt hitt rosagott sem var međ tvï, hrísgrjón, kartöflur og grænmeti. Fórum líka ađ helli sem var mjög flottur. Smakkađi líka ís međ lucuma-bragđi sem er ávöxtur í frumskóginum, ótrúlega góđur, minnti mig pínu á döđlur, mjög ríkt og sætt bragđ.
Dagur 5:
Jæja, síđasti dagurinn gekk í garđ og viđ borđuđum frekar skrítinn morgunmat, eitthvađ mjöl- eđa kartöfludót međ kjúklingi í miđjunni, brauđ og boozt. Svo fórum viđ á stígvélaleigu og leigđum stígvél tví viđ vorum ađ fara ađ labba upp á eitthvađ fjall og í eitthvađ vatn. Fórum yfir brú og svo turftum viđ ađ labba langa leiđ uppi á fjallinu og tađ var alveg ógeđslega heitt. Auđvitađ gleymdi ég sólarvörninni tann daginn svo ég brann smá á öxlunum en samt slapp ég frekar vel enda hafđi ég veriđ dugleg ađ bera á á mig sólarvörn međ 90 Í STYRK alla dagana (Paula gerđi ógeđslega mikiđ grín af mér fyrir og í ferđinni fyrir tađ). Komum svo ađ vatni og Leonardo var svo yndislegur ađ hjálpa mér alla leiđina tví ég er svoddan klunni. Klifruđum líka upp smá "klett" sem var í vatninu og turftum ađ nota kađal til tess. Var svona 2-3 metrar sem vid forum upp, Svo seinna var haegt ad klifra upp annan klett eđa taka stiga og ég ákvađ ađ taka stigann tví seinni kletturinn virtist hættulegri. Enduđum hjá litlum fossi eftir nokkurra klukkutíma göngu og flestir fóru í vatniđ og ég fór undir fossinn viđ mikil fagnađarlæti samnemenda minna. Vorum svo öll ađ skvetta vatni á hvert annađ og tetta var bara geđveikt gaman. Fórum svo til baka og ég var enn međ fullt af vatni í stígvélunum mínum. Svo var svo ógeđslega heitt ađ vatniđ varđ sjóđheittsvo mér leiđ eins og ég væri međ tvo litla heitapotta í stígvélunum. Eftir gönguna borđuđum viđ geđveikt gott og mjög tunnt kjöt, steikt juga (eins og franskar kartöflur), salat, hrísgrjón og safa. Talađi smá viđ skólafélaga mína, tau Jose Miguel, Frank eđa Chino eins og hann er kallađur, Dantya og Angie og tau báđu mig um ađ syngja svo ég söng fyrir tau, fyrst á ensku og svo á íslensku. Eftir matinn kom hellidemba og viđ stukkum öll út í rigninguna og tađ var enginn vindur, bara nánast volg rigning! Tetta var geđveikt og alveg svona "kvikmyndaaugnablik". Fórum svo á hóteliđ og allir hoppuđu út í laug í öllum fötunum og tađ var svo mikil samkennd og vinátta hjá öllum hópnum. Borđuđum svo kvöldmat minnir mig og fórum svo upp í rútu. Fórum svo út hjá umferđamiđstöđ til ađ bíđa eftir stóru tveggja hæđa rútunni sem átti ađ fara međ okkur til Lima. Vinkona mín, Nicolle, settist hjá mér og ég sagđi henni ađ setjast ofan á mig sem hún gerđi eftir smá træting. Viđ vorum búnar ađ vera mjög hlylegar viđ hvor ađra í ferđinni og ég sagđi henni á (örugglega mjög bjagađri) spænsku ađ hún væri falleg og góđ manneskja. Svo bađ ég Mercy vinkonu mína ađ tyđa smá fyrir mig sem ég vildi segja henni tví Mercy talar ensku reiprennandi. Eftir tađ tók Nicolle fallegan hring af sér og setti hann á mig. Svo sagđi hún ađ hann væri fyrir mig og ađ ég væri orđin mjög sérstök manneskja fyrir henni. Ég fađmađi hana og fékk tár í augun, tetta var svo sætt af henni! Svo tegar viđ biđum í röđinni fyrir utan rútuna ætla ég bara ađ vera alveg hreinskilin og segja ađ ég fór ađ gráta smá tví ég vildi ekki ađ ferđin myndi enda og mér tótti svo ótrúlega vænt um tá vini sem ég hafđi eignast í ferđinni! Svo tetta var svona blanda af hamingjutárum og saknađartárum. En ég var fljót ađ jafna mig. Svo fórum viđ upp í rútu og svaf mestallan tímann.
Tetta var algjörlega besta ferđ lífs míns og ég er svo ótrúlega takklát fyrir ađ fá ađ vera hérna í Perú og fá ađ kynnast öllu tví yndislega fólki sem ég hef kynnst. Langar líka ađ takka bekkjarfélögum mínum fyrir endalausa tolinmæđi og ađ reyna alltaf ađ tala viđ mig tó ég skilji svona litla spænsku. Í ferđinni eignađist ég vini sem ég veit ađ ég get talađ viđ í skólanum og sem ég knúsa á hverjum degi!!! Ég fékk alltaf ađ vera međ og fékk alltaf ađ vita hvađ var í gangi, tó ađ tau hafi ekki haft neina ástæđu til ađ tala viđ mig eđa leyfa mér ađ vera međ gerđu tau tađ samt tví tau eru öll svo yndisleg og hjartahly!
P.S. Veit ađ tađ eru margar stafsetningarvillur hjá mér en er ađ skrifa á ipad og get ekki séđ tađ sem ég skrifa af einhverjum ástæđum, bloggiđ skrollast ekki niđur tó ég haldi áfram ađ skrifa. :/
Ég ætla eingöngu ađ helga tetta blogg ferđ minni í frumskóginn eđa "la selva" og svo ætla ég ađ koma međ annađ blogg bráđlega um hina dagana.
Ég byrjađi daginn á tví ađ fara í skólann en turfti bara ađ vera til 12 tví ég og teir sem voru ađ fara í ferđina turftu ađ gera sig til fyrir ferđina. Ég pakkađi öllu sem ég hélt ég tyrfti en hér koma tveir listar, annar međ tví sem ég tók međ sem reyndist gjörsamlega ótarft og sá seinni međ mikilvægum hlutum sem kjáninn ég gleymdi.
Ótarfir hlutir:
1. 4 pör af skóm - tók háhælaskó, ítróttaskó, strigaskó og létta "smeygjuskó". Notađi hælaskóna einu sinni, strigaskóna tegar ég kom og tegar ég fór heim en annars alltaf smeygjuskóna.
2. ALLT málningardótiđ mitt - málađi mig einu sinni!
3. ALLT snyrtidótiđ mitt - tar međ taliđ spritt, blautturrkur, ilmvatn, bómull og margt, margt fleira sem ég man ekki einu sinni tađ reyndist mér svo ótarft...
4. Skartgripir - veit ekki hvad ég var ađ hugsa međ tetta, held ég hafi ætlađ ađ nota ef viđ tyrftum ađ vera fín og svo tegar tækifæriđ til ađ vera fín gafst var ég of hrædd um ađ tyna teim svo ég notađi skartgripina ALDREI, hahaha!
5. Fín föt - tók ađeins of mikiđ af teim, tvö pils, háhælađa skó og einn kjól sem tjónuđu svo ađallega teim tilgangi ađ taka pláss í töskunni minni.
Nauđsynlegir hlutir:
1. Góđar töskur - átti ekki nema eina almennilega tösku og einn bakpoka og ég tók svo mikiđ drasl ađ restin fór bara í stóran poka. Svo rifnuđu höldurnar auđvitađ af honum og tetta var bara vesen.
2. Sandalar - einhverjir hneyksluđust á okkur Paulu fyrir ađ vera ekki međ sandala en tví miđur áttum viđ enga, teir hefđu oft komiđ ađ góđum notum.
3. Moskítósprey - tađ er yndislegt ađ eiga ekki moskítófælu eđa hitt tó heldur en ég verđ ađ takka samnemendum mínum fyrir ađ deila teirra fælum međ okkur Paulu! Hefđi samt líklega notađ meira ef ég hefđi átt sprey sjálf, enda eru lappirnar á mér eins og ég sé međ húđsjúkdóm!
4. Handklæđi - já, elskurnar mínar, í öllum hamagangnum viđ ađ finna magpillur, snyrtidót og fullt af öđrum ótörfum hlutum gleymdi ég handklæđi! En ađ sjálfsögđu bjargađi skólafélagi minn mér međ tađ og lánađi mér sitt aukahandklæđi alla ferđina, hversu yndislegur?!
5. Sundbolur - tađ hefđi veriđ tægilegra ađ hafa sundbol heldur en bikiníiđ mitt en toppurinn færist stöđugt á tví...ekki mjög tægilegt tegar mađur er ađ keppa í skriđsundi eđa hoppa af 3 metra hárri brú ofan í vatn, bikiníiđ mun ekki haldast á sínum stađ, hahaha!
6. Peningar - eitthvad klikkadi og ég komst ekki í bankann svo ég hafdi einungis 30 soles med mér, medan sumir tóku 100 eda jafnvel 200 soles med í ferdina.
En jæja, hoppuđum upp í rútu og viđ tók 8 tíma ferđ en tađ var allt í lagi, sat viđ hliđina á Paulu og fullt af skemmtilegum krökkum í kringum okkur svo mér leiddist ekkert, svo svaf ég auđvitađ líka. :)
Dagur 1:
Svo um 8-leytiđ komum viđ á hóteliđ sem var geđveikt flott, stór sundlaug, pálmatré og tægileg og krúttleg herbergi. Ég hélt samt ađ tađ væru alltaf sápur og klósettpappír á hótelum en tađ voru engar sápur og ég veit ekki alveg hvort fólk hafi komiđ međ klósettpappír eđa hvađ en tarna var hann allavega svo ég turfti ekki ad hafa áhyggjur en hann var samt örlítiđ af skornum skammti.
Bordudum morgunmat sem samanstód af steiktum banana (mun betra en tad hljómar), eggi og braudi og sídan var haldid upp í rútu. Stoppudum svo og skodudum rosafalleg fjoll, alveg ótrúlega flott útsýni! Smá gongutúr tók sídan vid og vid komum ad rosalega fallegum fossi (eda catarata á spaensku sem mér finnst alveg ótrúlega flott ord, eins og tad lýsi hljódinu sem fossar gera, haha!) og fengum ad fara út í vatnid. Tarna voru rosaleg a stó rar flugur og fullt af moskítóflugum audvitad. Fórum ad einhverjum stad med ótrúlega krúttlegum litlum opum og tarna var líka anakonda sem ég vard ad prófa ad halda á! Borgadi 3 soles fyrir tad og gaeti ekki verid sáttari med mig, núna get ég strikad tad út af listanum mínum! ;)
Naest var ferdinni heitid til aettbálks sem heitir víst Pampamichi. Tar klaeddum vid okkur í appelsínugula kirtla og fengum hálfgerda borda til ad setja yfir okkur og strákarnir fengu einhvers konar hofudfot og stelpurnar ennisband med tveimur áfostum fjodrum sem stódu upp í loftid (getid séd hvernig tetta var á fésbókinni minni ;) ) Svo voru allir máladir í framan med appelsínugulri málningu, nokkur strik á kinnarnar eda eitt á hvora kinn og eitt á hokuna (ég fékk tannig). Sídan fengum vid ad sjá hvernig brúdkaup faeri fram hjá aettbálknum, ef ég skyldi tetta rétt. Eftir tad donsudum vid í kringum vardeld og svo stódum vid oll í hring og madurinn sem virtist vera yfir aettbálknum dró sumar stelpur og lét taer dansa med sér. Audvitad var ég dregin en tad turfti audvitad ekki ad sannfaera mig neitt, ég reyndi bara ad herma eftir og tad voru alveg einhverjir skólafélagar mínir sem hrósudu mér og kloppudu og hrópudu medan á dansinum stód ef mig minnir rétt (tad hefur orugglega komid teim á óvart ad hvíta stelpan gaeti dansad eitthvad, hahaha!). Ég keypti mér svo saett armband hjá aettbálknum en tau voru ad selja allskonar toskur, armbond, hálsmen og draumafangara og ég veit ekki hvad og hvad.
Eftir tad bordudum vid svínakjot, juga (rót sem er pínu eins og kartafla), hrísgrjón og mjog gódan safa af ávexti sem heitir cocona. Fórum aftur á hótelid og ég keppti vid nokkra af strákunum í sundkeppni og kofunarkeppni. Var frekar slok í sundinu en vann alltaf í kofunarkeppninni, hahaha! Hérna er ekki sjálfsagt ad kunna ad synda og ég held tad hafi verid um tad bil helmingurinn af bekknum sem kunni ad synda. Í kvoldmat fengum vid kjúkling, hrísgrjón og eitthvad eins og kartoflugratín. Ég og Paula sváfum med skólasálfraedingnum og mommu skólasystur okkar í herbergi, svo vid fórum frekar snemma ad sofa, um 11-12 leytid ólíkt morgum strákunum sem sogdu mér ad teir hefdu farid ad sofa um 3-leytid!
Dagur 2:
Skodudum fullt af fjollum og sáum svo mikid af fallegum fidrildum! Reyndi ad taka myndir af teim en tau flogrudu allt of hratt um! Sídan fórum vid í báta og fengum ad hoppa út í vatnid og synda. Svo tyrfti ad lyfta mér upp í bátinn og ég er audvitad hvorki horud né smábeinótt. Ég vildi helst bara fá ad synda í land til ad forda mér frá skomminni! En svo hjálpadi vinkona mín mér hún Mercy mér upp og tveir strákar fóru í vatnid og lyftu mér upp. Klaufinn ég datt ofan á Mercy og tetta var bara algjort Bridget Jones-augnablik eins og ég vissi ad tad myndi verda. Endadi svo med marblett á upphandleggnum og tvo staerdarinnar marbletti á vinstra laeri eftir hamaganginn. Um kvoldid fórum vid á diskótek og vid stelpurnar gerdum okkur til saman. Ég var audvitad heillengi ad ákveda mig og hafdi ekki tekid fot sem possudu nogu vel saman svo ég endadi á ad vera í raudu pilsi vid gula og svarta skó en tad gerdi ekkert til. Strákarnir voru duglegir ad kenna mér og Paulu salsa og díos míos hvad allir eru gódir dansarar! Allar stelpurnar dilludu sér eins og dansgydjur og strákarnir voru alveg med sporin á hreinu líka! Mercy og Rodrigo vinur minn donsudu salsa saman og ég var bara ofundsjuk, tau voru svo flott! Ég gat ekki laert mikid meira en hlidar-saman-hlidar tetta kvold, hahaha! En Leonardo, strákurinn sem var ad kenna mér sagdi ad ég vaeri gódur dansari, svo ég var bara sátt med mig. Fórum líka í hring og mér var fleygt inn í hringinn og ég dansadi af mér rassinn tar. Tad var samt frekar sérstakt ad vid vorum eiginlega tau einu sem voru tarna, semsagt krakkarnir í ferdinni, tad var eiginlega ekkert annad fólk á skemmtistadnum. Sídan eyddum vid Paula kvoldinu med Gianella, Yaninna, Nicolle og Mirella og taer eru svo flippadar og skemmtilegar! Aetludum ad gista med teim en fórum svo aftur í okkar herbergi tví tad var eiginlega of lítid pláss.
Dagur 3:
Bordudum morgunmat, semsagt braud, boozt, einhverskonar tunnt buff og avocado sem heitir víst palta hérna. Svo í rútunni spjalladi ég smá vid Paulu, Jason, Leonardo og José María, allt ótrúlega yndislegir strákar! En ég var líka treytt svo ég hvíldi mig líka. Fyrst fórum vid ad stórum krossi, veit ekki soguna bak vid hann en hann var hvítur og mjog stór og stód á haed med rosaflottu útsýni. Sídan komum vid ad fallegum fossi en ég fór ekki út í vatnid tví ég gleymdi sundfotum. Tar á eftir fór ég í "Jardín de mariposas" eda fidrildagardinn. Tar fengum vid ad sjá lirfur og fidrildi í ollum regnbogans litum. Sá t.d. svona appelsínugul og svort fidrildi og líka mjog stór, blá og glansandi fidrildi, svona á staerd vid litla fugla! Síđan skođuđum viđ fullt af dyrum, tar á međal krókódíla og dyrin sem éta kaffibaunir, skíta teim svo og svo eru tær seldar rándyrt í Frakklandi eđa einhversstađar.
Dagur 4:
Morgunmaturinn var eggjakaka, brauđ og boozt og svo fórum viđ til Oxapampa sem er einhver hluti af frumskóginum byst ég viđ. Skođuđum fjöll og fórum á stađ međ rólum og róluđum smá. Svo fórum viđ í ostaverksmiđju og ég keypti ost handa fjölskyldunni. Fórum ađ vatni međ hengibrú yfir og ég var fyrsta stelpan til ađ stökkva af brúnni og var rosastolt af mér, hahaha! Stökk samt bara einu sinni tví bikiníiđ mitt hélst ekki á sínum stađ, hahaha! Held samt ađ ég hafi náđ ađ laga tađ í vatninu áđur en ég fór upp úr. Borđuđum svo á einhverjum veitingastađ og fengum ólseigt kjót, varla hægt ađ borđa tađ! En svo var allt hitt rosagott sem var međ tvï, hrísgrjón, kartöflur og grænmeti. Fórum líka ađ helli sem var mjög flottur. Smakkađi líka ís međ lucuma-bragđi sem er ávöxtur í frumskóginum, ótrúlega góđur, minnti mig pínu á döđlur, mjög ríkt og sætt bragđ.
Dagur 5:
Jæja, síđasti dagurinn gekk í garđ og viđ borđuđum frekar skrítinn morgunmat, eitthvađ mjöl- eđa kartöfludót međ kjúklingi í miđjunni, brauđ og boozt. Svo fórum viđ á stígvélaleigu og leigđum stígvél tví viđ vorum ađ fara ađ labba upp á eitthvađ fjall og í eitthvađ vatn. Fórum yfir brú og svo turftum viđ ađ labba langa leiđ uppi á fjallinu og tađ var alveg ógeđslega heitt. Auđvitađ gleymdi ég sólarvörninni tann daginn svo ég brann smá á öxlunum en samt slapp ég frekar vel enda hafđi ég veriđ dugleg ađ bera á á mig sólarvörn međ 90 Í STYRK alla dagana (Paula gerđi ógeđslega mikiđ grín af mér fyrir og í ferđinni fyrir tađ). Komum svo ađ vatni og Leonardo var svo yndislegur ađ hjálpa mér alla leiđina tví ég er svoddan klunni. Klifruđum líka upp smá "klett" sem var í vatninu og turftum ađ nota kađal til tess. Var svona 2-3 metrar sem vid forum upp, Svo seinna var haegt ad klifra upp annan klett eđa taka stiga og ég ákvađ ađ taka stigann tví seinni kletturinn virtist hættulegri. Enduđum hjá litlum fossi eftir nokkurra klukkutíma göngu og flestir fóru í vatniđ og ég fór undir fossinn viđ mikil fagnađarlæti samnemenda minna. Vorum svo öll ađ skvetta vatni á hvert annađ og tetta var bara geđveikt gaman. Fórum svo til baka og ég var enn međ fullt af vatni í stígvélunum mínum. Svo var svo ógeđslega heitt ađ vatniđ varđ sjóđheittsvo mér leiđ eins og ég væri međ tvo litla heitapotta í stígvélunum. Eftir gönguna borđuđum viđ geđveikt gott og mjög tunnt kjöt, steikt juga (eins og franskar kartöflur), salat, hrísgrjón og safa. Talađi smá viđ skólafélaga mína, tau Jose Miguel, Frank eđa Chino eins og hann er kallađur, Dantya og Angie og tau báđu mig um ađ syngja svo ég söng fyrir tau, fyrst á ensku og svo á íslensku. Eftir matinn kom hellidemba og viđ stukkum öll út í rigninguna og tađ var enginn vindur, bara nánast volg rigning! Tetta var geđveikt og alveg svona "kvikmyndaaugnablik". Fórum svo á hóteliđ og allir hoppuđu út í laug í öllum fötunum og tađ var svo mikil samkennd og vinátta hjá öllum hópnum. Borđuđum svo kvöldmat minnir mig og fórum svo upp í rútu. Fórum svo út hjá umferđamiđstöđ til ađ bíđa eftir stóru tveggja hæđa rútunni sem átti ađ fara međ okkur til Lima. Vinkona mín, Nicolle, settist hjá mér og ég sagđi henni ađ setjast ofan á mig sem hún gerđi eftir smá træting. Viđ vorum búnar ađ vera mjög hlylegar viđ hvor ađra í ferđinni og ég sagđi henni á (örugglega mjög bjagađri) spænsku ađ hún væri falleg og góđ manneskja. Svo bađ ég Mercy vinkonu mína ađ tyđa smá fyrir mig sem ég vildi segja henni tví Mercy talar ensku reiprennandi. Eftir tađ tók Nicolle fallegan hring af sér og setti hann á mig. Svo sagđi hún ađ hann væri fyrir mig og ađ ég væri orđin mjög sérstök manneskja fyrir henni. Ég fađmađi hana og fékk tár í augun, tetta var svo sætt af henni! Svo tegar viđ biđum í röđinni fyrir utan rútuna ætla ég bara ađ vera alveg hreinskilin og segja ađ ég fór ađ gráta smá tví ég vildi ekki ađ ferđin myndi enda og mér tótti svo ótrúlega vænt um tá vini sem ég hafđi eignast í ferđinni! Svo tetta var svona blanda af hamingjutárum og saknađartárum. En ég var fljót ađ jafna mig. Svo fórum viđ upp í rútu og svaf mestallan tímann.
Tetta var algjörlega besta ferđ lífs míns og ég er svo ótrúlega takklát fyrir ađ fá ađ vera hérna í Perú og fá ađ kynnast öllu tví yndislega fólki sem ég hef kynnst. Langar líka ađ takka bekkjarfélögum mínum fyrir endalausa tolinmæđi og ađ reyna alltaf ađ tala viđ mig tó ég skilji svona litla spænsku. Í ferđinni eignađist ég vini sem ég veit ađ ég get talađ viđ í skólanum og sem ég knúsa á hverjum degi!!! Ég fékk alltaf ađ vera međ og fékk alltaf ađ vita hvađ var í gangi, tó ađ tau hafi ekki haft neina ástæđu til ađ tala viđ mig eđa leyfa mér ađ vera međ gerđu tau tađ samt tví tau eru öll svo yndisleg og hjartahly!
P.S. Veit ađ tađ eru margar stafsetningarvillur hjá mér en er ađ skrifa á ipad og get ekki séđ tađ sem ég skrifa af einhverjum ástæđum, bloggiđ skrollast ekki niđur tó ég haldi áfram ađ skrifa. :/
sunnudagur, 8. september 2013
Feliz en Perú!
Hvar á ég nú ad byrja? Tad er svo margt skemmtilegt búid ad gerast undanfarid og ég finn hvernig ég er farin ad adlagast og kunna ad meta Perú. Mér finnst t.d. byggingarnar mjog sjarmerandi, flest húsin eru úr múrsteini og myndu engan veginn teljast ásaettanleg á Íslandi en tad er bara eitthvad vid stemmninguna, loftid, fólkid...tad er svo kósý. Ádur en ég fór til Perú fannst mér tad vera hinn fullkomni stadur fyrir mig, gódur matur, fólk er mjog náid, heilsast med kossum, mikid gert úr fjolskyldubodum, mikil skemmtun og morg partý. Tetta kann ég rosalega vel ad meta hérna, tó ég verdi ad passa mig á ad spyrja alltaf hvort ég megi fara út eda hitta vini mína. Hérna er tad alls ekki sjálfsagt og host-mamma mín sagdi mér ad hérna spyrja mommurnar alltaf med hverjum madur er og hvert madur er ad fara og hvenaer madur kemur heim o.s.frv. Reyndar hefur alls ekki verid eins erfitt og ég hélt ad adlagast en ég veit ad ég geng ekki um á sléttum vegi og tad eru steinar og daeldir sem munu tvaelast fyrir mér í tessari dvol. En fátt er óyfirstíganlegt og ég aetla bara ad taka jákvaednina á tetta allt og hvernig get ég annad tegar allt er búid ad vera svona yndislegt hérna?!
Ég er nú samt búin ad vera med orlitla heimtrá, enda allir ad deila myndum á facebook sem tengjast skólanum og busaballid í MH hefdi ég viljad fara á. Svo tegar ég spyr frétta er alltaf eitthvad ad gerast hjá vinum mínum, bústadaferdir, boll og fleira en ég veit ad ég er ad graeda miklu meira á tví ad vera hérna og eins og elsku mamma sagdi: "tad verda 100.000 taekifaeri til ad djamma á Íslandi en bara eitt taekifaeri til ad fara í skiptinám". Svo kem ég bara heim og rek alla vini mína út á lífid med mér! Krakkar, verid vidbúin! ;)
Í gaer og fyrradag upplifdi ég tvo langskemmtilegustu dagana mína í Perú hingad til. Í fyrradag fór ég med Renzo og vinum hans Luiz, Alessandra og Nathaly í bíó og vid fórum á City of bones. Ég beid fyrst eftir vinum Renzo med honum á straetóstoppistodinni og tad var ótrúlega fyndid. Renzo sagdi mér ad allir vaeru ad horfa á mig og tegar ég leit í straetisvagnana var alltaf allavega ein manneskja sem horfdi á eftir mér. Svo voru nokkrir perrakallar, svona 40-50, t.d. einn sem var ad vinna í straetó sem keyrdi framhjá vid ad láta fólk borda og taka mida og svona. Hann stód í "dyragaettinni" á straetónum og tegar ég leit á hann blikkadi hann mig og setti stút á varirnar! Ég er audvitad svo vandraedaleg ad ég fór alltaf bara hlaeja og Renzo hló líka med mér og á endanum skellihlógum vid saman ad tessu og hann sagdi mér ad ég vaeri geimvera. Hér eru líka allir med náttúrulega kolsvart hár svo ég er mjog ljóshaerd fyrir teim trátt fyrir ad vera skolhaerd á Íslandi. Svo fórum vid í straetó og í bíóid. Ég var svo einfold ad gera mér ekki grein fyrir tví ad hún vaeri á spaensku. Svo komst ég audvitad ad tví tegar myndin byrjadi og skildi audvitad rosalega lítid. Var samt ánaegd med mig tegar ég skildi eitthvad, hahaha! Myndin var skemmtileg trátt fyrir lítinn skilning á henni og hún var bara nokkud vel talsett fannst mér, tetta var alls ekki svo kjánalegt! Alessandra er gód í ensku svo ég gat talad vid hana og hún og Renzo týddu fyrir mig tegar ég taladi vid hina. Svo fórum vid og ég keypti gjof fyrir afmaelid sem var daginn eftir og ég kem betur inn á seinna. Fórum í tívolí í tvo taeki sem var ótrúlega skemmtilegt og ég hló svo mikid í taekjunum! Svo tókum vid leigubíl heim og Luiz sagdi ad ég tyrfti ekkert ad borga í honum! Ég er svo ótrúlega takklát Renzo fyrir ad leyfa mér ad vera med honum og vinum sínum og vinir hans eru svo yndislegir vid mig! Tau eru oll í kringum 20 ára en mér finnst ég alveg eiga jafnvel vid tau og krakkana í skólanum mínum. Hahaha, sem minnir mig á...einn strákur hérna hélt ég vaeri 22 ára og tveir strákar hafa haldid ad ég vaeri 24 ára! Mér finnst tad alveg ótrúlegt, en hér er ég hausnum haerri en margar stelpurnar og kannski er ég fullordinsleg í útliti í ollum londum, ég veit tad ekki.
Svo fórum vid heim til okkar Renzo og spjolludum saman og ég song fyrir krakkana, hahaha, tad er ekkert stopp á tví. Ad lokum skreid ég í baelid enda klukkan ordin 4 um nótt. Ég er svo snidug, svo var skóli daginn eftir, aetla nú ekkert ad segja frá tví hvenaer ég maetti, tíhí! En tad var allt í lagi tví tetta voru bara ítrótta,-dans og tónlistartímar og ég gerdi ekki neitt nema fara í bodhlaup.
Daginn eftir, í gaer semsagt, fór ég í skólann eins og ég var rétt í tessu ad segja frá. Um daginn fórum vid svo í fjolskyldumatarbod tví einhver átti afmaeli (skammadist mín hrikalega, vissi ekkert hver átti afmaeli, svo afmaelisbarnid fékk engar kvedjur frá mér). Tar hitti ég Simon sem er skiptinemi frá Sviss og Antoniu sem er sjálfbodalidi frá Týskalandi. Fyndid ad segja frá tví ad vid erum oll "skyld" semsagt ég, Paula, Simon og Antonia líka minnir mig. Ég og Paula erum systkinaborn, t.e.a.s. "mommur" okkar eru systur. Svo er Simon fraendi minn, en foreldrar mommu minnar eru host-foreldrar hans (svo hann er eins og bródir Violetu, trátt fyrir ad vera bara 19 ára, hahaha, vorum ad grínast med tad í gaer ad hann vaeri "uncle" okkar Paulu). Mig minnir ad Antonia sé svo hjá annarri systur Violetu, teirri sem hélt afmaelisbodid. Mér finnst aedislegt ad vid séum oll svona tengd, tá fáum vid taekifaeri til ad vera saman, tad er svo gott ad geta talad vid adra skiptinema.
Svo bordudum vid forrétti og súpu og tad var nú meira! Tad voru heil egg í súpunni, bara sodin í súpunni í skurninni! Vid skiptinemarnir hofdum aldrei vitad annad eins. Svo tegar adalrétturinn kom var ég svo sodd ad ég hafdi enga lyst á svínakjotinu. Ég er nú líka pínu pjattrófa tó tad sé erfitt ad vidurkenna...tarna var semsagt búid ad brytja heilt svín nidur og setja inn í ofn. Svo fékk madur sína sneid med fitu, skinni og nokkrum hárum á skinninu líka! Ég fór inn í eldhús og var tá ekki bara hausinn af svíninu í einni ofnskúffunni, enn med tennur og kannski augu líka, en tau voru lokud sem betur fer. Fór líka á markad um daginn og tad var sama sagan med kjúklingana, teir voru heilir, med klóm og augum og ollu, bara búid ad reyta tá. Svo sá ég "gúí", veit ekkert hvernig tad er skrifad á spaensku. Tad er nagdýr, veit ekki hvort tad sé naggrís, fannst tad virdast adeins staerra. Tad lá á bordinu, búid ad kljúfa tad í tvennt svo oll innyflin sáust og ad sjálfsogdu voru klaer og tennur á tví líka.
En aftur ad afmaelinu. Ég og Paula fórum upp á tak svo ég gaeti kennt henni ad dansa, tví hún er ekki besti dansarinn, fyrirgefdu elsku Paula mín! Hahaha, svo vorum vid bara á takinu í allra augsýn og dilludum okkur! Hún nádi tessu samt mjog vel, hún má alveg eiga tad! Svo spjolludum vid saman, held vid verdum bara betri og betri vinkonur.
Loks fórum vid heim og gátum farid ad undirbúa okkur fyrir tad sem okkur hafdi hlakkad til allan daginn....la quinceañera! Quince týdir 15 og añera held ég ad sé einhver brenglun á ordinu año sem týdir ár. Quinceañera er semsagt veisla sem stelpur í Sudur-Ameríku halda tegar taer verda 15 ára. Stelpa í bekknum hennar Paulu hafdi bodid henni og Paula og Katty vinkona mín í skólanum baud mér med teim tví tad mátti bjóda einni manneskju med sér. Ég og Paula gerdum okkur til saman og vorum audvitad allt of seinar! Mirian vinkona mín kom ad saekja mig tví vid aetludum ad fara saman, svo turfti hún ad bída heillengi eftir okkur, greyid! En svo var Renzo ekkert tilbúinn strax svo vid bidum líka eftir honum, tví vid megum ekkert fara án hans. Paula var rosasaet í bleikum kjól sem hún leigdi sér tví hún átti engann. Mirian var somuleidis algjor skvísa og Renzo ótrúlega myndarlegur í skyrtu og allt! Sjálf var ég frekar odruvísi klaedd en hinar stelpurnar, adeins fullordinslegri held ég, meira svartklaedd. Svo var ég eina "ljóshaerda" manneskjan á ollum stadnum svo ég held ég hafi verid frekar áberandi, hahaha!
Vid komum um 12-leytid í afmaelid (en hérna er víst venja ad hafa tad frekar seint, held tad hafi byrjad 9-10). Tetta er svipad og fermingarveislur á Íslandi nema bara miklu staerra! Ég hef aldrei séd slíkan kjól sem afmaelisstelpan, Patty, var í. Hann var bleikur og toppurinn alskreyttur steinum. Svo var pilsid tvílíkt stórt og fór svona út eins og ballerínupils gera og úr svipudu efni nema tad voru morg log af tvi svo tad nádi nidur á gólf. Patty var med gervineglur, kórónu og skartgripi, smá uppsett og krullad hár og stóra skartgripi. Tetta var líkara giftingu prinsessu heldur en 15 ára afmaeli, svo mikid var lagt í tetta allt! Hún dansadi líka vid aettingja sína, venjulega er dansad vid pabbann en hann var erlendis. Menn med sverd og í einkennisbúningum donsudu í kringum hana og lyftu sverdum og tetta var bara ótrúlegt (gleymdi ég ad minnast á sápukúluvélina? Ó, ókei....tad var SÁPUKÚLUVÉL tarna!). Tjónar gengu í kringum oll bord med ótrúlega góda smárétti og svo var bodid upp á eplavín. Ég var búin ad taka mér glas tegar mér var sagt ad tetta vaeri áfengt svo ég fékk bara vinkonu mína til ad drekka úr mínu glasi líka, hahaha! Hér er víst venja ad bjóda upp á nokkra sopa tó ad krakkarnir séu kannski 14-15 ára. Ég er svoddan prinsípp-brjálaedingur og vil alls ekki smakka áfengi ad ég fékk svakalegt samviskubit tegar ég smakkadi drykk á bordinu sem reyndist svo áfengur. Paula stríddi mér og sagdi: "aaaahhh, tú drakkst áfengi!" og ég oskradi á hana á móti ad tad teldist ekki med, ég hefdi haldid ad hann vaeri óáfengur.
Í adalrétt var kjúklingur og hrísgrjón og Coca-cola og Inca Kola (sem er vinsaell gosdrykkur hérna, skaergulur á litinn. Mér finnst hann rosalega gódur tví hann minnir mig á Frískamín, tíhí). Ótrúlega gott allt saman. Svo var fullt af saetum réttum á bordi sem ég steingleymdi ad smakka! Renzo og vinir hans í danshópnum voru med atridi ásamt Patty, FÁRÁNLEGA flott og ég og hinar stelpurnar urdum gjorsamlega ástfangnar af ollum strákunum í danshópnum enda fátt meira adladandi en strákur sem getur dansad (ad mínu mati allavega). ;) Sídan var sko djammad! Vid Íslendingar verdum ad herda okkur í veislunum tví vid komumst sko ekki med taernar tar sem Perúbúar hafa haelana! Tarna var snilldarplotusnúdur og fyrst var enginn ad dansa. Svo fór eitt par á dansgólfid og ég sagdi vid Renzo: "QUIERO BAILAR!" svo hann bad vin sinn um ad dansa vid mig. Hann er kalladur Negro tví hann er dekkri en margir adrir (hér er tetta ekki módgun, alls ekki eins og ad segja ad einhver sé negri). Hann er fáránlega gódur dansari og var algjort krútt ad kenna mér. Svo kom fullt af odru fólki á dansgólfid og tá var sko djammad! Strákarnir hérna eru miklu meiri dansarar en teir íslensku og tad var mikid um rassadill og mjadmahreyfingar skulum vid segja. Svo kom fólk í sirkusbúningum og einn var á stultum!!! Fengum líka flautur, hawaii-hálsmen og glow-armbond og tad var: "la hora loca" eda "klikkadi tíminn" (hljómar alls ekki eins vel á íslensku). Tad var tvílíkt stud og ég og Paula vorum mjog leidar yfir ad turfa ad fara strax tegar host-pabbi hennar kom ad saekja okkur. En svo spjolludum vid saman eftir ballid og ég fékk ad gista hjá henni. :D
Jaeja, elskurnar, tad kjaftar á mér hver tuska og núna er ég búin ad neyda ykkur í ad lesa tetta langa blogg. Takk aedislega fyrir ad nenna ad lesa og tad er svo gaman ad heyra frá ykkur og heyra gód ummaeli um mig og bloggid. Naest skal ég reyna ad hafa tetta styttra og skrifa frekar oftar. ;)
Chao for now,
Joint!
miðvikudagur, 4. september 2013
Poco a poco!
Jæja, önnur umferđ, tar sem allt sem ég hafđi skrifađ eyddist á tessari blessuđu spjaldtölvu sem Brenda var svo yndisleg ađ lána mér.
Var búin ađ vera í 4 daga fríi, frá fimmtudegi til sunnudags, sem ég kunni vel ađ meta. Gerđi samt ekki mjög mikiđ, fór í bíó međ Paulu og Job (host-bróđur hennar) sem var mjög gaman og viđ keyptum stærsta popp-poka sem ég hef séđ á ævinni!
Langar ađ segja frá nokkrum manneskjum hérna. Í fyrsta lagi host-mamma mín, hún er yndisleg en ekki mjög mikiđ heima, hún er sálfræđingur en kennir litlum krökkum (nánast alveg eins og mamma mín). Svo er Marily, held hún sé fjölskylduvinur en er ekki alveg viss. Hún eldar alltaf hádegismat fyrir okkur og gefur mér og Brendu morgunmat. Hún er yndisleg, alltaf brosandi og miklu lágvaxnari en ég (eins og flestir hérna reyndar, hahaha). Svo er hún međ svo skemmtilegan hlátur og hún er bara falleg ađ innan sem utan. Svo er Brenda, litla systir mín algjör dúlla og minnir mig stundum á Valdísi, enda eru tær jafngamlar. Vicky, host-mamma Paulu er alltaf ađ hjálpa mér og henni međ allt fyrir skólann og ég má alltaf kíkja í heimsókn til teirra sem ég er mjög ánægđ međ. Paula, tyski skiptineminn...ja, held ég geti alveg sagt ađ hún sé besta vinkona mín hérna, hún er 2 árum yngri en ég tek aldrei eftir tví! Hún er mjög troskuđ og svo fyndin, tađ er auđvelt fyrir okkur ađ hlæja saman og tađ er rosagott ađ tala viđ hana. Svo er hún auđvitađ bráđfalleg! Svo eru flestar stelpurnar í skólanum ótrúlega fínar og strákarnir líka. Kynntist líka stelpu á facebook sem er núna í Argentínu en er perúsk og viđ tölum mikiđ saman sem er rosalega skemmtilegt tví viđ tölum mikiđ um íslenska og perúska menningu. Síđast verđ ég ađ nefna host-bróđur minn Renzo. Ég veit varla hvađ ég myndi gera hérna án hans! Hann talar ensku svo hann getur tytt fyrir mig tó hann sé reyndar farinn ađ "neyđa" mig til ađ tala spænsku međ tví ađ tykjast ekki skilja tegar ég tala ensku. Svo er hann bara alltaf svo almennilegur viđ mig og einlægur og viđ tölum oft saman ef viđ erum ađ hugsa um eitthvađ sérstakt. Annars eru allir hérna mjög góđir viđ mig, svo perúska tjódin í heild sinni fær lof frá mér fyrir tađ, hahaha!
Skólinn venst ágætlega en stundum vil ég fá ađ vera ein í smá stund. Ekki af tví ađ tađ er eitthvađ ađ krökkunum, alls ekki, mér finnst bara gott ađ vera ein. Svo eru nokkrir ađrir hlutir viđ skólann sem ég tarf ađ venjast. Í fyrsta lagi eru rosalega mikil læti í bekknum. Ég var orđin vön tví í MH ađ nemendur réttu upp hönd til ađ fá ađstođ frá kennaranum og tađ væri í mesta lagi mas í bekknum. Hérna æpa allir sem turfa hjálp: "teacher" eđa "profe". Á međan sit ég bara og glósa, les bók, lita eđa skrifa í dagbókina mína. Í öđru lagi eru rosalega strangar reglur í skólanum. Tađ er bannađ ađ vera međ lokka annars stađar en í eyrunum, skylda ađ vera í gallabuxum eđa allavega síđbuxum og skólapeysunni, strákarnir eru stuttklipptir og stelpurnar ómálađar međ snúđ í hárinu. Tetta er reyndar ekki svo mikiđ mál tó ég hafi pirrađ mig á tví í fyrstu (sérstaklega tegar ég átti ekki hárteygjur og var áminnt fyrir ađ vera međ slegiđ hár). Síđasta atriđiđ er tegar viđ turfum ađ fara í salinn tar sem viđ erum í frímínútum og standa í röđum. Svo höldum viđ vinstri höndinni uppi eins og hermenn, stígum eitt skref til hliđar međ vinstri fæti, leggjum höndina niđur og stígum saman. Ég get varla varist brosi tegar viđ gerum tetta tví ég sé enn ekki tilganginn og mér líđur eins og veriđ sé ađ tjálfa litla hermenn. Tetta er samt frábær skóli og ég ætla ekki ađ láta svona smáatriđi skyggja á hvađ tetta er frábær reynsla. Enda er tađ einmitt tađ sem manni finnst skrítiđ, ótægilegt og erfitt sem troskar mann held ég.
Eitt rosaskemmtilegt sem mig langar ađ segja frá er perúska sápuóperan sem ég er ađ reyna ađ fylgjast međ. Hún heitir "Mi amor, el wachimán" eđa "ástin mín, öryggisvörđurinn" og já, tetta er sko alveg jafnhallærislegt og tađ hljómar! Sápuóperan fjallar semsagt um unga konu og öryggisvörđinn, ástir teirra og örlög. Tegar ég byrjađi ađ horfa á tetta var búiđ ađ skjóta vörđinn. Á spítalanum tar sem hann lá á milli heims og helju voru unga konan, mamma hennar, mamma varđarins og auđvitađ aukatíkin*. Ég skildi nú ekki mikiđ en ađ sjálfsögđu fór mamman ađ öskra á ungu konuna tví einhverra hluta vegna var tad henni ađ kenna ađ hann var skotinn. Aukatíkin stóđ tétt viđ hliđ mömmunnar á međan unga kona grenjađi og mamma hennar varđi hana fyrir ljótum orđum mömmu varđarins. Sem betur fer lifđi vörđurinn af...svo er bara ađ bíđa og sjá hvernig fer!
*Aukatíkin er karakter sem ég held ađ sé mjög algengur í S-Amerískum sápuóperum. Hennar hlutverk er ađ vera kyntokkafull og algjör nađra viđ ađalkarakterinn (ef hann er kvenkyns). Hún hefur ekki áberandi persónuleika en er alltaf tarna, bara til ađ koma međ andstyggilegar athugasemdir um ađalpersónuna.
Spænskan gengur ekkert rosalega vel hjá mér enda langar mig svo ađ segja allt rétt svo ég segi bara ekki neitt ef ég veit ekki alveg hvernig. En ætla ađ reyna ađ bæta úr tví og finna einhver kennslumyndbönd á netinu og svona. Ástæđan fyrir titlinum "poco a poco" er ađ smám saman læri ég inn á menninguna hérna, tungumáliđ og siđina tó tađ gangi stundum erfiđlega. "Poco a poco" tyđir einmitt "skref fyrir skref". Skrifa meira bráđlega, chao for now! ;)
fimmtudagur, 29. ágúst 2013
Skólinn og fleira :D
Jaeja, tad er margt búid ad gerast sídustu daga, skólinn byrjadi á midvikudegi og vá, hvad tad var skrítid! Allir í bekknum kynntu sig fyrir mér og svo fengum vid gos, snakk og nammi bara til ad halda upp á ad ég vaeri komin og til ad bjóda mig velkomna! Svo eru allir ótrúlega yndislegir vid mig í skólanum og held ég hafi sjaldan fengid jafnmargar vinabeidnir a nokkrum dogum. Ein stelpan í skólanum sagdi mér ad ég og Paula vaerum odruvísi og tess vegna svona spennandi og ad allir strákarnir í skólanum myndu drepa fyrir deit med okkur (veit nú ekki hversu satt tad er, hahaha!) Tad er samt ótrúlegt hvad krakkarnir eru almennilegir vid okkur, sumir hópast alveg í kringum mann og ég hef nokkrum sinnum turft ad syngja fyrir mismunandi krakka tví ég sagdi teim ad mér fyndist gaman ad syngja. Fyrst gerdi ég tad í skólanum og allir kloppudu tvílíkt mikid fyrir mér. Svo eru margir sem segja ad ég sé med falleg augu og sé falleg, rosalega gaman ad heyra tad, tíhí! En vonandi verd ég bara ein af teim eftir smá tíma, tau aettu ekki ad setja mig á stall bara tví ég er odruvísi.
Pabbi Brendu og Renzo kom heim fyrir svona 3 dogum. Vid sóttum hann á flugvollinn og mér leid pínu eins og ég vaeri fyrir tví ad amma, afi og eitthvad fraendfolk var tarna svo ég fór bara upp og beid tar. Tá helltist yfir mig svakaheimtrá tví tau voru ad upplifa endurfundi og sameiningu medan ég var ekki ein af teim og oll fjolskylda mín og vinir eru heima á Íslandi. Host-bródir minn var samt algjort yndi og tók alveg eftir tví ad eitthvad vaeri ad. Sídustu daga hef ég upplifad smá laegd tví ég sakna audvitad svo margra heima og líka íslensks matar og vatns og sérstaklega tess ad geta ekki talad íslensku vid neinn, gerdi mér ekki grein fyrir tví hvad tad er stór hlutur í lífinu ad geta talad sitt eigid tungumál! En tetta er alls ekkert til ad hafa áhyggjur af (dettur nokkrar manneskjur í hug sem gaetu fengid smá sting í hjartad vid ad lesa tetta) tví tetta er fullkomlega edlilegur partur í tessu ferli sem skiptinám er og tetta er mjog vaegt tví dvolin hér hefur verid yndisleg.
Tad er margt ólíkt vid Ísland og Perú, svona litlir hlutir sem ég tek eftir.
1. Umferdin, vá hvad hún er grídarlega ólík umferdarmenningu Íslands. Tegar Renzo kom ad ná í mig til ad fara med mig heim vorum vid fimm manneskjur + leigubílstjórinn og enginn notadi belti! Tetta er eitthvad sem mér hefdi ekki einu sinni dottid í hug á Íslandi. Svo er eitt mjog perúskt og tad er hinn svokalladi Mototaxi, mjog skemmtileg blanda af leigubíl og mótorhjóli (einhverskonar yfirbygging yfir hjólinu og jafnmorg saeti og í bíl en stundum er tad einu saeti faerra tví tad er ekki alltaf haegt ad sitja hja bilstjoranum, rosalega fyndid). Fór í gaer á diskótek med Renzo og vid vorum 5 í aftursaetinu og takid er svo lágt ad teir sem sátu ofan á snertu nánast takid med hausnum (og engin belti audvitad, ekki fríka út mamma). Svo er allt einhvern veginn í óreidu í umferdinni, íslensk umferd er mun skipulagdari og tau eru ekki med gangbrautarljós (bíd bara eftir ad einhver mototaxi keyri mig nidur og brjóti á mér útlim eda tvo, en verd bara ad vera rosalega vakandi).
2. Matarmenningin, ég hef talad smá um hana ádur en gleymdi ad minnast á ad tau nota aldrei hnífa, bara annadhvort gaffal eda skeid. Svo deila allir matnum sínum med hinum í skólanum, ég reyni ad gera tad líka en tad er nú eitthvad eftir af íslensku nískunni í manni enntá.
3. Eitt sem Perúbúar gera sem mér finnst rosalega krúttlegt er ad segja: "Aha" í stadinn fyrir "já" (tetta er eiginlega hlidstaeda íslenska ordsins "akkúrat")
4. Djammid, okei, fór nú bara einu sinni reyndar en tad sem er ólíkt er ad tau fara um hábjartan dag, vid logdum af stad um trjúleytid og fórum heim um sexleytid. Gaman ad segja frá tví ad tegar ég fór í gaer fórum vid fyrst med mototaxi og á heimleidinni tókum vid straetó sem var trodfullur og vid turftum ad standa. Smakkadi churro í fyrsta sinn eftir "djammid" og vá, tad er svo gott! Svona saett braudmeti med einhverju saetu og klistrudu inn í.
5. Straetó, okei, gaeti tengst umferdarmenningunni en tetta er svo fyndid fyrirbaeri ad tad faer spes umfjollun. Semsagt í gaer fékk ég ad kynnast tessari menningu og tetta er svo skrítid midad vid Ísland! Okei, í dyragaettinni stód karl sem minnti mig á spaenskan Gísla Rúnar og var med tvílíka reykingarodd, ekki svona hása heldur nánast eins og vaeri verid ad kyrkja hann. Hann var semsagt midakarlinn og alltaf tegar straetóinn stoppadi opnadi hann hurdina og hélt á skilti med ferdaáaetlun straetósins og kalladi til fólks eitthvad á spaensku, líklega til ad fá tad til ad koma med. Svo var tvílíkur aesingur ad ná fólki upp í straetóinn, hann rétt svo stoppadi og teyttist svo áfram. Karlinn hélt í band á hurdinni og stundum labbadi hann út úr straetó tegar hann var enntá á smá ferd og hoppadi svo snogglega upp í hann aftur og straetóinn teystist af stad, alveg ótrúlegt og ég vaeri nú smeyk í tessari vinnu! Svo gekk hann bara á milli fólks og rukkadi tau um fargjaldid. Ég átti nú bágt med ad flissa ekki tví tetta er bara allt annar heimur fyrir mér!
6. Afmaelispartý. Í gaer héldum vid upp á afmaeli Brendu og vorum líka ad fagna tví ad pabbi krakkanna vaeri kominn heim. Vid fengum ótrúlega gott svínakjot, hrísgrjón og einhverja rót sem kallast "juga" held ég (svipad kartoflu). Svo var líka gos og rosagód terta í eftirrétt. Hérna er hefd fyrir afmaelisbarnid ad taka einn bita af afmaeliskokunni adur en hun er skorin og ad sjalfsogdu gerdi Brenda tad. Ég gaf henni liti og spong í afmaelisgjof sem ég versladi hérna úti, vissi ekkert hvad ég átti ad kaupa en held hún hafi verid ánaegd, hún kyssti mig allavega og takkadi mér fyrir (ooohhh, hún er svo mikil rúsína, elska hana!). Svo var karaoke og fullordna fólkid song og svo var dansad og hlegid og tetta var bara yndislegt (verd nú ad segja ad tetta skákar íslensku veislunum ). En tetta var kannski ekki svo hefdbundid afmaeli tví vid vorum líka ad fagna heimkomu pabbans, svo tetta var kannski meira fullordins.
7. Búdarmenningin, hér eru ótal litlar búdir á hverju strái. Ég tarf t.d. bara ad labba yfir gotuna og ég er komin inn í búd. Taer eru litlar og trongar og ég held tad séu alveg 4-5 búdir bara alveg vid "blokkina" mína. Hér er allt rosalega ódýrt, keypti mér íspinna (mmm...hann var svo gódur) sem var svona svipadur á staerd og lúxusíspinni og hann kostadi eitt og hálft sol sem er kannski svona 70 kr. í mesta lagi! Verd ad passa mig á tessu, aetla ad reyna ad takmarka nammi-og ískaup, svo held ég líka ad peningurinn klárist fljótt ef madur er alltaf ad kaupa eitthvad lítid eins og nammi og tyggjó (safnast tegar saman kemur). Var rosastolt af mér fyrir ad ná ad kaupa gjofina hennar Brendu ein, var smá kvídin og var ad vonast til ad Renzo kaemi med mér en svo reddadist tetta audvitad.
Svo trátt fyrir menningarmismuninn, heimtrána og skilningsleysi á spaenskunni er tetta búid ad vera frábaer upplifun og hér er allt svo heimilislegt og kósý. Allir koma vel fram vid mig og tad sem er odruvísi en heima mun bara byggja mig upp og tad er gaman ad odlast nýja reynslu og odruvísi sýn á heiminn.
Tangad til naest, ást og fridur, Jóna Kristín.
Pabbi Brendu og Renzo kom heim fyrir svona 3 dogum. Vid sóttum hann á flugvollinn og mér leid pínu eins og ég vaeri fyrir tví ad amma, afi og eitthvad fraendfolk var tarna svo ég fór bara upp og beid tar. Tá helltist yfir mig svakaheimtrá tví tau voru ad upplifa endurfundi og sameiningu medan ég var ekki ein af teim og oll fjolskylda mín og vinir eru heima á Íslandi. Host-bródir minn var samt algjort yndi og tók alveg eftir tví ad eitthvad vaeri ad. Sídustu daga hef ég upplifad smá laegd tví ég sakna audvitad svo margra heima og líka íslensks matar og vatns og sérstaklega tess ad geta ekki talad íslensku vid neinn, gerdi mér ekki grein fyrir tví hvad tad er stór hlutur í lífinu ad geta talad sitt eigid tungumál! En tetta er alls ekkert til ad hafa áhyggjur af (dettur nokkrar manneskjur í hug sem gaetu fengid smá sting í hjartad vid ad lesa tetta) tví tetta er fullkomlega edlilegur partur í tessu ferli sem skiptinám er og tetta er mjog vaegt tví dvolin hér hefur verid yndisleg.
Tad er margt ólíkt vid Ísland og Perú, svona litlir hlutir sem ég tek eftir.
1. Umferdin, vá hvad hún er grídarlega ólík umferdarmenningu Íslands. Tegar Renzo kom ad ná í mig til ad fara med mig heim vorum vid fimm manneskjur + leigubílstjórinn og enginn notadi belti! Tetta er eitthvad sem mér hefdi ekki einu sinni dottid í hug á Íslandi. Svo er eitt mjog perúskt og tad er hinn svokalladi Mototaxi, mjog skemmtileg blanda af leigubíl og mótorhjóli (einhverskonar yfirbygging yfir hjólinu og jafnmorg saeti og í bíl en stundum er tad einu saeti faerra tví tad er ekki alltaf haegt ad sitja hja bilstjoranum, rosalega fyndid). Fór í gaer á diskótek med Renzo og vid vorum 5 í aftursaetinu og takid er svo lágt ad teir sem sátu ofan á snertu nánast takid med hausnum (og engin belti audvitad, ekki fríka út mamma). Svo er allt einhvern veginn í óreidu í umferdinni, íslensk umferd er mun skipulagdari og tau eru ekki med gangbrautarljós (bíd bara eftir ad einhver mototaxi keyri mig nidur og brjóti á mér útlim eda tvo, en verd bara ad vera rosalega vakandi).
2. Matarmenningin, ég hef talad smá um hana ádur en gleymdi ad minnast á ad tau nota aldrei hnífa, bara annadhvort gaffal eda skeid. Svo deila allir matnum sínum med hinum í skólanum, ég reyni ad gera tad líka en tad er nú eitthvad eftir af íslensku nískunni í manni enntá.
3. Eitt sem Perúbúar gera sem mér finnst rosalega krúttlegt er ad segja: "Aha" í stadinn fyrir "já" (tetta er eiginlega hlidstaeda íslenska ordsins "akkúrat")
4. Djammid, okei, fór nú bara einu sinni reyndar en tad sem er ólíkt er ad tau fara um hábjartan dag, vid logdum af stad um trjúleytid og fórum heim um sexleytid. Gaman ad segja frá tví ad tegar ég fór í gaer fórum vid fyrst med mototaxi og á heimleidinni tókum vid straetó sem var trodfullur og vid turftum ad standa. Smakkadi churro í fyrsta sinn eftir "djammid" og vá, tad er svo gott! Svona saett braudmeti med einhverju saetu og klistrudu inn í.
5. Straetó, okei, gaeti tengst umferdarmenningunni en tetta er svo fyndid fyrirbaeri ad tad faer spes umfjollun. Semsagt í gaer fékk ég ad kynnast tessari menningu og tetta er svo skrítid midad vid Ísland! Okei, í dyragaettinni stód karl sem minnti mig á spaenskan Gísla Rúnar og var med tvílíka reykingarodd, ekki svona hása heldur nánast eins og vaeri verid ad kyrkja hann. Hann var semsagt midakarlinn og alltaf tegar straetóinn stoppadi opnadi hann hurdina og hélt á skilti med ferdaáaetlun straetósins og kalladi til fólks eitthvad á spaensku, líklega til ad fá tad til ad koma med. Svo var tvílíkur aesingur ad ná fólki upp í straetóinn, hann rétt svo stoppadi og teyttist svo áfram. Karlinn hélt í band á hurdinni og stundum labbadi hann út úr straetó tegar hann var enntá á smá ferd og hoppadi svo snogglega upp í hann aftur og straetóinn teystist af stad, alveg ótrúlegt og ég vaeri nú smeyk í tessari vinnu! Svo gekk hann bara á milli fólks og rukkadi tau um fargjaldid. Ég átti nú bágt med ad flissa ekki tví tetta er bara allt annar heimur fyrir mér!
6. Afmaelispartý. Í gaer héldum vid upp á afmaeli Brendu og vorum líka ad fagna tví ad pabbi krakkanna vaeri kominn heim. Vid fengum ótrúlega gott svínakjot, hrísgrjón og einhverja rót sem kallast "juga" held ég (svipad kartoflu). Svo var líka gos og rosagód terta í eftirrétt. Hérna er hefd fyrir afmaelisbarnid ad taka einn bita af afmaeliskokunni adur en hun er skorin og ad sjalfsogdu gerdi Brenda tad. Ég gaf henni liti og spong í afmaelisgjof sem ég versladi hérna úti, vissi ekkert hvad ég átti ad kaupa en held hún hafi verid ánaegd, hún kyssti mig allavega og takkadi mér fyrir (ooohhh, hún er svo mikil rúsína, elska hana!). Svo var karaoke og fullordna fólkid song og svo var dansad og hlegid og tetta var bara yndislegt (verd nú ad segja ad tetta skákar íslensku veislunum ). En tetta var kannski ekki svo hefdbundid afmaeli tví vid vorum líka ad fagna heimkomu pabbans, svo tetta var kannski meira fullordins.
7. Búdarmenningin, hér eru ótal litlar búdir á hverju strái. Ég tarf t.d. bara ad labba yfir gotuna og ég er komin inn í búd. Taer eru litlar og trongar og ég held tad séu alveg 4-5 búdir bara alveg vid "blokkina" mína. Hér er allt rosalega ódýrt, keypti mér íspinna (mmm...hann var svo gódur) sem var svona svipadur á staerd og lúxusíspinni og hann kostadi eitt og hálft sol sem er kannski svona 70 kr. í mesta lagi! Verd ad passa mig á tessu, aetla ad reyna ad takmarka nammi-og ískaup, svo held ég líka ad peningurinn klárist fljótt ef madur er alltaf ad kaupa eitthvad lítid eins og nammi og tyggjó (safnast tegar saman kemur). Var rosastolt af mér fyrir ad ná ad kaupa gjofina hennar Brendu ein, var smá kvídin og var ad vonast til ad Renzo kaemi med mér en svo reddadist tetta audvitad.
Svo trátt fyrir menningarmismuninn, heimtrána og skilningsleysi á spaenskunni er tetta búid ad vera frábaer upplifun og hér er allt svo heimilislegt og kósý. Allir koma vel fram vid mig og tad sem er odruvísi en heima mun bara byggja mig upp og tad er gaman ad odlast nýja reynslu og odruvísi sýn á heiminn.
Tangad til naest, ást og fridur, Jóna Kristín.
þriðjudagur, 20. ágúst 2013
Los Olivos!!!
Ferðin byrjaði á því að ég vaknaði klukkan 6 og gerði mig til og svo fór ég út á flugvöll og kvaddi fjölskyldu mína sem var frekar erfitt, sérstaklega fyrir mig og mömmu. Svo fór ég í flugvél í fyrsta skipti og það var mjög spennandi en eftir smástund varð það frekar venjulegt og það var frekar erfitt að sofa í flugvélinni svo ég beið þess bara að fluginu lyki. Eftir það tók við 11 klst. bið á JFK - flugvellinum en sem betur fer var ég með Láru og Ernu, íslensku stelpunum og þær fá sko endalausar þakkir því ég hefði aldrei komist á leiðarenda án þeirra enda aldrei komið á flugvöll áður. Gaman að segja frá því að ég fékk McDonald's hamborgara í fyrsta skipti í svona 4-5 ár, namminamm! Loks fórum við í seinna flugið og það var bara magnað að sjá yfir New York - borg enda komin nótt og öll borgin uppljómuð!
Í Lima gistum við tvær nætur í skóla og það var frekar sérstök upplifun því það var allt harðlæst, við fengum semsagt ekkert að fara út fyrir múrana sem umluktu skólalóðina. Svo var ekki heitt vatn svo ég fór í köldustu sturtu sem ég hef tekið á ævinni held ég bara sem fór rosavel í kvefið sem ég nældi mér í og var farið að láta á sér kræla í flugvélinni til New York. Það var vel séð um okkur og við fengum mjög góðan mat. Ég kynntist mjög skemmtilegum skiptinemum þarna, einni stelpu frá Frakklandi, annarri frá Kanada, stelpum frá Sviss og stelpu frá Þýskalandi sem býr nú reyndar fyrir ofan mig! Ég fann smá fyrir menningarmuninum í "skiptinemabúðunum" því sumir voru mjög opnir og hressir og vildu tala við mann meðan aðrir krakkar frá öðrum löndum töluðu bara sitt tungumál sín á milli og svöruðu manni kannski en spurðu einskis til baka. Host-bróðir minn kom svo að sækja mig þegar við höfðum gist tvær nætur í skólanum og ég var svo hissa á því að sjá hann því ég hélt hann myndi sækja mig um kvöldið. Ég tók leigubíl með Paulu (þýsku stelpunni) og Simon frá Sviss. Við vorum fimm í leigubílnum ásamt leigubílstjóranum svo við þurftum að troða og mér fannst það ótrúlegt því þetta er aldrei gert á Íslandi. Svo komum við heim og húsið er þriggja hæða blokk og ein íbúð á hverri hæð. Ég er á 2. hæð og Paula á 3. hæð en Simon býr aðeins lengra í burtu frá okkur stelpunum.
Húsið er gríðarlega ólíkt heimili mínu á Íslandi og það er kannski smá sveitastemmning við það má segja. Mér finnst það rosalega kósý og við erum alltaf í skónum inni (spurði Renzo hvort ég ætti ekki að fara úr þeim, ég er svo gáfuleg, en til að vita þarf að spyrja ;) ).
Ég sef með Brendu, litlu systur minni í herbergi og Sef með teppi sem er reyndar mun þægilegra en ég bjóst við. Það er frekar kalt á nóttunni svo ég sef í sokkum og langermabol. Hérna er líka bara kalt vatn en köldu sturturnar venjast ágætlega og þetta verður örugglega mjög kærkomið í sumar. Það er vetur núna fyrir þeim en dagarnir hér eru eins og ágætisvordagar á Íslandi.
Maturinn hérna er mjög ólíkur og matarvenjur líka. Hér er mikið borðað af hrísgrjónum og kjúklingi og hádegismaturinn er rosalega stór. Í morgunmat er alltaf brauð og heit mjólk (fékk það sem ég held að hafi verið heit mjólk, polenta sem er eins og pínuponsulítil grjón og kanil og sykur, ótrúlega gott). Í hádegismat er oftast réttur með kjöti, grænmeti og hrísgrjónum og líka súpa! Í kvöldmat er eitthvað kjöt eða afgangar úr hádegismatnum. Við drekkum vatn með matnum eða heitt vatn með jurtum og ég held líka sykri því þetta er mjög sætt og ég kýs frekar að drekka eintómt, kalt vatn. Ó, já, þau borða rosalega mikinn rauðlauk með matnum en sem betur fer finnst mér rauðlaukur mjög góður.
Fyrsta daginn tók ég úr töskunum og fékk fisk og súpu að borða. Það er engum orðum ofaukið að Perúbúar séu nýtnir því ég fékk heilan fisk, kannski 15-20 cm langan, með hausi, sporði og roði. Engar áhyggjur, hann var mjög góður og ég borðaði hann með bestu lyst og roðið líka. ;)
Svo kynntist ég Angelu sem er 15 ára frænka Brendu og Renzo og hún er bara yndisleg! Hún elskar k-pop og hún fór að kenna mér spænsku þegar ég sýndi henni vinnubókina mína sem ég notaði í spænsku 103 og 203. Hún var ekkert smá þolinmóð við mig og mér líkar rosalega vel við hana og alla í fjölskyldunni. Fór svo út með Brendu, Angelu og Job sem er 13 ára og host-bróðir Paulu. Ég fór með þeim út í garðinn rétt fyrir utan húsið með hundinum okkar Chestnut, hann er svo rosalega mikið krútt og svo lítill að það hálfa væri hellingur! Svo eigum við líka kanínu sem heitir Bombon og Paula á líka pínulítinn krútthund sem heitir Velita. Daginn eftir hjálpaði tók ég létt skokk um morguninn með Angelu og ég hjálpaði Violetu aðeins í eldhúsinu og hún kenndi mér nokkur spænsk orð. Hún er alveg yndisleg og ég vona að ég nái spænskunni fljótt svo ég geti farið að tala almennilega við hana.
Í gær fór ég með Renzo og vinum hans a dansæfingu og þau kenndu mér nokkur spor sem var sjúklega gaman og þau eru öll svo flinkir dansarar. Eftir það spjölluðum við helling saman (á ensku) og það er mjög þægilegt að tala við hann því hann er rólegur og auðveldur í umgengni. Vonandi verðum við góðir vinir því mér finnst ég strax vera afslöppuð í kringum hann eins og við séum félagar. Hérna er sérútvarpsstöð fyrir ensk lög svo ég get hlustað á ensku líka þó mér finnist gaman að hlusta á spænskuna en ég skil bara svo lítið því miður.
Ég fór að skoða skólann í dag með Paulu og Simon þó hann sé reyndar ekki að fara í þennan sama skóla og við. Skólastjórinn talaði við okkur og kynnti okkur fyrir starfsfólkinu og það var smá yfirþyrmandi þegar ég fattaði hvað Paula er orðin rosalega góð í spænsku og skilur nánast allt meðan ég skil bara eitt og eitt orð. Svo þurftum við að standa fyrir framan tvo bekki meðan skólastjórinn kynnti okkur. Það var pínu fyndið að fyrst hélt hann að ég héti Jónas sem ég leiðrétti því ég vil helst halda mínu rétta og kvenlega nafni. ;) Svo fengum við skólabúninginn sem er reyndar mun íburðarminni en ég hélt, dökkblá hettupeysa með nafni skólans í gulum stöfum á vinstra brjósti. Svo fengum við líka rauða hettupeysu og rauðar buxur sem ég held við eigum að nota þegar við förum í tónlistar-og danstíma á laugardögum (já, elskurnar mínar, það er skóli á laugardögum). Ef ég skildi það rétt byrjar skólinn korter í átta og er búinn korter yfir tvö svo hann er ekkert svo lengi sem er bara rosafínt.
Þetta verður að duga í bili elskurnar, skrifa vonandi fljótlega aftur!
Kossar og knús,
Jóna.
laugardagur, 10. ágúst 2013
4 dagar í fjörið!
Það er frekar skondið að segja frá aðstæðum Birnu Rósar, alveg yndislegrar stelpu sem ég kynntist í grunnskóla og er núna stödd í Paraguay sem skiptinemi. Í stuttu máli hafði hún verið eitthvað stressuð yfir því hvernig bera átti nafn host-bróður síns fram og spurt einn sjálfboðaliðann (ef ég skildi söguna rétt). Þá tók hann fram nafnspjaldið sitt og spurði: "þetta nafn?" Þá hafði hann verið með henni allan þennan tíma og ekki sagt henni neitt um að hann væri hluti af fósturfjölskyldunni. Þetta fannst henni mjög fyndið og þegar ég las þetta á blogginu hennar fannst mér þetta fyndið og hugsaði með mér að hún væri nú meiri kjáninn að hafa ekki fattað þetta.
Einhverjum dögum síðar fæ ég póst með fleiri upplýsingum um fjölskyldu mína (hafði aðeins fengið nafn mömmunnar u.þ.b. mánuði áður). Þegar ég er að skoða nöfnin á fjölskyldumeðlimunum fer ég allt í einu að hlæja og segja eitthvað á þessa leið: "Ertu ekki að grínast?!" Allir í fjölskyldunni minni fara að spyrja hvað sé í gangi og ég segi þeim það. Þá hafði perúskur strákur sem heitir Renzo sent mér vinabeiðni á facebook og ég samþykkti hana þar sem ég stóð í þeirri trú að hann væri sjálfboðaliði í AFS-samtökunum í Perú. Ég var búin að spjalla þó nokkuð mikið við hann og hann hafði sagt mér að hann væri á vegum AFS í Perú. En kemst ég svo ekki að því, mánuði eftir að ég samþykkti hann sem vin á facebook að hann er host-bróðir minn! Jæja, Birna, þú lést allavega ekki plata þig í mánuð eins og ég. ;)
Ég er orðin svo spennt fyrir þessu öllu! Í fjölskyldunni eru mamma, pabbi, Renzo (sem er fæddur 1993) og Brenda, jafngömul Valdísi yngstu systur minni (8 ára). Ég held að ég og Renzo eigum margt sameiginlegt, hann spilar á píanó (ég er reyndar hætt að æfa fyrir löngu) og dansar og hann virðist vera skemmtilegur og bara algjört yndi. Ég hlakka svo mikið til að fá að kynnast öllu þessu nýja fólki og öllum þessum nýju siðum. :)
Reyni að skrifa fljótlega aftur! :D
P.S. Var að komast að því að útivistartíminn minn í Perú verður til 8 á kvöldin. Það verður fyndið og skemmtilegt að venjast því eftir allt kæruleysið á Íslandi. ;)
Einhverjum dögum síðar fæ ég póst með fleiri upplýsingum um fjölskyldu mína (hafði aðeins fengið nafn mömmunnar u.þ.b. mánuði áður). Þegar ég er að skoða nöfnin á fjölskyldumeðlimunum fer ég allt í einu að hlæja og segja eitthvað á þessa leið: "Ertu ekki að grínast?!" Allir í fjölskyldunni minni fara að spyrja hvað sé í gangi og ég segi þeim það. Þá hafði perúskur strákur sem heitir Renzo sent mér vinabeiðni á facebook og ég samþykkti hana þar sem ég stóð í þeirri trú að hann væri sjálfboðaliði í AFS-samtökunum í Perú. Ég var búin að spjalla þó nokkuð mikið við hann og hann hafði sagt mér að hann væri á vegum AFS í Perú. En kemst ég svo ekki að því, mánuði eftir að ég samþykkti hann sem vin á facebook að hann er host-bróðir minn! Jæja, Birna, þú lést allavega ekki plata þig í mánuð eins og ég. ;)
Ég er orðin svo spennt fyrir þessu öllu! Í fjölskyldunni eru mamma, pabbi, Renzo (sem er fæddur 1993) og Brenda, jafngömul Valdísi yngstu systur minni (8 ára). Ég held að ég og Renzo eigum margt sameiginlegt, hann spilar á píanó (ég er reyndar hætt að æfa fyrir löngu) og dansar og hann virðist vera skemmtilegur og bara algjört yndi. Ég hlakka svo mikið til að fá að kynnast öllu þessu nýja fólki og öllum þessum nýju siðum. :)
Reyni að skrifa fljótlega aftur! :D
P.S. Var að komast að því að útivistartíminn minn í Perú verður til 8 á kvöldin. Það verður fyndið og skemmtilegt að venjast því eftir allt kæruleysið á Íslandi. ;)
föstudagur, 28. júní 2013
Byrjunin
Hæhæ! Ég heiti Jóna Kristín og ég er að fara til Perú í skiptinám 15. ágúst. Ég er frekar stressuð yfir því að þurfa að fara þar sem ég hef aldrei farið til útlanda áður. En það er einmitt það sem gerir þetta svona spennandi, stundum verður maður bara að henda sér í djúpu laugina. Ég kvíði fyrir því að fara frá öllum sem mér þykir vænt um en ég veit að þessi reynsla á eftir að nýtast mér út ævina, svo hvernig er ekki hægt að hlakka til líka? :D Ég fer 15. ágúst og ég er svo heppin að hafa kynnst fullt af frábærum krökkum sem eru líka að fara í ár til allskonar ólíkra landa sem skiptinemar Ég er líka búin að kynnast stelpunum tveimur sem eru líka að fara til Perú og þær eru frábærar, alveg ómetanlegt að hafa einhvern með sér í þessu. Þá þarf ég heldur ekki að stressa mig eins mikið yfir því hvað ég á að gera á flugvellinum. Ég hlakka mjög mikið til að fara í flugvél í fyrsta skipti, upplifa nýjan menningarheim (öðruvísi matur, föt og skóli) og að læra spænsku! Ég er ekki búin að fá fjölskyldu ennþá, en ég reyni bara að bíða róleg, þetta kemur allt saman. Ég veit frekar lítið um Perú, en það er allavega í Suður-Ameríku, haha, landafræðin er sko ekki mín sterkasta hlið! Höfuðborgin heitir Lima og gjaldmiðillinn sol (eins og sól býst ég við). Guðrún sem vinnur á skrifstofu AFS sagði að hún héldi að Perú hentaði mér vel þar sem ég væri jarðbundin og Perúbúar eru víst ekkert að pæla mikið í klukkunni og þeir sem þekkja mig vita það að ég er hræðilega óstundvís, hahaha! :) Þegar ég sótti um skiptinám vonaðist ég til þess að fá að fara til Spánar. Vegna skipulagsleysis míns var hins vegar allt fullt fyrir utan Sviss og Perú. Það fyrsta sem ég hugsaði var: "Sviss, mig langar ekkert að læra frönsku!" (vinur minn benti mér svo á að það er töluð þýska þar, eftir að hafa lagt lófann á ennið vegna heimsku minnar). Svo hugsaði ég: "Perú, hvar er það?!" (Snilligáfan var greinilega ekki að segja til sín þennan dag). Ég viðurkenni alveg að fyrst leist mér ekkert á Perú, en eftir að hafa talað við Guðrúnu fannst mér þetta hljóma frábærlega! Öðruvísi menning, spænskumælandi land, miklu minni efnishyggja en á Íslandi...akkúrat það sem mig langar að upplifa! Ó, já, ég kem heim eftir 10 mánuði, einhvern tímann í júní, svo þetta verður sko eitthvað!
Læt vita þegar ég fæ fleiri fréttir, vonandi verður ekki mjög löng bið eftir fjölskyldunni minni. ;)
Þangað til næst,
Jóna Kristín.
Læt vita þegar ég fæ fleiri fréttir, vonandi verður ekki mjög löng bið eftir fjölskyldunni minni. ;)
Þangað til næst,
Jóna Kristín.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)